Jónas Guðmundsson
Jónas Guðmundsson
Kristján Jónsson kris@mbl.is Starfsemi Heilsugæslunnar í Grafarvogi mun flytja tímabundið í önnur húsakynni á næstunni eftir að upp komst um myglu í húsnæðinu.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Starfsemi Heilsugæslunnar í Grafarvogi mun flytja tímabundið í önnur húsakynni á næstunni eftir að upp komst um myglu í húsnæðinu. Vágesturinn hefur haft áhrif á starfsemina þar sem starfsfólk hefur orðið fyrir barðinu á honum.

„Það er rétt að mygla fannst í húsnæði Heilsugæslunnar í Grafarvogi. Því miður hafa þrír starfsmenn fundið fyrir verulegum óþægindum vegna þessa,“ segir Jónas Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jónas er staðgengill forstjórans sem er í fríi sem stendur.

„Þegar við fengum veður af þessu var ákveðið í samráði við húseiganda að flytja heilsugæslustöðina úr húsnæðinu á meðan viðgerðir færu fram. Það er talsvert mál að finna nýtt húsnæði og að flytja heila heilsugæslustöð en við höfum unnið það hratt. Niðurstaðan var sú að heilsugæslustöðin flytur á næstu vikum, en endanleg dagsetning er ekki alveg komin á hreint,“ segir Jónas en leitast verður við að þjónustan raskist sem minnst.

Þjónustan veitt á tveimur stöðum

„Við reynum að tryggja að sem minnst rask verði á þjónustu við okkar skjólstæðinga. Þjónustan verður veitt á tveimur stöðum á meðan verið er að gera við húsnæðið. Boðið verður upp á samdægursmóttöku lækna og hjúkrunarfræðinga, sálfræðiþjónustu fyrir börn og mögulega aðra þjónustu í nýrri aðstöðu á annarri hæð í Spönginni 37 [í Grafarvogi]. Meðan á framkvæmdum stendur verður mæðravernd, ungbarnavernd, læknamóttaka, sykursýkismóttaka og heilsuvernd aldraðra í Hraunbæ 115 í Árbænum.“

Kappkostað verður að viðgerðir gangi hratt fyrir sig að sögn Jónasar.

„Það er auðvitað leitt að það verði þessi röskun á þjónustu en við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að flýta verkinu. Svo hlökkum við til að opna nýja og glæsilega heilsugæslustöð fyrir Grafarvogsbúa að framkvæmdum loknum,“ segir Jónas Guðmundsson ennfremur.