Vilmundur Þór Gíslason útvarpsvirki fæddist í Reykjavík þann 29. ágúst 1945. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut þann 17. maí 2022. Foreldrar hans voru Gísli Þorgeirsson f. 15.9. 1914, d. 24.7. 2003 og Laufey Vilmundardóttir f. 1.6. 1914, d. 21.2. 1979. Bróðir Vilmundar er Þorgeir f. 19.10. 1940. Eiginkona hans er Steinunn Guðbjörg Lórenzdóttir f. 7.2. 1941. Vilmundur Þór kvæntist Hrafnhildi Kristínu Óladóttur, f. 1.10. 1947, þann 25.2. 1967. Foreldrar hennar voru Óli Kristinn Jónsson, f. 28.6. 1908, d. 25.11. 1994, og Alda Valborg Jónsdóttir, f. 28.8. 1919, d. 25.12. 1965.

Vilmundur Þór og Hrafnhildur Kristín eignuðust þrjú börn 1) Laufeyju, f. 3.9. 1968, gift Hermanni Hinrikssyni, f. 11.11. 1963. Börn þeirra eru Hinrik Nikulás, f. 7.1. 1993, og Alda Guðrún, f. 16.4. 1994. Alda Guðrún á soninn Garðar Nikulás, f. 19.8. 2017. Barnsfaðir Öldu Guðrúnar er Guðjón Karl Guðjónsson, f. 12.11. 1992.

2) Óli Kristinn, f. 10.2. 1973. Unnusta hans er Pálína Björg Snorradóttir, f. 10.7. 1980. Börn Óla Kristins af fyrra hjónabandi eru Gísli Fannar, f. 26.12. 1996, og Hrafnhildur Kristín, f. 14.5. 2002. Móðir þeirra er Fjóla Viggósdóttir. Sambýliskona Gísla Fannars er Thelma Lind Steinunnardóttir, f. 29.10. 1996, og dóttir þeirra er Hrafnhildur Mjöll, f. 22.8. 2021. Börn Pálínu Bjargar eru Dagbjört Lilja, f. 1.2. 1998, Tryggvi Fannberg, f. 17.12. 2007, og Kristín Kolbrún, f. 17.6. 2010.

3) Sævar Þór, f. 24.12. 1975, kvæntur Önnu Dögg Hermannsdóttur, f. 1.6. 1976. Dætur þeirra eru Sunneva, f. 17.8. 2003, Silja, f. 3.11. 2010, og Sif, f. 6.8. 2013.

Vilmundur Þór gekk í Austurbæjarskóla og stundaði námi í Iðnskólanum í Reykjavík á árunum 1963-1968. Hann lauk sveinsprófi þaðan í útvarpsvirkjun. Árið 1972 varð hann hljóðmeistari. Hann starfaði hjá Radíóþjónustu Bjarna á námsárunum og hélt áfram að starfa þar samhliða aðalstarfi, þá aðallega í fríum. Vilmundur Þór hóf störf hjá tæknideild Ríkissjónvarpsins þann 1.10. 1968, fyrst sem hljóðmaður í tæknideild og svo sem hljóðmeistari frá árinu 1972. Á árum sínum hjá RÚV kom hann að vinnslu fjölmargra þátta og dagskrárliða, s.s. Stiklum, Kastljósi, Eurovision, Stundinni okkar og svo mætti lengi telja. Hann starfaði hjá Ríkissjónvarpinu út sína starfsævi og lét af störfum þar vegna aldurs þann 30.9. 2013. Vilmundur Þór var alla tíð virkur í starfi KFUM. Hann var mikill safnari og safnaði m.a. frímerkjum, mynt, pennum o.fl.

Hann verður jarðsunginn frá Lindakirkju í dag, 2. júní 2022, klukkan 13.

Tengdaföður mínum, Vilmundi Þór, kynntist ég árið 1995 þegar ég fór að slá mér upp með Sævari Þór, yngsta syni hans og Hrafnhildar. Villi, eins og hann var alltaf kallaður, var með yfirvegaða og rólega nærveru. Það fór ekki mikið fyrir honum en hann var alltaf til staðar. Mjög traustur maður. Mjög snemma í sambandi okkar Sævars Þórs varð ég fyrir því óláni að skemma farþegahurð á forláta VW bjöllu sem Sævar Þór hafði árin á undan eytt öllum sínum peningum og tíma í að gera upp. Ég var alveg miður mín, enda fullkunnugt um hversu vænt honum þótti um bílinn. Sævar reykspólaði burt af bílastæðinu heima hjá mér og ég 18 ára gömul skreið upp í rúm og byrjaði að gráta yfir þessum óförum mínum. Þá hringdi síminn og hinum megin á línunni var Villi. Heilræðin voru góð: „Anna mín, hafðu ekki áhyggjur af þessu. Bíllinn er dauður hlutur sem er hægt að gera við. Hugsaðu nú ekki meira um þetta.“ Svona var Villi jarðbundinn, skynsamur og æsti sig ekki yfir hlutum eða málum sem í raun skiptu litlu eða engu máli. Villi var dásamlega góður við hana Habbý sína og vildi allt fyrir hana gera. Þau voru eitt. Hann var mjög áhugasamur um allt sem fólkið hans var að gera, hvort sem það voru börn, tengdabörn, barnabörn eða barnabarnabörn. Hann var natinn, nákvæmur, mikill dundari og safnari. Villi starfaði nánast alla sína starfsævi hjá RÚV sem hljóðmaður í tæknideild. Sunneva, frumburður okkar Sævars, fæddist 2003. Hún, eins og mörg börn, tók allar pestir fyrstu 2-3 árin. Þegar við unga parið vorum orðin stressuð yfir fjarveru frá vinnu, kom Villi heim til okkar á þeim dögum sem hann var ekki að vinna og var með Sunnevu, svo við gætum mætt í vinnu. Svona var Villi hjálpsamur og greiðvikinn. Á þessum rúmu 27 árum sem við Villi fylgdumst að heyrði ég hann aldrei hallmæla nokkrum manni. Það segir mikið um hans mannkosti. Villi var búinn að berjast við veikindi frá árinu 2017. Hann fór í gegnum veikindin af æðruleysi, vildi lítið láta hafa fyrir sér en kveðjustundina bar brátt að, þótt vissulega hafi hann verið orðinn mjög veikur. Það er alltaf erfitt að geta ekki kvatt sína nánustu þegar að kallinu er komið en ég veit að Villi vissi hvaða þýðingu hann hafði í lífi okkar og að hans verði sárt saknað. Við getum yljað okkur við góðar minningar og minningin um góðan mann mun lifa í hjörtum afkomanda hans um ókomna tíð.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Anna Dögg

Hermannsdóttir.

Það er eflaust hluti af barnslegri trú okkar að halda að þeir sem standa okkur næst og okkur þykir mest vænt um verði alltaf til staðar og hverfi aldrei á braut. Í dag stöndum við systurnar hins vegar frammi fyrir því að kveðja elsku Villa afa okkar. Afann sem okkur þykir óendanlega vænt um. Við eigum margar dýrmætar minningarnar um skemmtilegu stundirnar sem við áttum með afa Villa og auðvitað ömmu Habbý. Rjúpufellið og gönguferðirnar á leikvöllinn í hverfinu. Afi og amma að sækja okkur heim og fara með okkur í búðir, ísbíltúra og alltaf var afi að gauka einhverju að okkur og hjálpa okkur. Afi sýndi okkur alltaf mikinn áhuga og spurði út í það sem við vorum að gera hverju sinni. Hann var skemmtilegur, góður og gerði allt til að láta okkur líða vel. Við erum innilegar þakklátar fyrir allar góðu stundirnar. Elsku afi Villi, þín verður sárt saknað um ókomna tíð.

Sunneva, Silja

og Sif.