Sigurður Hrafn Þórólfsson, gull- og módelsmiður, var fæddur á Bjarkargötu 10 í Reykjavík 29. apríl 1939 og átti þar heima fyrsta árið. Hann lést 9. maí 2022.

Foreldrar hans voru Hólmfríður Hemmert, talmeinafræðingur og kennari, fædd á Skagaströnd 22. júní 1902, d. 25. maí 1988, og Þórólfur Sigurðsson, Baldursheimi, Mývatnssveit, ritstjóri, f. 6. maí 1886, d. 14. júní 1940. Systir hans sammæðra: Jóhanna Arnljót Friðriksdóttir, f. 12.2. 1929.

Frænkur og uppeldissystur Helga Guðrún, f. 26.7. 1938, Björg Hemmert, f. 1.10. 1941, og (Jóhanna) Arnljót, f. 12.2. 1950, Eysteinsdætur.

Sigurður kvæntist 4. maí 1963 (Steinunni) Margréti Ragnarsdóttur, f. 21.6. 1943 í Innri-Njarðvík.

Dætur Sigurðar og Margrétar: 1) Hólmfríður Hemmert, f. 1963, maki Örn Franzson, f. 1962. Börn þeirra eru: a) Ernir Hrafn, f. 1986, kona hans er Anna Gunnlaug Friðriksdóttir, f. 1987, dætur þeirra: a) Hildur Katla, f. 2016, b) Valgerður Edda, f. 2021. b) Margrét Helga, f. 2004. 2) Ragnhildur, f. 1966, maki Sigurður Torfi Sigurðsson, f. 1969. Börn þeirra eru: a) Þórólfur, f. 1996, b) Hrafnhildur Svava Hemmert, f. 2007.

Föður sinn missti Sigurður eins árs gamall. Sigurður ólst upp með móður sinni. Dvöldu þau í Baldursheimi í Mývatnssveit á sumrin en á Sauðárkróki á veturna.

Grunnskólanám Sigurðar fór fram á Sauðárkróki og þaðan lauk hann einnig iðnskólanámi 1956. Lauk landsprófi í Reykholti 1957. Var tvo vetur í MR og síðan var hann í tónlistarnámi hjá Karli O. Runólfssyni tónskáldi með trompet sem aðalgrein. Síðar var hann í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, einnig var Sigurður hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara.

Á þessum tíma lék Sigurður í Lúðrasveitinni Svani og síðar í 17 ár með Karlakórnum Stefni, Mosfellsbæ.

Sigurður lauk sveinsprófi í gull- og silfursmíði 1992. Sumrin 1955-1961 var hann í sumarvinnu á Hallormsstað. 1962-1990 vann Sigurður sem skrifstofu- og fjármálastjóri hjá Trésmiðjunni Víði hf. Á þessum tíma tók Sigurður þátt í fjórum alþjóðlegum sýningum í London og hlaut þar fern verðlaun fyrir sín örsmáu skipamódel. Þekktustu verk hans eru silfur-gull-skipin, eitt af þeim er varðskipið Týr í hlutföllum 1:300. Sigurður hefur einnig haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum. Var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1999.

Hann var haldinn vöðvarýrnunarsjúkdómi og var því bundinn hjólastól frá 1974.

Útför Sigurðar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 2. júní 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Þá er hann Sigurður tengdafaðir minn allur. Með fáeinum orðum ætla ég að kveðja og minnast þessa heiðursmanns. Okkar kynni hófust, eins og líklega má gruna, þegar ég kynnist dóttur hans fyrir hartnær fjörutíu árum. Strax við fyrstu komu í Arnartangann tóku Siggi og Gréta piltinum af hlýju og ástúð. Segja má að þau hafi á vissan hátt gengið drengnum í foreldrastað. Eftir því sem árin liðu treystust þau bönd og það var oft glatt á hjalla í Arnartanganum.

Siggi var hrókur alls fagnaðar og kunni vel við sig í góðum félagsskap, mikill tónlistarmaður og söngmaður. Var í hljómsveitum og kórum. Ógleymanlegt var þegar ég átti eitt sinn sem oftar leið i Arnartangann og á móti mér tók heilmikill söngur, þar sem Siggi og frægur bóksölumaður tóku saman þekkta slagara. Það þurfti ekki mikið til að taka lagið á þeim bæ. Þegar við átti var yfir Sigga líka einstök ró og var gaman að sjá þegar hann var með barnabörnum úti í bílskúr að skera út báta eða bíla, steypa tindáta, í búðarleik eða aðstoða við heimanám. Allt fór fram af yfirvegun og rósemi sem börnin sóttu í.

Í gegnum þau hjónin kynntist ég síðan æskuslóðum Sigga í Mývatnssveit. Þau byggðu þar upp af mikilli elju yndislegan íverustað á Þórólfshvoli. Þar var mikið brallað og nóg að sýsla. Sterk minning er þegar Siggi situr við suðurgluggann með málverksútsýni að Sellandafjalli. Það er þögn og maður finnur ósjálfrátt hversu Sigga þótti vænt um sveitina sína.

Siggi hafði mjög gaman af því að segja sögur af mönnum og málefnum úr sveitinni og af Króknum þar sem hann ólst líka upp. Svona, svona sagði Gréta brosandi þegar Siggi var kominn af stað í eina söguna, það eru allir búnir að heyra þetta. Það gerir ekkert til, þau heyra þetta þá bara aftur, sagði Siggi og hélt sínu striki.

Siggi var gullsmiður og smíðaði listafallega gripi og þá aðallega úr silfri. Hafði sína aðstöðu í bílskúrnum í Arnartanganum og svo síðar í Svöluhöfðanum. Hann hafði snemma á lífsleiðinni greinst með vöðvarýrnunarsjúkdóm sem háði honum alla tíð. Var því ótrúlegt að sjá hvernig hann töfraði fram hvern listagripinn á fætur öðrum, gripi sem munu halda minningu hans sem lista- og hagleiksmanns á lofti. Voru þau hjónin ótrúlega úrræðagóð að finna leiðir sem auðvelduðu Sigga smíðina.

Undirritaður telur það sitt lán að hafa fengið að kynnast þessum heiðursmanni og að fylgjast með lífshlaupi hans og Grétu.

Siggi minn, megi minning þín lifa. Þín verður saknað.

Örn Franzson.

Það var alltaf gaman þegar Siggi Þórólfs kom „heim“ í Baldursheim á vorin þegar hann var unglingur og ég krakki. Hann átti forvitnileg leikföng af ýmsu tagi, svo sem tindáta og forláta brunabíl, líklega ættaðan frá Danmörku. Á þessum árum gat hann leikið sér við okkur Ásgeir Baldursson, frændur sína, farið í feluleik með okkur í gamla bænum en líka stungið okkur af ef svo bar undir, því hann gat verið dálítið stríðinn. Ég varð þó snemma fljótari að hlaupa en hann og ég tók eftir því að hann hafði einkennilegt göngulag. „Af hverju gengurðu svona?“ spurði ég einu sinni. „Ég var laminn með sleggju á Sauðárkróki,“ sagði hann, en hann átti lengi heima á Króknum. Þetta var auðvitað ekki satt, en ég held að á þessum árum hafi enginn vitað fyrir víst hvaða sjúkdómur það var sem átti síðar eftir að þrengja smám saman að honum. Fyrst kom stafurinn, svo hækjurnar og loks hjólastóllinn. En það var allt löngu seinna.

Þarna um miðbik síðustu aldar gat hann farið allra sinna ferða. Stundum vorum við látnir sækja kýrnar og það gátu orðið býsna langar gönguferðir. Þá var oftast byrjað á því að ganga upp á Sjónarhól og skyggnast um. Einu sinni sem oftar sáum við ekkert til kúnna af hólnum og urðum að leita víðar. Fljótlega fundum við kúaslóðir sem virtust liggja heim á leið. „Kýrnar eru komnar heim,“ sagði ég. „Nei, það er ekkert að marka þessar slóðir,“ sagði hann. „Klaufirnar á kúnni hennar Rósu gömlu snúa nefnilega öfugt svo hún hefur verið á leið suður á heiði.“ Ég trúði þessu náttúrulega ekki, en hann var eldri og fékk að ráða. Það var líka ágætis veður og við stefndum suður á heiði, fundum hesta, notuðum beltin okkar sem beisli, riðum suður á Sel og skemmtum okkur ágætlega, þótt hvorugur okkar væri mikill hestamaður. Það var eitthvað farið að nálgast miðnætti þegar við komum heim og kýrnar náttúrlega löngu komnar, líka kýrin hennar Rósu.

Siggi var músíkalskur og hann kenndi mér að spila svolítið á orgel eftir eyranu. Seinna vorum við saman í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar Sveinssonar, vinar Sigga, en Siggi hafði verið í Svaninum sem Lárus stjórnaði um tíma. Þar spilaði Siggi á trompet en í kórnum söng hann bassa.

Það var alltaf gaman að heimsækja Sigga og Grétu hérna syðra, hvort sem það var á Digranesvegi, í Arnartanga eða Svöluhöfða. Þar sá Gréta um allt utanhúss og ég man ekki betur en þau fengju sérstaka viðurkenningu fyrir garðinn sinn í Arnartanganum. Í Svöluhöfðanum var byggður pallur sem náði að mestu leyti í kringum húsið svo að Siggi gæti stjórnað þaðan úr hjólastólnum. Innanhúss var bæði hægt að skoða undraveröld Grétu uppi á loftinu, verkstæði Sigga og frábæra smíðisgripi hans, bæði skartgripi og ýmiss konar skipamódel. Þeirri smíði hélt hann áfram löngu eftir að hann hætti að geta haldið handleggjunum uppi og varð hengja þá upp í sérstaka smeyga. Nú sjáum við Sigga eftir því að hafa ekki heimsótt þau Grétu oftar en þökkum fyrir allt.

Höskuldur Þráinsson.

Okkur systkinin langar að minnast Sigurðar móðurbróður okkar – Sigga frænda eins og hann var alltaf kallaður í okkar hópi – með nokkrum orðum. Þegar við vorum að alast upp á 7. áratugnum bjuggu Siggi og Gréta á Digranesvegi í Kópavogi, en við fyrst á Háveginum, svo í Víðihvammi og svo síðar í Grænutungu, rétt hjá. Það var töluverður samgangur á milli fjölskyldnanna á þessum tíma. Fyrir unga stráka var gaman að eiga frænda sem alltaf átti flotta bíla, og Siggi var alltaf tilbúinn að skiptast á skoðunum um þá þótt viðmælandinn stæði vart út úr hnefa.

Siggi og Gréta voru snemma komin með sjónvarp og náðu „kananum“, eins og varnarliðssjónvarpið var kallað, og við bræður stálumst til að fá að horfa á Bonanza og aðra slíka ameríska eðalþætti. Alltaf var tekið vel og hlýlega á móti okkur hjá þeim Grétu. Á þeim stóra degi þegar Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar fór öll fjölskyldan í heimsókn til þeirra!

Siggi var listfengur og dverghagur. Það sást strax á þessum árum á glæsilegu líkani af Vasaskipinu fræga og öðrum fallegum skipslíkönum sem prýddu heimilið. Hann varð síðar landsfrægur fyrir haglega smíðuð skipslíkön og aðra fagra gripi úr eðalmálmum. Siggi var einnig tónlistarmenntaður, hafði lært á trompet á yngri árum og lék með lúðrasveitinni Svan. Fyrir unga drengi var þó glæsilegur lúðrasveitarbúningurinn sérlega heillandi og alltaf var farið á tónleika Svansins. Á stórafmælum Sigga gat maður hitt félaga hans úr sveitinni og karlakórnum Stefni sem hann söng með. Siggi sór sig í ætt við frændur sína í Baldursheimi: gleði og alúð einkenndu hann þótt erfiður sjúkdómur sækti hægt og bítandi á alla hans ævi. Þessi létta lund, hlýlegt viðmót og aðrir mannkostir gerðu það að verkum að hann kom sér alls staðar vel og eignaðist góða vini, maður er manns gaman. Ef hann gat ekki lyft viskíglasinu, þá bað hann bara um rör.

Samgangurinn milli fjölskyldna minnkaði eftir að þau Gréta og dæturnar, Fríða og Ragnhildur, fluttu í Mosfellsbæ. En á stórviðburðum í fjölskyldunni mætti Siggi manni ætíð með bros á vör, spurði frétta og sagði skemmtilegar sögur. Hann var mjög góður sögumaður og hafði leiftrandi húmor. Sagan af ferð þeirra Sigurðar Blöndal frá Hallormsstað til Reykjavíkur haustið 1958 rataði á prent í Mosfellsblaðinu. Sú frásögn er óborganleg og ómögulegt að lesa án þess að skellihlæja. Siggi var raunar í sumarvinnu á Hallormsstað flest sumur 1955-1961 og þar kynntust þau Gréta.

Minningin sem eftir stendur er um góðan dreng; hæfileikaríkan og skemmtilegan mann sem lyfti sér yfir sjúkdóm sem flestir hefðu bognað undan. Þar naut hann stuðnings og umönnunar Grétu. Siggi sagði sjálfur að það hefði verið hans mesta gæfuspor að kynnast henni. Við systkinin þökkum fyrir að hafa fengið að vera samferða Sigurði Þórólfssyni og vottum Grétu, Fríðu, Ragnhildi og fjölskyldunni allri samúð okkar.

Þorsteinn, Björn Eðvald, Friðrik Már, Baldur Tumi og Guðrún Margrét.

Í dag kveðjum við Sigurð Þórólfsson. Sigurður var mörgum góðum kostum prýddur. Snemma á áttunda áratugnum fékk hann áhuga á gullsmíði og eftir hann liggja ófáir dýrgripirnir – þar ber hæst skipslíkönin og eru þau hin mesta dvergasmíð, auk margra fallegra skartgripa. Sigurður var mjög vel að sér um þjóðfélagsmál, hann var margfróður og mikill áhugamaður um bíla og mekaník og var bæði fróðlegt og skemmtilegt að ræða við hann um menn og málefni. Sigurður þjáðist af illvígum sjúkdómi sem varð til þess að hann þurfti að hætta þátttöku á hinum almenna vinnumarkaði. Hann tókst á við þessa erfiðleika af mikilli yfirvegun, auk þess sem fjölskylda hans stóð með honum sem einn maður í þessu erfiða verkefni. Það var Sigurði mikil heppni að eiga Grétu sem lífsförunaut og bandamann í baraáttunni við hinn erfiða sjúkdóm og allar þær áskoranir sem því fylgdu. Heimili Sigurðar og Grétu er einstaklega fallegt, sem og garðurinn, enda lögðu þau mikla vinnu og hugsun í hvert smáatriði hvort sem það var innan- eða utandyra. Þangað var alltaf gaman að koma og móttökur höfðinglegar, enda Gréta einstök húsmóðir. Rósa Margrét var mjög hænd að Sigga, hann var barngóður mjög og gaf sér alltaf tíma til að ræða við börnin um heima og geima. Þegar hún var yngri fékk hún oft að standa aftan á hjólastólnum, hann ók henni um húsið, út á pallinn í garðinum og á hún mjög hlýjar minningar um heimsóknirnar á Svöluhöfðann.

Hrönn, Rósa Margrét og Árni.

Nú eru um 60 ár síðan Sigurður Hrafn Þórólfsson kom í líf okkar bræðra, meira að segja áður en sumir okkar fæddust. Hann hóf þá störf hjá föður okkar sem skrifstofustjóri í Trésmiðjunni Víði og var þar meirihlutann af sínum starfsferli. Þar með hófst samstarf Sigga og föður okkar sem byggðist á gagnkvæmu trausti, virðingu og vináttu. Það var alveg ljóst að þeir sóttu styrk og staðfestu hvor til annars.

Betri samstarfsmann en Sigga Þórólfs, eins við kölluðum hann, er erfitt að finna. Sem skrifstofustjóri heyrðu starfsmannamál undir hann. Þetta var löngu áður en starfsheiti eins og mannauðsstjóri voru fundin upp, en engan mann þekkjum við sem starfsheitið hefði átt betur við. Hann hafði einstakt lag á að leysa vanda allra í kringum sig á jákvæðan hátt og laða það besta fram. Öll mál mátti taka upp við Sigga enda var hann viðræðugóður og ráðhollur.

Vináttan náði langt út fyrir vinnuna. Ferðalög, tónlist, glens og gaman voru alltaf með í för. Sigurður var dverghagur og ekki minnkaði aðdáunin þegar hann fór að gera sín meistaraverk í smíði úr eðalmálmum. Skipalíkönin eru engu lík, listasmíð á heimsmælikvarða. Þá eru ótaldir listmunirnir sem hann smíðaði og þegar gefa átti sérstaka gjöf var leitað til hans. Allir þessir gripir eru tákn þeirrar staðfestu, elju og listræna innsæis sem Siggi bjó yfir og hafði ánægju af að deila með öðrum.

Starfsmannahópurinn í Trésmiðjunni Víði var stór og samheldin fjölskylda. Eins og gengur hefur fækkað í þeim hóp og stór skörð bæst við undanfarna daga. Einn af lykilmönnum í því liði var Sigurður Hrafn Þórólfsson. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Við bræðurnir þökkum langa samferð með Sigurði Hrafni Þórólfssyni um leið og við vottum Grétu, dætrunum, fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð.

Bræðurnir frá Víðivöllum.

Ólafur Kristinn, Björn Ingi, Sigurður Vignir og Guðmundur Víðir

Guðmundssynir.