Karlalandslið Íslands í fótbolta leikur við Ísrael í fyrsta leiknum í B-deild Þjóðadeildarinnar ytra í kvöld. Miðasala fyrir heimaleiki Íslands í keppninni fer hægt af stað og eru fjölmargir miðar enn í boði fyrir leikina við Albaníu 6.
Karlalandslið Íslands í fótbolta leikur við Ísrael í fyrsta leiknum í B-deild Þjóðadeildarinnar ytra í kvöld. Miðasala fyrir heimaleiki Íslands í keppninni fer hægt af stað og eru fjölmargir miðar enn í boði fyrir leikina við Albaníu 6. júní og Ísrael 13. júní á Laugardalsvelli.

Fyrir nokkrum árum var slegist um miða á alla heimaleiki Íslands og uppselt á augabragði á leiki gegn þjóðum á borð við Kasakstan, Lettland, Finnland og Kósóvó.

Á þeim tíma var gengi liðsins að sjálfsögðu mun betra og íslenskt karlalandslið í fótbolta fór á sín tvö fyrstu stórmót. Slegist var um miða á leiki í undankeppninni og mun færri komust að en vildu.

Árin þar á undan var aðeins uppselt þegar Ísland mætti stórþjóðum og virtist fólk helst spennt að sjá hitt liðið spila.

Til að mynda var uppselt á leik Íslands og Portúgals í undankeppni EM 2012, enda Ronaldo í portúgalska liðinu. Verr gekk að selja miða á leikinn gegn Noregi skömmu áður, þrátt fyrir að John Arne Riise væri í norska liðinu.

Strax eftir HM 2018 gekk illa að selja miða á leiki gegn Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni. Ævintýrið virtist búið og almenningur hættur að mæta á leiki á Laugardalsvelli sem Cristiano Ronaldo spilar ekki.

„Mér finnst fólk mega hafa aðeins meira svigrúm og ekki vera svona fljótt að afskrifa menn,“ sagði Rúrik Gíslason við undirritaðan skömmu eftir HM. Þau orð eiga enn við. Það er fátt skemmtilegra en að mæta á troðfullan Laugardalsvöll og sjá íslenskt landslið standa sig. Allir á völlinn!