Lilja Magnúsdóttir fæddist 29. júlí 1929 í Bolungarvík. Hún lést 20. maí 2022 á hjúkrunarheimilinu Eir.

Foreldrar hennar voru Kristín Lárusdóttir húsmóðir, f. 1895, d. 1953, frá Ísafirði og Magnús Þórarinn Einarsson harðfiskkaupmaður, f. 1885, d. 1951, frá Ánastöðum, Hjaltastaðasókn.

Lilja var áttunda í röðinni af tíu systkinum. Systkini hennar voru: Þorbjörg Jónína, f. 1913, Lárus Guðmundur, f. 1916, Margrét, f. 1918, Fjóla, f. 1921, Rannveig, f. 1923, Sóley, f. 1925, Ísleifur Lundquist, f. 1927, Einar Ragnar Jóhannes, f. 1931 og Magnús Kristján, f 1940. Þau eru öll látin.

Lilja bjó í Bolungarvík til sextán ára aldurs og flutti þá til Reykjavíkur.

Lilja giftist eiginmanni sínum Baldvini Steindórssyni, f. 1928, frá Bolungarvík, þann 20. janúar 1950. Foreldrar hans voru Sigþrúður Jakobína Halldórsdóttir, húsfreyja í Bolungarvík, f. 1895, d. 1972, og Steindór Ingimar Karvelsson, sjómaður í Bolungarvík, f. 1889, d. 1934. Sigþrúður Jakobína giftist síðar Kristjáni Árna Stefánssyni, verkamanni og meðhjálpara í Bolungarvík, f. 1885, d. 1971.

Baldvin og Lilja bjuggu öll sín búskaparár í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Guðbjörn, f 1946, kvæntur Ingibjörgu Þ. Sigurðardóttur, f. 1947. Börn þeirra eru: a) Sigrún Lilja, f. 1964, b) Hafþór, f 1969, c) Baldur Ingi, f. 1976. 2) Lilja, f 1952, gift Hans Gíslasyni, f. 1949 (1971-1986). Synir þeirra eru: a) Baldvin, f. 1972, b) Björgvin, f. 1973, c) Davíð, f. 1980. 3) Kristján Árni, f. 1953, kvæntur Halldóru Kristbergsdóttur, f. 1954 (1974-1996). Börn þeirra eru: a) Pétur Geir, f. 1977, b) Ragna Björk, f. 1981, c) Árni Björn, f. 1987. Kvæntur Bryndísi Ottósdóttur, f. 1957, d. 2020. 4) Magnús Þórarinn, f. 1958, kvæntur Ástu Bryndísi Schram, f. 1958 (1979-1988). Börn þeirra eru: a) Lilja Dögg, f. 1981, b) Gunnhildur Hlíf, f. 1985. Kvæntur Kathryn Denise, f. 1968 (1991-2006). Dóttir þeirra er Arianna Kathryn, f. 1993. Maki Magnúsar Þórarins er Bettina Wilhelmi, f. 1975. 5) Halldór, f. 1965, kvæntur Katrínu Garðarsdóttur, f. 1967. Börn þeirra eru: a) Andrea Rut, f. 2001, b) Jóhann Frank, f. 2004. Langömmubörnin eru tuttugu og níu og langalangömmubörnin eru sjö talsins.

Lilja og Baldvin stofnuðu Lampagerðina Bast og síðar Skermahúsið þar sem þau framleiddu raflampa og skerma í yfir tuttugu ár. Síðar starfaði hún sem aðstoðarkona á vökudeild Landspítalans.

Lilja og Baldvin voru virk í starfi Kristniboðssambandsins og höfðu brennandi áhuga á kristniboði.

Síðastliðin tíu ár dvalist Lilja á hjúkrunarheimilinu Eir.

Útför Lilju fer fram frá Háteigskirkju í dag, 2. júní 2022, klukkan 13.

Þakklæti er mér efst í huga að hafa átt langa samfylgd með Lilju sem varð rúmlega 92 ára. Lilja var stórglæsileg kona en á sama hátt vildi hún aldrei vera sú sem athyglin var á. Hún var alla tíð látlaus en með mikla reisn. Heimili hennar og Baldvins tengdapabba var fallegt og hlýlegt án íburðar. Það var vandað til verka og engir óþarfa hlutir eða húsgögn keypt í áranna rás. Þeirra kynslóð sem nú er nánast horfin tamdi sér að lifa ekki um efni fram og að eiga fyrir því sem keypt var. Lilja og Baldvin höfðu þurft að hafa mikið fyrir að koma sér upp heimili á sínum fyrstu árum en með dugnaði og því hversu laghentur tengdapabbi var þá reistu þau sér lítið hús við Suðurlandsbraut og þegar fjárhagur vænkaðist og fjölskyldan stækkaði þá byggðu þau annað og stærra við Háaleitisbraut. Þar bjuggu þau fjölskyldan um árabil og ráku farsælt fyrirtæki sem þau Lilja og Baldvin unnu við en það var vinsæl lampa- og skermagerð. Þau hjón voru einstaklega samhent og áttu gott og farsælt hjónaband til 63 ára, eða þar til Baldvin lést 86 ára gamall.

Það er eiginlega ekki hægt að nefna Lilju án þess að Baldvin fylgi með því að þau voru alltaf saman. Þau voru samstiga í öllu. Lilja var félagskona í Kristniboðsfélagi kvenna um langt skeið, einnig sóttu þau hjónin og börnin þeirra í starf KFUM og K og þar kynntist ég yngsta syninum, Halldóri, sem seinna varð eiginmaður minn. Það veganesti sem þau Lilja og Baldvin gáfu börnum sínum er gott og fallegt. Minningar Halldórs úr æsku sinni eru allar svo góðar og ljúfar. Hann naut þess að vera yngstur og var kannski mest dekraður úr systkinahópnum. Hann átti gott samband við foreldra sína. Hvernig var hægt að skamma prinsinn sem gerði gat á skólabuxurnar og kláraði nýbakað bakkelsi þegar hann skrifaði afsökunarbréf til mömmu sinnar, hún bráðnaði. Þau tvö áttu einstakt og fallegt samband fram á síðasta dag Lilju. Alzheimer setti mark sitt á síðustu ár Lilju. Í tæp 10 ár bjó hún á Hjúkrunarheimilinu Eir. Lilja mágkona mín heimsótti mömmu sína daglega og var henni stoð og styrkur, sá til þess að hún héldi sinni reisn eins og lofað var.

Við áttum alltaf svo góðar og ljúfar stundir með Lilju því að hún elskaði að fá fólkið sitt og vissi að við vorum hennar og hún var okkar. Það komu líka eftirminnilegar og svo skemmtilegar stundir þar sem mikið var hlegið, sem er gott, því að Lilja var húmoristi. Á fyrri stigum sjúkdómsins fór Lilja gjarnan í huganum heim til Bolungavíkur þar sem æskustöðvarnar voru. Þá fengum við ómetanlega innsýn í æskuna sem hún hafði ekki talað mikið um.

Lilja var dásamleg amma. Hún lék sér við barnabörnin og samgladdist okkur Halldóri svo innilega þegar við áttum von á og eignuðumst hennar yngstu barnabörn. Andrea Rut og Jóhann Frank eiga góðar minningar um ömmu sem fannst gaman í boltaleik og sagði brandara.

Ég á minningu um fallega, glæsilega konu sem átti fallegt heimili, yndislegan eiginmann og gott líf. Þannig er mín Lilja og þannig mun ég muna hana. Blessuð sé minning elsku tengdamömmu minnar.

Þín

Katrín.