Ingibjörg Sigurjónsdóttir
Ingibjörg Sigurjónsdóttir — Morgunblaðið/Eggert
Ingibjörg Sigurjónsdóttir opnar í dag kl. 17 sýninguna De rien í Kling & Bang galleríi í Marshallhúsinu. „Þessu lýkur öllu, bara mishratt. Allt eyðist og máist út. Nema það sem skemmist og hverfur snögglega.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir opnar í dag kl. 17 sýninguna De rien í Kling & Bang galleríi í Marshallhúsinu. „Þessu lýkur öllu, bara mishratt. Allt eyðist og máist út. Nema það sem skemmist og hverfur snögglega. Mig langar að stöðva tímann, hægja á eyðileggingunni. Ekki glata mér eða þér. Núllið, á núlli, þetta kemur alls ekki út á núlli,“ er haft eftir Ingibjörgu í tilkynningu.

Þar segir að í höggmyndum sínum fjalli Ingibjörg um eðli listsköpunar og leiki á óstöðugleika alls sem er. Titill sýningarinnar sé hið hversdagslega franska orðasamband „de rien“ sem sé notað á svipaðan hátt og „ekkert að þakka“ en merki bókstaflega „af engu“. Þetta kallist á við atlögur að því að höndla dýrlegan tómleikann að baki öllu, sem einkenni verk Ingibjargar. Þetta sem sé skapað af svo gott sem engu, um nánast ekki neitt. Þversögnina um að höndla tómið.

„Sólin sem ég elska, dýrka og sakna skemmir allt. Og ég held kokhraust á engu. Það var ekkert,“ er haft eftir Ingibjörgu.

Ingibjörg sýnir þrettán nýjar höggmyndir, teikningar, lágmyndir og rýmisverk sem hún vann sérstaklega fyrir Kling & Bang.

„Verkin rafmagnast á þessari mjóu línu milli þess að vera ekki neitt neitt og að vera allt. Þau taka á grunneindum myndlistarinnar; efni, formi, línum og litum, um leið og þau efnisgera snúnar tilfinningar, karaktereinkenni, aðstæður. Verkin eru flest úr fundnum efnivið sem lætur ekki mikið yfir sér, en ef nánar er að gáð felur hann í sér merkingu. Hvert verk er sjálfstætt, en þegar þau raðast saman glittir í flöktandi frásögn,“ segir enn fremur í tilkynningu.

Í dag kemur einnig út fyrsta bók Ingibjargar, Heiglar hlakka til heimsendis og verður útgáfunni fagnað um leið og opnun sýningarinnar. Útgefandi er Tunglið forlag.

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík, er styrkt af Myndlistarsjóði og sýningarstjórar eru þær Melanie Ubaldo og Una Björg Magnúsdóttir. Sýningin stendur yfir til 24. júlí.