„Bæjarstjórinn“ Vilhjálmur Hjörleifsson umvafinn trjágróðri sem einkennir staðinn með Hnjúkinn í baksýn.
„Bæjarstjórinn“ Vilhjálmur Hjörleifsson umvafinn trjágróðri sem einkennir staðinn með Hnjúkinn í baksýn. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Hugmyndin kom eiginlega upp fyrir tveimur árum, þegar Borgarbyggð gat ekki slegið hjá okkur fyrr en seint um sumarið vegna hátíða sem voru í Borgarnesi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Hugmyndin kom eiginlega upp fyrir tveimur árum, þegar Borgarbyggð gat ekki slegið hjá okkur fyrr en seint um sumarið vegna hátíða sem voru í Borgarnesi. Við ákváðum þá að halda okkar eigin bæjarhátíð vorið eftir, á undan hinum, og þá fengum við slátt,“ segir Vilhjálmur Hjörleifsson, formaður Hollvinafélags Varmalands í Borgarfirði. Félagið efnir öðru sinni til Varmalandsdaga með yfirskriftinni List og lyst um næstu helgi. Þegar rætt var við Vilhjálm, voru starfsmenn sveitarfélagsins að slá og gera fínt á landi sínu.

Varmaland er upprunalega skólastaður og er enn samfélagsmiðstöð sveitanna í kring en ferðaþjónustan hefur þó yfirhöndina núorðið. Stór garðyrkjustöð er rekin undir nafni Laugalands, þannig að þegar litið er til þess, Hótels Varmalands í gamla húsmæðraskólanum og starfseminnar í barnaskólanum, er Varmaland mikilvægur vinnustaður, þótt aðeins séu rúmlega tuttugu manns með lögheimili á staðnum. Til viðbótar lögskráðum íbúum vinnur fjöldi fólks á staðnum. Börn sækja skólann á vetrum og tugir eða hundruð ferðamanna leggja þangað leið sína á hverjum degi yfir sumarið og margir gista á hóteli eða í tjaldi.

Líklega er Varmaland því með minni þéttbýliskjörnum sem heldur eigin bæjarhátíð. Vilhjálmur segir að fólkið í sveitunum í kring standi einnig á bak við staðinn og hátíðina og taki þátt í henni.

Listahátíð í Þinghamri

Yfirskriftin List og lyst vísar til lista og matarmenningar, sem er stór hluti af dagskránni og nefnir Vilhjálmur að þannig fyrirkomulag sé á bæjarhátíðum víða í Evrópu. Nokkrar myndlistarsýningar verða opnar á laugardag og sunnudag og listahátíð verður í félagsheimilinu Þinghamri báða dagana. Þar verður framlag frá listafólki úr héraði og víðar að. Einnig verður hægt að kaupa sér veitingar á Hótel Varmalandi og í félagsheimilinu.

Dagskránni á laugardagskvöldið lýkur með brekkusöng við félagsheimilið, eins og á öllum alvöru bæjarhátíðum, en dagskránni á sunnudagskvöldið lýkur með söngskemmtun karlakórsins Heiðbjartar í félagsheimilinu Þinghamri.

Vilhjálmur er Borgfirðingur, frá Tungufelli í Lundarreykjadal. Hann var búsettur í Reykjavík og var að leita sér að frístundahúsi í Borgarfirði fyrir nokkrum árum. Keypti þá kennarabústað sem Borgarbyggð auglýsti til sölu. Hann segir að eftir að hann hafði tekið húsið í gegn, hafi þau hjónin ákveðið að flytja lögheimilið þangað og eiga frekar frístundahús í Reykjavík, enda séu þau mun meira á Varmalandi en í íbúðinni í Reykjavík.