Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Eftir Guðlaug Þór Þórðarson: "Við þurfum að nýta næstu áratugi til að bægja loftslagsvánni frá og ná að byggja upp góð lífskjör fyrir alla íbúa jarðar."

Nú eru 50 ár frá því að ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannsins var haldin í Stokkhólmi. Óhætt er að fullyrða að ráðstefnan markaði tímamót, sem upphaf að skipulegu samstarfi ríkja heims í umhverfismálum.

Hugsanlega hefði þó fáa grunað hve stóran sess umhverfismálin skipa í alþjóðlegri umræðu hálfri öld seinna. Það kemur þó ekki til eingöngu af því að umhverfisvitund hefur aukist, heldur sýna vísindin okkur að vá er fyrir dyrum fyrir mannkynið ef okkur tekst ekki að koma böndum á loftslagsbreytingar og eyðingu lífríkis og náttúrugæða. Það er hollt að horfa um öxl og skoða hvað hefur áunnist á 50 árum, en mest um vert að nýta þann lærdóm til að leysa vandann sem nú blasir við.

Leiðin frá Stokkhólmi

Það er ástæða til að hnykkja á því að Stokkhólmsráðstefnan fjallaði ekki um náttúruvernd í þröngum skilningi þess orðs, heldur um umhverfi mannsins. Vernd villtra tegunda og landsvæða, s.s. í þjóðgörðum, á sér langa sögu. Í Stokkhólmi var útgangspunkturinn sá að vernd umhverfisins væri ekki einungis mikilvæg í því skyni, heldur líka mál sem snerti öryggi og velferð mannsins. Stjórnlaus mengun og auðlindasóun vegur að afkomu og lífsgæðum okkar sjálfra.

Hafa mál þokast til betri vegar síðan þá? Ef horft er til alþjóðlegs samstarfs, þá hefur það blómstrað. Gengið hefur verið frá fjölmörgum alþjóðlegum samningum um vernd lífríkis og loftslags og gegn mengun af hvers kyns tagi. Þeir duga þó skammt einir og sér, nema aðgerðir fylgi orðum

Aukin hagsæld en ótrygg framtíð

Það er áhugavert að skoða þróun mála á jörðinni síðan 1972. Mannfjöldinn hefur tvöfaldast síðan þá. Losun gróðurhúsalofttegunda sömuleiðis. Efnahagsumsvif, á mælistiku hagfræðinnar, hafa tuttugufaldast.

Aukin hagsæld er er auðvitað af hinu góða. Um milljarður manna hefur komist út úr sárri fátækt frá aldamótum skv. viðmiðum SÞ. Aldrei hafa fleiri haft tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi en í dag. Dómsdagsspár margra á síðari hluta 20. aldar um stórfelldar hungursneyðir og hrun vistkerfa hafa ekki gengið eftir.

Það gerist þó ekki af sjálfu sér. Það er aukinni áherslu á umhverfisvernd að þakka að okkur hefur tekist að nokkru leyti að aftengja mengun og önnur neikvæð umhverfisáhrif frá hagvexti. Við þurfum að fylgja leiðsögn vísindanna og muna að náttúran og gæði hennar er grunnur að tilvist og velferð mannkyns.

Stærsta málið í umræðunni nú er loftslagsváin. Hún var varla á ratsjánni fyrir hálfri öld, en nú er enginn efi lengur um að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu raunverulegar og að illa fer ef ekki tekst að halda þeim innan settra marka.

Verstu afleiðingarnar eru ekki endilega sýnilegar. Til lengri tíma munu óheftar breytingar á loftslagi gjörbreyta lífsskilyrðum mannkyns til hins verra. Þess vegna þarf að horfa til framtíðar en ekki bara til þess sem vel hefur tekist á síðastliðnum áratugum.

Hættum að niðurgreiða kol og olíu!

Í ávarpi mínu á 50 ára afmælisfundi Stokkhólmsráðstefnunnar lagði ég áherslu á nokkur atriði. Vernd lífríkis og villtrar náttúru er mikilvæg, þar sem mannleg tilvera byggist á gæðum náttúrunnar. Við verðum jafnframt að halda áfram að bæta lífskjör á heimsvísu og ekki síst að draga úr hungri og auka fæðuöryggi. Þar eru blikur á lofti nú vegna stríðsins í Úkraínu, en til lengri tíma þurfum við meðal annars að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og stöðvun landhnignunar á heimsvísu.

Stærsta verkefnið hlýtur þó að vera að stöðva hættulegar loftslagsbreytingar. Þar eru orkumálin miðlæg, því bruni jarðefnaeldsneytisins er stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda. Við verðum að hverfa af þeirri braut og nýta endurnýjanlega orku eins og kostur er. Hrein orkuskipti eru eitt helsta forgangsmál mannkyns. Nauðsynlegt er að hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, sem enn eru gríðarlegar á heimsvísu.

Hlutverk Íslands

Hlutverk okkar Íslendinga virðist oft lítið þegar horft er á stóru málin sem brenna á heimsbyggðinni. Hér eru lífskjör með því besta sem þekkist, þótt við viljum auðvitað alltaf bæta okkur enn. Margar þjóðir öfunda okkur af hreinu umhverfi, gnægð endurnýjanlegrar orku og sérstæðri og fagurri náttúru. Allt eru þetta gæði sem okkur ber að vernda og nýta af kostgæfni.

Fámennar þjóðir geta haft stærra hlutverk en hausatalan segir til um. Við Íslendingar getum verið í fremstu röð í skynsamlegri nýtingu auðlinda, vernd náttúru, endurheimt vistkerfa og aðgerðum gegn loftslagsvá. Við getum sett dæmi sem aðrir geta lært af. Við höfum náð lengra en næstum öll ríki í hreinum orkuskiptum, en þurfum að ganga lengra og klára það verkefni.

Auðvitað er þó pottur brotinn í umhverfismálum hér á Íslandi og við getum lært margt af öðrum. Við verðum að horfa á umhverfismál á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Við höfum áorkað margt á þeim 50 árum síðan umhverfismálin voru sett á dagskrá heimsbyggðarinnar í Stokkhólmi. Við þurfum að nýta næstu áratugi til að bægja loftslagsvánni frá og ná að byggja upp góð lífskjör fyrir alla íbúa jarðar án þess að skaða þau gæði náttúrunnar sem þau byggjast á.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.