Það dregur úr áhuga Bandaríkjamanna á átökum í Úkraínu – aðeins loftslagshjal og fljúgandi diskar liggja neðar

Stjórnvöld í Rússlandi saka Bandaríkin um að „hella olíu á eldinn“ með því að senda Úkraínumönnum háþróaðar eldflaugar.

„Við teljum að Bandaríkin séu vísvitandi að hella olíu á eldinn,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.

Hann finnur alvarlega að því að Úkraínumenn fái sendar hátæknilegar eldflaugar frá Bandaríkjunum, sem sagðar eru hluti af pakka sem Hvíta húsið bréfaði á eftir Biden til Japan svo að forsetinn næði að staðfesta heimildir til sendinga til stjórnvalda í Kænugarði sem allra fyrst.

Peskov er af innanhússmönnum í Kreml talinn vera helsti talsmaður Pútíns til umheimsins og eiga trúnað hans, svo langt sem það getur náð í tilviki forsetans. Í sínu embætti er Peskov ígildi blaðafulltrúa forseta Bandaríkjanna, sem samkvæmt gamalli hefð hefur verulegt vægi og þéttari og auðveldari aðgang að æðsta manni ríkisins en einstakir embættismenn og ráðherrar og jafnvel þeir í þeim hópi sem teljast til efstu raða píramídans.

Minna má á blaðafulltrúann Pierre Salinger sem er meðal hinna frægustu í sögu slíkra. Sá varð níundi blaðafulltrúi bandaríska forsetaembættisins og gegndi því fyrir John F. Kennedy, en Salinger hafði verið náinn vinur hans og samherji löngu fyrir forsetakjör hans.

Eftir morðið í Dallas varð Salinger blaðafulltrúi Lyndons Johnsons um hríð en naut aldrei fulls trúnaðar hans. Síðar varð hann bandarískur öldungadeildarþingmaður um hríð og loks kosningastjóri Roberts Kennedys þegar hann keppti að útnefningu sem forsetaframbjóðandi 1968. Hann sigldi góðan byr en sá draumur var slökktur með byssukúlu rétt eins og forsetaferill eldri bróðurins. Peskov, blaðafulltrúa Pútíns forseta, var mikið niðri fyrir þegar hann fjallaði um fréttirnar sem þá voru alkunnar, um að Bandaríkin hefðu ákveðið og þegar hafið að senda Úkraínustjórn háþróaðar flaugar til að styrkja stöðu hennar gegn þungavigtarhergögnum Rússa. Peskov sagði athæfið sýna að Bandaríkin hefðu endanlega ákveðið að berjast til síðasta Úkraínumannsins! Peskov sagði Bandaríkin senda þessi vopn „vísvitandi,“ sem er nú eins gott, enda væri harla sérkennilegt ef slík vopn væru send um hálfan hnöttinn án þess að bandarísk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því hvað væri á ferð. Og blaðafulltrúinn bætti því við að rússnesk yfirvöld teldu „að með þessari gjörð væru bandarísk yfirvöld að hella olíu á eldinn!“ Mörgum þykir þó meiru varða hver stofnaði til þess eldhafs og hleypti öllu í bál og brand í Úkraínu fyrir fáeinum mánuðum, svo að milljónir urðu að flýja land sitt svangar og snauðar og skilja menn sína og syni eftir í dauðans óvissu, í orðanna fyllstu merkingu. Blaðafulltrúi Pútíns taldi að ákvörðun Bidens forseta væri bersýnilega til þess fallin að draga mjög úr vilja stjórnvalda í Kænugarði til að hefja friðarviðræður á nýjan leik.

Hitt er rétt að Selenskí, forseti Úkraínu, hefur sagt nokkrum sinnum og ítrekað síðustu vikurnar að þessum harmleik lyki ekki á vígvellinum. Aðeins aðkoma beggja að borði vopnahlés- og friðarsamninga gæti sett punkt aftan við allan hryllinginn. En Selsenskí hefur jafnframt sagt að allur heimurinn hljóti að gera sér grein fyrir því, að í samningagerð um frið geti stjórnvöld í Kænugarði aldrei samið um að ferfet af úkraínsku landi fari til Rússa. Sú yfirlýsing á samúð flestra þeirra sem veitt hafa Úkraínu hjálp í orði eða verki.

En fæstir þeirra hafa sagt upphátt að þótt réttlætið eigi svo sannarlega samleið með þessari forsendu friðar sem forseti Úkraínu gefur sér, þá sé með öllu óvíst hvort það komist þannig skóað nokkru sinni nærri samningaborðinu, hvað þá að því. Það gæti orðið grimmur örlagadómur.

„Hinar ógurlegu efnahagsþvinganir ESB og annarra“ tryggja Pútín meira en milljarð dollara á dag í sinn kassa og veikja um leið efnahag þvingaranna heima fyrir svo að þeir munu verða lengi að ná sér. Þar var nálgunin sorglega vanhugsuð. Enn á íslensk glíma ekki frásögn af því að glaðbeittir glímumenn hafi sótt harðast að koma hælkrók á sjálfa sig, með varanlegum afleiðingum.