Magnús Hauksson
Magnús Hauksson
Eftir Magnús Hauksson: "Neyðarlínan og farsímafélögin þrjú samnýta farsímasenda m.a. á fáförnum og afskekktum svæðum á landinu til að auka öryggi og bæta þjónustu."

Gott farsímasamband sem víðast á landinu er ekki einungis nauðsynlegt til þess að veita almenningi góða þjónustu, heldur er það einnig mikilvægt öryggismál. Því miður eru dæmi um það að fólki í neyð takist seint og illa að ná sambandi við neyðarnúmerið 112, vegna þess að farsímasendir er ekki á svæðinu eða að farsíminn nær ekki sambandi við næsta sendi, þar sem hann nýtur þjónustu hjá öðru farsímafélagi en því sem rekur viðkomandi sendi og farsíminn nær ekki að reika á milli kerfa.

Til að bregðast við þessu og stuðla að auknu öryggi og bættri þjónustu hafa Neyðarlínan og farsímafélögin þrjú, Nova, Síminn og Vodafone, tekið höndum saman um að samnýta farsímasenda m.a. á fáförnum og afskekktum svæðum á landinu þannig að sem víðast verði hægt að ná sambandi við 112-neyðarsvörun og aðra sem ná þarf í. Þessi svæði eiga það sammerkt að þar eru ekki markaðslegar forsendur fyrir uppsetningu farsímasenda vegna þess hve farsímanotkun er þar lítil.

Nú hafa fyrrgreindir aðilar gert með sér samkomulag um samnýtingu farsímasenda á 12 svæðum á landinu og önnur 30 eru til skoðunar. Stefnt er að því að sendum verði komið upp á um tug svæða á þessu ári, en þegar fram í sækir gætu svæðin orðið mun fleiri, jafnvel nærri 100. Öryggi mun þá aukast að sama skapi og þjónusta batna.

Það er tvennt sem gerir þetta mögulegt.

Annars vegar með því að nýta svokallaða MOCN-tæknilausn (e. Multi-Operator Core Networks) þar sem sami sendir getur tengst kjarnakerfum allra farsímafélaganna og fjarskiptasendar, búnaður og tíðni þannig samnýtt. Fyrirkomulagið er þannig að Neyðarlínan setur upp fjarskiptaaðstöðu og nauðsynlegan búnað eins og mastur og rafmagn á þessum stöðum og er hverju sinni í samstarfi við eitt af farsímafélögunum sem setur upp sendibúnað á staðnum.

Hins vegar kemur til opinber fjárstuðningur og skilyrði um að farsímar viðskiptavina farsímafélaganna hafi jafnan aðgang að sendinum. Þetta fyrirkomulag tryggir að símasamband á viðkomandi svæðum næst jafn greiðlega hjá viðskiptavinum allra farsímafélaganna, óháð því við hvaða farsímafélag viðkomandi er í viðskiptum.

Neyðarlínan hefur í rúman áratug, oft í samstarfi við fjarskiptasjóð, byggt upp sendastaði utan alfaraleiða og hafa farsímafélögin nýtt þá fyrir eigin farsímasenda. Árið 2020 kom þar að félögin töldu ekki lengur fjárhagslega hagkvæmt að gera það fyrir eigin reikning. Um þær mundir lagði Fjarskiptastofa þá kvöð á Neyðarlínuna að hún yrði alþjónustuveitandi. Það felur í sér að veita skuli viðunandi síma- og netþjónustu á lögheimilum og hjá fyrirtækjum í reglulegri starfsemi, þar sem fjarskiptafélögin sjá ekki hag sinn í að sinna slíkri þjónustu vegna lítillar farsímanotkunar, sökum strjálbýlis eða þess hve afskekkt svæðið er.

Þetta leiddi til þess að Neyðarlínan og farsímafélögin gerðu með sér það samkomulag sem hér hefur verið lýst. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að einungis þarf að styrkja uppsetningu eins sendis á hverjum stað, í stað þriggja ella. Í samningi aðila kemur m.a. fram að Neyðarlínan ákveður hvar þörf er á uppsetningu sendis og í framhaldi af því er farsímafélag valið til að annast verkefnið. Í samningnum er ekki kveðið á um hámarksfjölda sendastaða en Neyðarlínan velur sendistaði meðal annars m.t.t. alþjónustukvaðar félagsins á hverjum tíma. Eins og fyrr segir er áformað að þétta netið á næstu misserum, enda tilgangurinn með verkefninu að stuðla að því að koma á farsímaþjónustu þannig að sem víðast sé hægt að hringja í 112 til þess að kalla eftir hjálp.

Höfundur er rekstrarstjóri Neyðarlínunnar. magnus@112.is