Á heimavelli Hafsteinn í gróðurhúsi sínu að huga að plöntunum, að þeim þarf jú að hlúa og margs að gæta.
Á heimavelli Hafsteinn í gróðurhúsi sínu að huga að plöntunum, að þeim þarf jú að hlúa og margs að gæta. — Ljósmyndir/Úr bókinni Allt í blóma
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mykjan úr fjósinu fór í kálgarðana en taðið úr lambhúsunum fór í kartöflugarðinn,“ segir Hafsteinn Hafliðson þegar hann rifjar upp æskuárin og það sem hann lærði af Björgu í Vigur um garðyrkju.

„Mykjan úr fjósinu fór í kálgarðana en taðið úr lambhúsunum fór í kartöflugarðinn,“ segir Hafsteinn Hafliðson þegar hann rifjar upp æskuárin og það sem hann lærði af Björgu í Vigur um garðyrkju. Hafsteinn hefur áratuga reynslu af garðyrkju og hefur nú sent frá sér bók sem sumir segja vera biblíu áhugafólks um pottaplöntur. Þar leiðbeinir hann um pottablómarækt við íslenskar aðstæður.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef verið í jurtum frá því ég man eftir mér. Ég hafði sem krakki strax áhuga á plöntum og garðyrkju, enda ólst ég upp við þetta sem eðlilegan hlut, en ég þótti reyndar svolítið skrýtinn,“ segir Hafsteinn Hafliðason, garðyrkjumeistari og höfundur nýrrar bókar, Allt í blóma, pottablómarækt við íslenskar aðstæður . Í þeirri bók greinir hann frá öllu því sem huga ber að í sambýli við pottablóm, svo þau fái að vaxa og dafna.

„Pottablóm voru á flestum bæjum í Djúpinu meðan ég var að alast upp þar, en ég flutti ungur með móður minni í Vigur í Ísafjarðardjúpi þegar hún giftist Baldri í Vigur. Mamma hét Sigríður Salvarsdóttir, en hún var ekki mikið í plöntunum, aftur á móti var tengdamóðir hennar, Björg Björnsdóttir, mikil jurtakona. Björg í Vigur eins og hún var alltaf kölluð var ekkert að kenna mér meðvitað, en ég tók vel eftir því sem hún gerði í tengslum við jurtir. Hún var mikið fyrir lífræna ræktun, það mátti aldrei koma tilbúinn áburður í matjurtagarðana hennar og hún hafði skoðun á því frá hvaða skepnum áburður væri fyrir ákveðnar plöntur. Til dæmis fór mykjan úr fjósinu í kálgarðana en taðið úr lambhúsunum fór í kartöflugarðinn. Hún lá ekki á skoðunum sínum hún Björg, þessi kona sem var fædd undir lok nítjándu aldar og alin upp norður í Skagafirði á Veðramóti í Gönguskörðum.

Björg lærði margt um umhirðu plantna af fyrri kynslóðum, en móðurbróðir hennar var Stefán Stefánsson sem skrifaði Flóru Íslands. Jurtaþekkingin náði því langt aftur í fjölskyldunni en auk þess bjó hún vel að því að Guðrún systir hennar lærði garðyrkju í Danmörku og útskrifaðist þaðan sem garðyrkjukona,“ segir Hafsteinn og bætir við að hann hafi sjálfur einnig notið skólunar hjá móðurömmu sinni Ragnheiði í Reykjafirði sem og hjá Rannveigu ljósmóður á Eyri í Seyðisfirði.

„Þar voru stofur fullar af blómum. Faðir minn, Hafliði Jónsson, var líka garðyrkjumaður og starfaði lengi fyrir Reykjavíkurborg sem garðyrkjustjóri. Kannski kom því af sjálfu sér að ég fór í garðyrkjunám til Svíþjóðar þegar ég var 17 ára. Maður tekur því sem kemur til manns og maður getur sinnt.

Þegar ég fór út til náms rétt eftir seinni helming liðinnar aldar, þá voru áherslur aðrar í garðyrkju þar en hér heima á Íslandi. Þá voru enn herragarðar í Svíþjóð sem þurftu á garðyrkjumönnum að halda og þeir þurftu að vera jafnvígir á ávaxtatré, grasflöt, matjurtaland, pottablóm og jafnvel blómaskreytingar. Ég fékk nasasjón af þessu í náminu og seinna vann ég um tíma í Svíþjóð við garðyrkjuráðgjöf í Garðyrkjumiðstöð utan við Stokkhólm.“

Öruggt að þær kjafta ekki frá

Hafsteinn segist við bókarskrifin hafa unnið upp úr lista sem hann átti.

„Þegar þetta á að birtast almenningi þá þarf maður að tékka á öllu tvisvar eða jafnvel þrisvar og nú er sem betur fer hægt að gera það á netinu. Ég þurfti að fara yfir hverja einustu plöntutegund og velja hverjum ég ætti að sleppa, þeim sem eru ekki algengar eða lítt vinsælar,“ segir Hafsteinn og tekur fram að í bókinni taki hann fyrir 350 pottablóm, gefi góð ráð um ræktun og umhirðu ólíkra tegunda og svari spurningum um hvernig ala skuli upp ólíkar plöntur, hversu mikið eigi að vökva, hvaða birta henti hverri plöntu og hvar hún ætti að standa, hvaða mold sé best að nota og hvernig sé ráðlegt að standa að umpottun og fjölgun.

„Við ræktun pottablóma þarf að hafa ýmislegt í huga, til dæmis hvaðan blómið kemur upphaflega, frá hvaða landi og við hvaða aðstæður það lifir þar og hvað gagnist þeim best við íslenskar aðstæður. Í pottablómum er líka heilmikil menningarsaga, en frá því um miðbik átjándu aldar – eða jafnvel fyrr – sendu efnamenn leiðangra í önnur lönd og heimsálfur, Asíu og Ameríku, bæði norður og suður, til að koma með nýjar blómategundir í fínu herragarðana. Þetta voru miklir ævintýramenn sem fóru í slíka plöntusöfnunarleiðangra.“

Þegar Hafsteinn er spurður að því hver af þeim gömlu pottaplöntum sem finnast á íslenskum heimilum falli aldrei úr gildi, svarar hann að einna helst séu það gömlu pelargóníurnar.

„Þær voru komnar á hvert heimili hérlendis um 1850. Maríulaufið eða aspidistran, fellur ekki heldur úr gildi, en ég veit dæmi þess að maríulaufið hafi erfst á milli kynslóða í hundrað ár. Það er ekki óalgengt að innan fjölskyldna taki ný kynslóð við blómi einstaklings þegar hann eða hún fellur frá,“ segir Hafsteinn og bætir við að ef afkomendur hans sníki afleggjara af honum, þá gefi hann þeim fúslega.

„Dóttir mín er garðyrkjufræðingur og líka dóttir hennar, svo þetta lifir allt góðu lífi innan fjölskyldunnar.“

Jurtir eru lifandi verur og Hafsteinn veit manna best að nærvera við þær er notaleg og hversu heilandi er að annast þær.

„Þú getur sagt ýmislegt við plöntur og verið viss um að þær kjafti ekki frá eða svari til baka. Hægt er að treysta á þeirra trúnað.“