Bestur Stephen Curry fagnar með félögum sínum í Golden State eftir að hafa verið valinn bestur í úrslitakeppni Vesturdeildar NBA.
Bestur Stephen Curry fagnar með félögum sínum í Golden State eftir að hafa verið valinn bestur í úrslitakeppni Vesturdeildar NBA. — AFP/Thearon W. Henderson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson Los Angeles Lokaúrslitin í NBA-deildinni hefjast í nótt. Boston Celtics heimsækir Golden State Warriors í San Francisco eftir erfiða rimmu gegn Miami Heat í úrslitarimmu Austurdeildarinnar síðasta sunnudag.

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Lokaúrslitin í NBA-deildinni hefjast í nótt. Boston Celtics heimsækir Golden State Warriors í San Francisco eftir erfiða rimmu gegn Miami Heat í úrslitarimmu Austurdeildarinnar síðasta sunnudag. Þetta eru tvö leikreynd lið sem eru nú á toppnum í deildinni eftir erfiðleika undanfarin ár.

Liðin hafa ekki mæst í úrslitunum síðan 1964, þegar miðherjarnir Bill Russell hjá Celtics og Wilt Chamberlain hjá Warriors réðu ríkjum á vellinum. Þetta var á þeim árum sem Celtics var yfirburðalið (vann ellefu titla á þrettán árum) og átti því ekki í miklum vandræðum að rústa Warriors í fimm leikjum.

Golden State beið síns tíma

Slíkt ætti ekki að gerast í þessari leikseríu, því flestir sérfræðingar veðja á Golden State í rimmunni.

Ef þessir sömu sérfræðingar hefðu verið spurðir um möguleika Warriors á titlinum í upphafi keppnistímabilsins, hefðu svörin verið líkt því og undirritaður spáði í þessum pistlum í upphafi tímabilsins. Jú, Warriors átti möguleika á að gera það gott en það voru of mörg spurningarmerki varðandi liðið eftir að það komst ekki í úrslitakeppnina síðustu tvö ár.

Fyrir þremur árum tapaði Warriors í lokaúrslitunum gegn Toronto Raptors og vorum við hér á Morgunblaðinu á staðnum þegar það gerðist. Klay Thompson rústaði hné sínu í þeirri leikseríu og missti af öllu næsta keppnistímabili. Eftir tapið gegn Toronto ákvað Kevin Durant að yfirgefa Warriors. Thompson sleit síðan hnésbótarsin í æfingabúðum fyrir síðasta keppnistímabil og var frá leik enn að nýju þar til á miðju þessu tímabili.

„Mig hefur dreymt um það á hverjum degi í meira en tvö ár um að vera aftur í þessari stöðu í úrslitakeppninni en sjúkraþjálfarar okkar lögðu alltaf áherslu á að öll vinnan í endurhæfingunni myndi á endanum skila sér, sagði Thomson eftir sigurinn á Dallas í úrslitarimmu Vesturdeildar.

Þetta hafa því verið þrjú erfið ár fyrir liðið og enginn vissi hvernig Warriors myndu bregðast við endurkomu Thompsons.

Menning og leikgleði

Fjölmiðlafólki er unnt að tala um „kúltúr“ liða í stóru atvinnudeildunum í Bandaríkjunum og Evrópu, það er hæfni forráðamanna þeirra í að komast yfir mótbyr, sem ávallt er handan hornsins. Þetta verður í sjötta sinn á átta árum sem Warriors eru í lokaúrslitunum – nú í nýrri höll, hinum megin við San Francisco flóann – byggt á trú og reynslu forráðamanna, þjálfara og leikmanna hópsins, þrátt fyrir mótbyrinn undanfarin þrjú ár.

Fyrir aðdáendur NBA-boltans er staða Warriors á toppnum góðar fréttir. Liðið spilar skemmtilegasta leikstílinn í deildinni. Boltinn er látinn flakka manna á milli, þar til ákjósanlegt tækifæri skapast.

Það er engin eigingirni í þessu liði.

Þar að auki er augljós leikgleði í liðinu og fer þar fremstur í flokki Stephen Curry – besta skyttan í sögu deildarinnar. „Hann er vélin sem heldur sókninni gangandi hjá okkur, sagði Steve Kerr, þjálfari Warriors nýlega. „Allur sóknarleikurinn fer í gegnum hann og við erum núna heppnir að hafa leikmenn í kringum hann sem falla allir vel inn í sóknarleikinn hjá okkur.

Sem sagt (svo stolið sé frá lagatexta The Who): Hérna eru nýju Warriors. Sömu og gömlu Warriors.

Horford akkerið hjá Celtics

Þetta keppnistímabil hefur sýnt að Boston er einnig vel rekið lið – hefur verið svo í sjötíu ár. Leikmannahópurinn er sterkur en á undanförnum árum hafa meiðsl lykilleikmanna ávallt sett strik í reikninginn. Eftir erfiða byrjun í fyrri hluta deildarkeppninnar, höfðu ekki margir trú á liðinu. Síðan hefur allt smollið saman og hefur varnarleikur liðsins verið aðalsmerki þess þann tíma.

Þar hefur Al Horford verið fremstur í flokki. Hann gekk aftur til liðs við Celtics í upphafi tímabilsins, þegar forráðamenn liðsins fengu hann til baka eftir þriggja ára fjarveru. Hann yfirgaf Boston fyrir þremur árum eftir að hafa tapað fjórum sinnum gegn LeBron James í úrslitakeppni Austurdeildarinnar og eftir að hafa fengið nóg af skrípalátum Kyrie Irvings. Horford hefur verið sterkasta stoð Celtics í vörninni. Hann reiðir sig á framlag þeirra Jaysons Tatum, Jaylens Brown, og Marcus Smart í sóknarleiknum. Þeir hafa allir verið stoðir Celtics á undanförnum árum.

„Þegar hann kom til baka, kom á ný öryggi í varnarleiknum hjá okkur, sagði Smart í vikunni. „Hann virðist alltaf taka réttar ákvarðanir í sókn og vörn og róar okkur þegar þarf. Hann á skilið að vinna titilinn.“

Margt fólk langar að fá annað tækifæri þegar draumar þess rætast ekki. Horford og félagar hafa nú þetta tækifæri og gera án efa allt sem í þeirra valdi stendur til að draumurinn um átjánda meistaratitil Celtics rætist.

Hæð Boston verður erfið

Bæði lið glíma við meiðsl hjá leikmönnum en sú er venjulega raunin hjá liðum þegar svo langt er komið í úrslitakeppninni.

Varnarsérfræðingurinn Gary Payton II og framherjinn Otto Porter Jr. hjá Warriors missa e.t.v. af einum eða tveimur fyrstu leikjunum. Þó er mikilvægara fyrir Celtics að fá miðherjann Robert Williams III til baka en hann hefur þegar misst af nokkrum leikjum það sem af er af keppninni vegna hnémeiðsla.

Aðalsmerki þessarar rimmu verður viðureign varnarinnar hjá Boston og sóknar Golden State – bæði á toppnum í deildinni.

Hávaxnir leikmenn Boston gera eflaust Warriors lífið leitt í atlögu þeirra að körfunni. Afleiðingin gæti orðið sú að þjálfarar Golden State þurfi að aðlaga sóknarleikinn frá því í rimmunni gegn Dallas.

Golden State er taplaust á heimavelli í úrslitakeppninni til þessa en Boston hefur unnið sjö útileiki það sem af er keppninni.

Gáfaða spádómsfólkið veðjar á Boston, en við teljum að Golden State hafi betur í oddaleiknum á heimavelli. Þetta veltur sjálfsagt allt á því hversu vel sókn Golden State gengur gegn firnasterkri vörn Boston.