Unnur Sverrisdóttir
Unnur Sverrisdóttir
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fólk sem missti vinnuna í ferðaþjónustu í kórónuveirufaraldrinum hefur ekki skilað sér eins og vonast var til.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fólk sem missti vinnuna í ferðaþjónustu í kórónuveirufaraldrinum hefur ekki skilað sér eins og vonast var til.

Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, en í apríl voru yfir þúsund manns skráðir án vinnu í ferðaþjónustu.

Unnur bendir á að staðan sé áþekk hjá öðrum vinnumiðlunum á evrópska efnahagssvæðinu. Það hafi komið fram á rafrænum fundi stjórnenda vinnumiðlana í síðustu viku.

Sama staða víða í Evrópu

„Þar kom fram að fólk sem starfaði í ferðaþjónustu væri ekki að skila sér að fullu út á vinnumarkaðinn. Ferðaþjónustan er víða að ná vopnum sínum. Þar með talið í Suður-Evrópu og í Bretlandi,“ segir hún.

En komið hefur fram í breskum fjölmiðlum að flugferðir hafi verið felldar niður vegna þessa.

Viðmælendur Morgunblaðsins í viðskiptalífinu hafa undrast hversu margir séu skráðir án vinnu þegar vinnuafl skorti í mörgum greinum. Hafa Samtök ferðaþjónustunnar m.a. áætlað að ráða þurfi sjö til níu þúsund starfsmenn í greinina til að anna eftirspurn í ár og á næsta ári.

Samkvæmt aprílskýrslu Vinnumálastofnunar voru þá ríflega 9.000 án vinnu. Þar af 822 í byggingariðnaði, 700 í veitingaþjónustu og yfir þúsund í gistingu og ferðaþjónustu.

Aukningin til frambúðar?

Stofnunin spáir nú 3,9% atvinnuleysi í haust sem telst nokkuð mikið atvinnuleysi á Íslandi í ljósi þess að fulltrúar fjölmennra atvinnugreina óttast skort á vinnuafli í haust.

Sérfræðingur á vinnumarkaði sem Morgunblaðið ræddi við rifjaði upp vísbendingar frá síðustu árum um að hið náttúrulega atvinnuleysi á Íslandi væri að aukast varanlega. Þá væru vísbendingar um að fólk með háskólamenntun vildi heldur bíða eftir réttum störfum en taka hvaða starfi sem er. Menntunarstigið væri að hækka en atvinnulífið væri ekki tilbúið að taka á móti því vinnuafli.