[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Atli Vigfússon Laxamýri Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags í Þingeyjarsýslum, oft kallaður Kúti, er þekktur fyrir framgöngu sína í málefnum vinnandi fólks.

Viðtal

Atli Vigfússon

Laxamýri

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags í Þingeyjarsýslum, oft kallaður Kúti, er þekktur fyrir framgöngu sína í málefnum vinnandi fólks. Hann hefur alltaf stutt við bakið á þeim sem vinna með höndunum og verkefnin eru mörg. Nú eru kjarasamningar framundan, þar sem mótuð verður sanngjörn kröfugerð með aðkomu stjórnvalda, en það er bara eitt af mörgu. Starfsemi Framsýnar hefur vakið athygli um land allt og Aðalsteinn Árni er maðurinn á bak við þá miklu vinnu sem þar fer fram.

Hins vegar vita ekki allir að hann er mikil áhugamaður um frístundabúskap og stundar hann af lífi og sál. Mikið hefur verið að gera að undanförnu í Grobbholti, eins og fjárhúsin kallast, en þar er nú fallegur hópur af lömbum sem kunna því vel að leika sér í vorblíðunni.

Ólst upp við frístundabúskap

„Allt frá því ég man eftir mér fylgdi ég pabba í fjárhúsin og var mjög ungur farinn að gefa fénu. Ég ólst upp við frístundabúskap og þegar pabbi var ekki heima, fylgdi mamma mér í fjárhúsin, því ég stóð varla fram úr hnefa. Pabbi var oft búinn að losa heyið og þá gat ég gefið á garðana þótt lítill væri. Ég vildi alltaf vera í fjárhúsunum.“

Þetta segir Aðalsteinn Árni og bætir við að frístundabúskapurinn hafi gefið sér afar mikið í gegnum tíðina.

„Þegar maður er í mjög annasömu og krefjandi starfi, er nauðsynlegt að geta kúplað sig út eftir vinnudaginn og geta farið og gefið kindunum. Ég tala nú ekki um göngur og réttir sem eru mjög heillandi, en auðvitað hafa menn mismunandi áhugamál. Ég er hjá skepnunum meðan aðrir hjóla, hlaupa eða fara í golf. Auðvitað þarf ég oft að skreppa á fundi eða ráðstefnur í öðrum landshlutum og eftir fráfall pabba hef ég alltaf átt góða að til þess að vinna verkin. Í dag eru tvenn hjón með mér í búskapnum og þegar ég er í burtu sjá þau um allt í Grobbholti. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að gefa þessum gæludýrum sem þar eru,“ segir Aðalsteinn Árni og hefur aldrei áhyggjur af bústofninum þegar hann þarf að fara eitthvað.

Fjárhúsin standa á svokölluðum Skógargerðismel og voru byggð 1968. Faðir hans byggði þau en hafði áður átt lítil fjárhús neðar á melnum, þar sem vegurinn yfir Reykjaheiðina lá áður frá Húsavík. Grobbholtsnafnið kom síðar.

Það hefur lengi verið mikil hefð fyrir frístundabúskap á Húsavík. Þann 16. júlí 1983 komu fjáreigendur þar saman og stofnuðu félag um fjárbúskap. Þrátt fyrir að Aðalsteinn Árni væri langyngstur, þ.e. 22 ára, var hann kjörinn formaður félagsins. Með honum í stjórn voru tveir miklir höfðingjar, eins og hann orðar það, þeir Haukur Haraldsson og Hallmar Freyr Bjarnason, sem báðir voru vel þekktir á Húsavík og unnu vel fyrir samfélagið. Formaður var hann með smá hléum allt til ársins 2021. Hann segir að þá hafi orðið ákveðin tímamót. Hann hafði gengið Húsavíkurafrétt í 50 ár, þ.e. síðan hann var 10 ára gamall er hann fór í sínar fyrstu göngur með föður sínum.

Hann telur framtíðarhorfur í fjárbúskap á Húsavík bjartar. Fjáreigendur séu á öllum aldri og góð endurnýjun. Það skemmir heldur ekki fyrir að hópurinn sem heldur kindur er mjög skemmtilegur og mikill metnaður er til staðar hjá þeim sem eiga bestu kindurnar. Svolítið montnir með sig.

Margir sækja Grobbholt heim

Aðalsteinn Árni er óþreytandi að sýna búskapinn í Grobbholti.

„Ég fæ 200-300 gesti á vorin í fjárhúsin. Það eru leikskólabörn og yngstu börnin í grunnskólanum. Þetta er mjög gefandi og ég tel það ekki eftir mér að sýna krökkunum dýrin. Þess vegna er ég hér líka með dúfur, endur, kanínur og hænur til þess að hafa þetta fjölbreytt. Krakkarnir fá að halda á lömbum, gefa þeim pela eða klappa þeim. Þetta gefur þeim mjög mikið. Stundum koma þau aftur með foreldrum sínum til þess að sýna þeim. Mér finnst þetta mjög gaman. Það skiptir máli að tengja saman landbúnað og þéttbýli. Mér finnst ég búa hér í sælureit,“ segir Aðalsteinn Árni en allar skepnurnar eru gæludýr með nafni og miklir félagar.

Margs er að minnast

Aðalsteinn Árni er búfræðingur að mennt frá Hvanneyri og segir að það hafi komið til af ákveðinni ævintýraþrá. Hann útskrifaðist árið 1979 en afkoma bænda heillaði hann ekki, svo að hann yrði bóndi í fullu starfi, þótt honum byðist góð sauðfjárjörð. Hann óskar þess að hægt verði að bæta stöðu bænda, þannig að um eftirsóknarvert starf verði að ræða. En þrátt fyrir þetta er búskapurinn það skemmtilega í lífinu en margar minningar á hann og segir svo frá:

„Upp í hugann kemur minning úr sauðburði, þegar ég batt band í stórutána á pabba eftir að hann var sofnaður. Þannig var að ærin mín, hún Kraga, átti að bera þá um nóttina og ég vildi vera viðstaddur. Það vildi pabbi ekki. Ég átti að sofa. Við sváfum saman í rúmi og þegar hann fór á vaktina kippti hann mér með sér, því við vorum bundnir saman. Hann hrökk við en fyrirgaf mér þetta uppátæki og tók mig með í fjárhúsin þar sem við áttum ánægjulega stund í fjárhúsunum og Kraga bar fallegum lömbum í morgunsárið. Já, það er alltaf gaman í Grobbholti,“ segir Aðalsteinn Árni að endingu við fréttaritara.