Hörður Sigursteinsson fæddist í Hafnarfirði 18. nóvember 1934. Hann lést 16. maí 2022.

Foreldrar hans voru Sigursteinn Bjarnason, f. 29.2. 1896, d. 1988, og Aðalheiður Einarína Jónsdóttir, f. 23.8. 1911, d. 1994.

Hörður var elstur af sjö systkinum. Hann átti einnig tvo hálfbræður samfeðra. Þeir voru Aðalsteinn, f. 1924, d. 2018, og Guðbergur, f. 1926, d. 1998.

Alsystkini Harðar voru Guðfinna Jóna, f. 1936, d. 2017. Jón Ingi, f. 1937, d. 2018. Halldóra Brynja, f. 1941, d. 2022. Bjarni, f. 1945, d. 2011, Rúnar, f. 1946, og Einar, f. 1950.

Hörður giftist Jóhönnu Jóhannsdóttur, f. 20.7. 1935, d. 1.11. 2020, þann 5.9. 1959.

Hörður og Jóhanna eignuðust þrjár dætur. Þær eru: Sveinbjörg, f. 1961, gift Guðmundi Th. Ólafssyni. Sveinbjörg á börnin Daníel Smára, Andreu Laufeyju og Sylvíu Ösp, og börn Guðmundar eru Ögmundur Rúnar, Hrefna Magnea, Jóhanna Valgerður og Heiða Ósk.

Aðalheiður Kristín, f. 1964. Hennar börn eru Maria Carolina og David Jóhann. Jóhanna Brynja, f. 1967, gift Halvard Andreassen, dóttir hennar er Linda Hrönn. Langafabörnin voru orðin þrjú.

Hörður starfaði lengst af hjá Verksmiðju Reykdals. Áður hafði hann starfað við landanir og í Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Einnig var hann í sáningarvinnu með bróður sínum á sumrin.

Útför Harðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 2. júní 2022, kl. 13.

Við viljum minnast pabba okkar, eða Hössa litla með húfuna, eins og við kölluðum hann oft.

Eftir vinnuslys í verksmiðjunni, þar sem hann missti tvo fingur, hélt hann að þeim starfsferli væri lokið, en vinnufélagar hans létu hann ekki komast upp með það. Hann sneri til baka þangað og byrjaði með að sópa og gera ýmis smáverk. Ekki leið á löngu þar til hann var byrjaður á fullu sem smiður og lét ekki fingraleysið há sér þar. Þegar verksmiðjunni var svo lokað var hann atvinnulaus um tíma, en fékk svo vinnu sem gangavörður í Víðistaðaskóla þar sem hann varð mjög vinsæll. Hann vann þar þar til hann var kominn yfir sjötugt en varð þá að láta af störfum vegna aldurs. Pabbi var rólyndismaður en var með mikinn húmor. Hann hafði mikinn áhuga á sögu Íslendinga allt aftur til víkingatímans. Hann var duglegur að fræða okkur dæturnar um allt sem gerðist í gamla daga. Þar sem pabbi var fæddur fyrir stríð varð skólaganga hans mjög slitrótt. Hann hafði samt mikinn áhuga á tungumálum. Hann kenndi sér sjálfum ensku með að horfa á kanasjónvarpið og lesa nærri eingöngu enskar bækur og sagði okkur að það væri miklu skemmtilegra að ekki lesa textann í sjónvarpinu, því þá yrðu allir brandarar miklu fyndnari. Og þar hafði hann rétt fyrir sér. Pabbi fór að fylgjast með Derrick í sjónvarpinu og fékk þá áhuga á að læra þýsku. Hann dreif sig á þýskunámskeið hjá Námsflokkunum. Eftir að pabbi fékk sinn fyrsta norska tengdason langaði hann að getað talað við hann. Þá dreif hann sig á norskunámskeið. Á hverju sumri var farið í ferðalag um landið og þá yfirleitt með aukagesti með sér með tilheyrandi ævintýrum. Bingóin voru stunduð í mörg ár og margir vinningar rötuðu í seðlaveskið. Pabbi passaði alltaf upp á að vera vel klæddur fyrir kuldann, sem virtist vera allt árið, því honum var alltaf kalt. Og ekki var húfan skilin eftir heima. Saga er að segja frá því þegar hann fór eitt af mörgum skiptum að tala við Jónu systur sína, sem vann á bæjarskrifstofunni hér í bæ, að einu sinni hafði hann komið og Jóna hafði vikið sér frá. Þegar hún kom til baka fékk hún þau skilaboð um að bróðir hennar hefði komið. Hún spurði þá, hvaða bróðir? Ég á marga bræður. Þá fékk hún svarið: Æ, það var þessi með húfuna.

Pabbi var í stjórn Verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði og var í stöðu ritara alls í 26 ár. Hann var líka duglegur að hjálpa til við eldamennskuna heima sem var líklega frekar sjaldgæft á árum áður. Alltaf var farið í sunnudagsbíltúra með dæturnar. Þegar mamma veiktist var hann einnig duglegur að hugsa um okkur aleinn.

Þegar mamma lést í nóvember 2020 í miðjum faraldri fékk hann inni hjá Hrafnistu í Hafnarfirði. Hann fékk aldrei að kveðja hana né heimsækja á spítalann vegna faraldursins. Starfsfólkið á Ægissíðu á Hrafnistu var alveg einstakt í að aðstoða okkur við að koma fréttum af mömmu til skila, því við máttum ekki heimsækja hann heldur. Á Hrafnistu leið honum mjög vel þó honum leiddist nú stundum og var orðinn þreyttur. Hann gantaðist við starfsfólkið og kvartaði aldrei. Starfsfólkinu þótti mjög vænt um hann og söng með honum og fór með hann á „smókinn“. Hann var ánægðastur þegar hann fékk kók og sígó. Svo var sungið Open the door Richard þegar opna þurfti dyr fyrir hann. Pabbi kvaddi þennan heim 16. maí og er nú kominn í sumarlandið til mömmu.

Elsku pabbi, takk fyrir allt og sofðu rótt. Þínar,

Sveinbjörg,

Aðalheiður Kristín

(Alla Stína) og Brynja.

Elsku afi.

Við áttum margar góðar stundir saman. Ég á sérstaklega góðar minningar af þér á jólunum og þegar þú varst gangavörður í Víðistaðaskóla.

Ég man vel hvað þú hafðir gaman af því að syngja og segja sögur frá því þegar þú varst lítill, af ferðalögum þínum og fleiru.

Ég man að þú varst með sterkar skoðanir á stjórnmálum og þótt ég hafi verið of ung til að skilja það á þeim tíma, þá kenndirðu mér að það er mikilvægt að nýta alltaf sitt atkvæði og ég geri það svo sannarlega í dag.

Þú varst alltaf svo rólegur en samt algjör prakkari og mér finnst svo dýrmætt að sjá þína eiginleika í mínum börnum og hugsa oft til þín þegar ég horfi á þau.

Ég gæti haldið áfram endalaust en vil enda þetta á að segja hvað ég sakna ykkar mikið og það er sárt að kveðja þig en á sama tíma hlýjar það hjarta mínu að vita af þér með ömmu aftur.

Kveðja,

Andrea Laufey.