Krýsuvík Nýja kirkjan er í gömlum stíl og setur sterkan svip á staðinn
Krýsuvík Nýja kirkjan er í gömlum stíl og setur sterkan svip á staðinn — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja verður vígð nk. sunnudag kl. 14, hvítasunnudag. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fv. víguslubiskup, annast athöfn og hefur formlega vígslu með höndum. Einnig þjóna sr.

Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja verður vígð nk. sunnudag kl. 14, hvítasunnudag. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fv. víguslubiskup, annast athöfn og hefur formlega vígslu með höndum. Einnig þjóna sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Gunnþór Þ. Ingason, sem hafði umsjón með fyrri Krýsuvíkurkirkju sem helgidómi og sr. Jónína Ólafsdóttir, nú sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju. Tónlist flytja þau Eyjólfur Eyjólfsson og Þóra Björnsdóttir.

Fyrri Krýsuvíkurkirkja, sem var byggð árið 1857, varð eldi að bráð eftir íkveikju í ársbyrjun 2010. Strax eftir brunann hófust bollaleggingar um endurreisn og stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju. Áður en að fyrsta fundi þess kom hafði Hrafnkell Marinósson, deildarstjóri við Iðnskólann í Hafnarfirði, bryddað upp á því að nemendur og kennarar smíðuðu nýja kirkju, sem gekk eftir.

Milli Vinafélags Krýsuvíkurkirkju og Iðnskólans í Hafnarfirði var samið um verkið og fljótlega var hafist handa við smíðina, sem tók tíu ár. Margir lögðu hönd á plóg. Kirkjan var smíðuð í Hafnarfirði, á verkstæði Tækniskólans, eins og stofnunin heitir nú. Kirkjunni var komið fyrir á grunni sínum, fullsmíðaðri, í október 2020. Fyrri Krýsuvíkurkirkja var reist 1857. Sú var að falli komin um miðja síðustu öld, þegar Björn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, fór í endurreisn. Teikningar af kirkjunni, sem starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands gerði, lágu fyrir og nýttust við endursmíðina.

Nýja kirkjan tekur 40 manns í sæti og við vígsluathöfnina verða hátalarar utandyra í Krýsuvík, svo allir megi heyra. Einnig verður hægt að fylgjast með útsendingu frá messunni í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, frá kl. 13:30.