Á hvolfi Tom Cruise í einu af nokkrum glæsilegum flugatriðum Top Gun: Maverick sem er bráðskemmtileg.
Á hvolfi Tom Cruise í einu af nokkrum glæsilegum flugatriðum Top Gun: Maverick sem er bráðskemmtileg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Joseph Kosinski. Handrit: Ehren Kruger, Eric Warren Singar og Christopher McQuarrie. Aðalleikarar: Tom Cruise, Miles Teller, Jennifer Connelly, Jon Hamm, Monica Barbaro og Glen Powell. Bandaríkin, 2022. 131 mín.

Stundum er lífið svo dásamlega fyrirsjáanlegt að maður getur ekki annað en hlegið að því. Top Gun: Maverick , framhaldið á Top Gun frá árinu 1986, er að sjálfsögðu að leggja heiminn að fótum sér, eins og við var að búast. Framleiðandinn og Hollywood-stjarnan Tom Cruise brosir nú sínu heimskunna milljón dollara brosi. Allir éta að venju úr lófa hans, hvort heldur í Cannes eða á flugmóðurskipi úti á hafi. Peningunum rignir inn á bankareikninginn, sem þó var spikfeitur fyrir og Cruise búinn að slá sitt persónulega met hvað varðar tekjur af kvikmynd yfir frumsýningarhelgi. Top Gun: Maverick er vinsælasta mynd hans til þessa, sé litið á þær tölur. Kvikmyndagagnrýnendur keppast við að lofsyngja myndina og heilu hlaðvörpin eru lögð undir hana en þó fyrst og fremst Cruise sjálfan. Allir hafa skoðun á manninum sem virðist engum líkur. Ómótstæðilegt brosið, nær óskiljanleg líkamleg hreysti hans (hann er að verða sextugur!) og sannfæringarkrafturinn (sjáið viðtölin!). Á yfirborðinu virðist Cruise hinn fullkomni maður.

En svo er það myrka hliðin sem margir virðast hafa gleymt: Cruise sem þekktasti talsmaður hinnar gölnu Vísindakirkju (munið þið árið 2007 þegar fréttir bárust um að Cruise væri hinn útvaldi spámaður Vísindakirkjunnar sem breiða myndi út fagnaðarerindið?), maðurinn sem hoppaði galinn af kæti í sófanum hjá Opruh Winfrey, maðurinn sem æpti á tökulið að framtíð kvikmyndahúsa heimsins ylti á honum og myndinni sem hann væri að leika í og þannig mætti áfram telja. Sögurnar af furðuhegðun Cruise eru margar og þeir sem vilja sjá dæmi um hversu skrítinn maðurinn er geta til dæmis horft á viðtöl við hann á YouTube þar sem hann talar um Vísindakirkjuna og mikilvægt hlutverk sitt hér á jörð.

Áfram, hlutlaus, afturábak

Nú kannt þú að velta fyrir þér, lesandi góður, af hverju ég er að eyða öllu þessu plássi í vangaveltur um Cruise. Jú, Cruise er nefnilega þannig stjarna að maður er alltaf meðvitaður um að þarna sé Cruise á ferð og enginn annar. Cruise er bara Cruise, hann getur ekki flúið ímynd sína og vill það heldur ekki því þetta er ímyndin sem hann hefur skapað sjálfur. Ólíkt mörgum öðrum stjörnum hefur Cruise ekki þann hæfileika að umbreyta sér og verða einhver allt annar. Cruise er og verður alltaf Cruise en það þarf ekki endilega að vera slæmt.

Líkt og einfaldasta gerð af sjálfskiptum bíl eru bara þrjár stillingar á Cruise: hlutlaus, áfram og afturábak. Þegar hann er í áfram hleypur hann eins og andskotinn sé á hælunum á honum. Í hlutlausum brosir hann sínu fræga og tælandi brosi og í afturábak bítur hann á jaxlinn þannig að kjálkavöðvarnir þenjast út og setur upp svip sem gefur til kynna að hann sé að leysa óleysanlegt dæmi. „Mission impossible“ kannski?

Jú, einmitt, það er enn og aftur „mission impossible“ hjá Cruise og er það vel. Þar er Krúsarinn í essinu sínu. Top Gun: Maverick (sem í anda gömlu myndarinnar, sem hét á íslensku Þeir bestu, mun nú heita, í anda breyttra kynjajafnréttistíma, Þau bestu: Einfari ) snýst nefnilega að miklu leyti um slíkt verkefni sem minnir ekki lítið á verkefnið í Star Wars: A New Hope . Logi geimgengill leysir í henni hið ómögulega verkefni að fljúga inn í Helstirnið og hitta þar beint í mark með geislabyssu geimflaugar sinnar. Logi er auðvitað frægur Kristsgervingur, líkt og Pete „Maverick“ Mitchell sem Cruise leikur hér. Maverick er bjargvætturinn, sá eini sem getur frelsað okkur frá hinu illa sem í þessu tilfelli er ónefnt ríki sem er í þann mund að fara að auðga úran og koma sér upp kjarnavopnum. Landið er ekki nefnt í myndinni en er þó væntanlega Íran, sé litið til tíðra frétta af úran-æfingum þar í landi til fjölda ára.

Í upphafi myndar (að lokinni endurgerð á atriði úr fyrri mynd þar sem sýnt er flugmóðurskip og hamagangurinn á því við lag Kenny Loggins, „Danger Zone“) er Maverick kallaður á teppið eftir að hafa óhlýðnast fyrirmælum yfirmanns síns í hernum. Hann hefur ekkert hækkað í tign á 36 árum og Iceman (aðalkeppinautur hans í fyrri mynd, leikinn af Val Kilmer, nú góður vinur hans) einum að þakka að ekki er búið að reka hann. Aðmírállinn sem kallar Maverick á teppið segist gjarnan vilja reka hann en þess í stað eigi hann að fara aftur í Top Gun, gamla skólann sinn þar sem bestu orrustuflugmenn Bandaríkjanna eru í námi og þjálfun. Þangað heldur Maverick og hittir fyrir Bradley „Rooster“, son hins fallna félaga síns og vængmanns Goose sem hann syrgir enn. Sektarkenndin nagar enn Maverick (Cruise bítur á jaxlinn ítrekað og setur upp harðlífissvip) og samskipti þeirra reynast stirð þar sem Rooster kennir Maverick um dauða föðurins. Ástæðan reynist líka önnur að auki sem er undarleg og óþörf viðbót í handritinu. En í stuttu máli tekur Maverick að sér að kenna þessu unga og fagra fólki, þessum kokhraustu herþotuflugmönnum, að fljúga sem aldrei fyrr. Tíminn er líka naumur því granda þarf skotmarki í ónefndu landi eftir þrjár vikur og leysa óleysanlegt verkefni á innan við þremur mínútum. Inn í fléttast svo þunnt ástarævintýri Mavericks og fyrrverandi kærustu, Penny (Connelly), sem nú er einstæð móðir og rekur lítinn bar á svæðinu, ekur um á Porsche sportbíl, á glæsilega seglskútu og stórt einbýlishús.

Sól og sveittir kroppar

Hér er komin sumarmynd með stóru s-i. Plottið er auðvitað næfurþunnt, fólk er fallega sólbrúnt og glansandi af svita og sýnir á sér vel taminn kroppinn í strandbolta, líkt og í fyrri mynd. Nóg er af hasar, smá grín inn á milli og mátuleg dramatík, spennan magnast hægt og bítandi, endar með hvelli og hetjan flýgur að lokum í átt að sólsetrinu með stúlkunni sinni. Top Gun: Maverick er skemmtilega gamaldags Hollywood „blockbuster“ og ekkert að reyna að vera neitt annað. Þetta er ein allsherjar nostalgíuferð og sæluhrollur mun hríslast um miðaldra aðdáendur Top Gun . Margt er skammarlaust apað eftir henni, Cruise t.d. skælbrosandi og hjálmlaus á mótorhjóli með ástina sína haldandi um mittið og Rooster spilar „Great Balls of Fire“ á píanóið á barnum, eins og pabbi hans heitinn forðum.

En það er auðvitað líka munur á myndunum tveimur og hann felst einkum í gríðarlegri framþróun þegar kemur að kvikmyndatökutækni og tölvubrellum. Eins og fjallað hefur verið um ítarlega var í engu sparað í flugatriðum og herþotur leigðar fyrir himinháar upphæðir af bandaríska hernum. Mörgum myndavélum var komið fyrir í vélunum og utan á þeim til að ná sem flestum sjónarhornum. Leikarar fóru í stranga þjálfun, voru látnir fljúga með alvöru flugmönnum og köstuðu upp við tökur vegna álagsins sem aukið þyngdarafl veldur á líkamann. Allir nema eina konan í hópnum, merkilegt nokk, enda konur almennt harðari af sér en karlar.

Tökurnar tóku á endanum lengri tíma en samanlagðar tökur á öllum þremur kvikmyndunum um Hringadróttinssögu og allt þetta havarí skilar sér í mögnuðum háloftaatriðum, sumum svo spennandi að maður heldur í sér andanum. Hljóðvinnslan er líka frábær og eiginlega glæpur að sjá þessa mynd í sjónvarpi. Þetta er BÍÓmynd.

Tár á hvarmi

Að öllu þessu sögðu er niðurstaðan sú að Þau bestu: Einfari er sumarbomba af gamla skólanum. Cruise er og verður alltaf Cruise en kemur á óvart þegar glittir í tár á hvarmi í tilfinningaþrungnu atriði. Val Kilmer, illa farinn af krabbameini í hálsi, kemur stuttlega við sögu og snertir hjartastrengi. Svitinn perlar á ennum flugkappa í bakandi sólinni í Kaliforníu og fallegt fólk á innilegar stundir sem minna meira á tryggingaauglýsingu en ástaratriði. En þegar öllu er á botninn hvolft er þetta ein skemmtilegasta mynd ársins til þessa og mikil veisla fyrir augu og eyru.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson