Constance Ursin
Constance Ursin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Constance Ursin, Rasmus Vestergaard, Claus Kjeld Jensen, Sarah Anwar og Lars Barfoed: "Á tímum þar sem Norðurlönd og Evrópa standa í sögulegri kreppu er þörfin á menningarlegri samheldni meiri en nokkru sinni."

„Öflugt, virkt og óheft menningarlíf er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr til þess að viðhalda því trúnaðartrausti sem ríkt hefur milli Norðurlandaþjóðanna. Í þeirri kreppu sem Evrópa stendur í um þessar mundir getur menningarsamstarf Norðurlandanna með áherslu á listrænt frelsi og málfrelsi verið fordæmisgefandi fyrir aðrar þjóðir,“ skrifa stjórnarformenn norrænu húsanna og menningarstofnananna í Finnlandi, Álandseyjum, Grænlandi, Íslandi og Færeyjum.

Við erum glöð yfir niðurstöðum hins góða fundar norrænu menningarmálaráðherranna sem haldinn var í Osló í byrjun maí. Skilaboðin eru ótvíræð; að skilyrði fyrir frjálsa lista- og menningarstarfsemi séu lífsnauðsynleg hverju lýðræðissamfélagi. Nú þegar lýðræðislegt gildismat sem felst í málfrelsi, fjölmiðlafrelsi og listrænu frelsi á undir högg að sækja eiga Norðurlönd að geta staðið uppi sem fyrirmynd á mörgum sviðum.

Menning og listir eru ein forsenda opins og lýðræðislegs samfélags. Menning og listir eru einnig hornsteinn norræns samstarfs, sem eitt sinn var stofnað til sem framlags til friðar. Mikilvægi menningar fyrir félagslega sjálfbært samfélag er einnig hluti af sýn ráðherranna á Norðurlöndin sem samþættasta svæði í heimi. Hinn sameiginlegi norræni menningararfur hefur mikið að segja um það hvort samþættingin muni takast. Á tímum þar sem Norðurlönd og Evrópa standa í sögulegri kreppu er þörfin á menningarlegri samheldni meiri en nokkru sinni.

Menningarlífið í löndum okkar hefur orðið illa úti í faraldrinum og ennþá eru afleiðingarnar ekki allar komnar í ljós. Öll svið samfélagsins hafa orðið fyrir áhrifum af kórónuveirunni en menningargeirinn hefur orðið sérstaklega illa úti þar sem menningin hefur ekki getað sinnt sínu mikilvægasta hlutverki; að vera aðgengileg almenningi.

Í kjölfar faraldursins og í ljósi þeirrar kreppu sem skyndilega hefur skollið á Evrópu er illskiljanlegt að skorið sé á framlög til menntunar og menningar í norrænni samvinnu. Fjármálaáætlun sem samþykkt hefur verið af samstarfsráðherrum Norðurlandanna fyrir árin 2021-2024 felur í sér niðurskurð sem nemur 20-25 prósentustigum. Þessi niðurskurður er óæskilegur því menning og menningarsamstarf leiðir fólk einmitt saman.

Ráðherrar menningarmála eru á þeirri skoðun að Norðurlöndin eigi að halda þessum málefnum á loft á alþjóðlegum vettvangi nú þegar málfrelsi, fjölmiðlafrelsi og listrænu frjálsræði er ógnað. Til þess að lýðræðissamfélag virki sem skyldi er mikilvægt að listin geti leitt fólk til umhugsunar, að hún fái að ögra og reyna á reglufestu samfélagsins.

Starf norrænu menningarhúsanna og –stofnananna er mikilvægur þáttur í að efla hin sameiginlegu norrænu gildi. Mikil verðmæti felast í menningarstofnununum en þær taka þátt í að þróa og halda norrænu samstarfi gangandi. Menningarhúsin eru mikilvægir samkomustaðir og hin norrænu gildi kristallast í starfi þeirra með almenningi, með börnum og ungmennum, í norrænu málumhverfi sem byggist á gagnkvæmum málskilningi en ekki síst í gegnum styrkjakerfi Norrænu ráðherranefndarinnar til menningarsamstarfs norrænu landanna og Eystrasaltslandanna. Okkur ber skylda til þess að vinna að því að styrkja gildismat okkar á tímum þegar trúnaðartraust, málfrelsi og siðferðisleg viðmið eru í hættu.

(Texti þýddur úr sænsku.)

Constance Ursin er stjórnarformaður Nordisk kulturkontakt í Helsinki; Rasmus Vestergaard er stjórnarformaður Nordens institut á Álandseyjum; Claus Kjeld Jensen er stjórnarformaður Nordens institut á Grænlandi; Sarah Anwar er stjórnarformaður Norræna hússins í Reykjavík; Lars Barfoed er stjórnarformaður Norðurlandahússins í Færeyjum.

Höf.: Constance Ursin, Rasmus Vestergaard, Claus Kjeld Jensen, Sarah Anwar, Lars Barfoed