Gústav Óskarsson fæddist 29. maí 1942 á Víðimel í Reykjavík. Hann lést 24. maí 2022 á líknardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Foreldrar hans voru Óskar Magnússon og Kristín Salómonsdóttir. Hann var elstur fimm systkina en á eftir honum í röðinni eru: Sigrún, Rut, Anna og Ína Salóme.

Gústav ólst upp á Stóra-Ási á Seltjarnarnesi í faðmi stórfjölskyldunnar. Hann lærði húsgagnasmíði hjá Guðmundi blinda í Trésmiðjunni Víði og starfaði þar í ein 30 ár sem húsgagnasmiður og síðar verslunarstjóri í Húsgagnaverslun Guðmundar. Gústav starfaði sem umsjónarmaður fasteigna Listasafns Reykjavíkur og stýrði viðhaldsverkefnum og uppsetningu listviðburða á Kjarvalsstöðum, í Hafnarhúsinu og á Ásmundarsafni.

Gústav kvæntist Elsu Haraldsdóttur árið 1964 og áttu þau saman þrjú börn; Óskar Davíð, Ríkharð og Hörpu. Gústav og Elsa slitu samvistum. Árið 2007 giftist hann Sigþrúði Sigurjónsdóttur sem átti þrjú börn fyrir, þau Helga, Kristínu og Þór Magnúsarbörn.

Hann bjó með Sigþrúði síðustu árin á Hvolsvelli.

Gústav var virkur í félagsstörfum og starfaði í mörg ár með Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Hann kom meðal annars að þjálfun nýliða og sat í stjórn sveitarinnar. Einnig var hann virkur félagi í Oddfellowreglunni og var í stúku Leifs heppna í Reykjavík.

Útför Gústavs fer fram frá Digraneskirkju í dag, 2. júní 2022, klukkan 15 og verður hann jarðsettur í Kópavogskirkjugarði.

Við systkinin eigum margar góðar minningar um pabba. Hann var mikil félagsvera, vinamargur og hélt ætíð góðu sambandi við vini og ættingja. Veðurlýsingar hans voru þekktar innan fjölskyldunnar, því hann var alltaf í besta veðrinu. Sama hvernig viðraði.

Við minnumst ferða á Land Róvernum og fræg er hringferðin um landið sem var farin á þremur dögum, þegar hringvegurinn opnaði. Oft var farið inn í Þórsmörk, enda var ekki langt að fara þangað úr Landeyjunum, þar sem hann undi sér jafnan vel og dvaldi löngum stundum. Hann var góður sögumaður og húmoristi sem lagði sig fram um að gleðja aðra. Margar voru ferðirnar á aðfangadag sem við fórum á Land Róvernum, íklædd jólasveinabúningum, með gjafir til vina og ættingja. Hann var mikill tónlistarunnandi og djass var í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Það var gott að alast upp í frjálsræðinu í Vesturberginu, þar sem gjarnan var margt um manninn og allir velkomnir. Pabbi naut sín best í hesthúsinu þar sem gjarnan var líf og fjör. Skemmtilegar minningar eru tengdar sleppitúrum á vorin, þegar farið var með hestana í sumarbeit í Landeyjum.

Pabbi hreyfði sig alla tíð mikið. Fór daglega í sund og langa göngutúra. Þegar heilsunni fór að hraka síðustu árin, var bjartsýni hans enn til staðar og var hann jafnan betri í dag en í gær.

Við söknum öll kærleiksríks föður og afa.

Óskar, Ríkharður (Rikki), Harpa.

Gústi bróðir er dáinn.

Við sitjum hér saman systurnar á afmælisdeginum hans, 29. maí. Hann hefði orðið 80 ára í dag. Dagurinn er bjartur og fallegur eins og hann var sjálfur.

Við ólumst upp sem stórfjölskylda í Stóra-Ási á Seltjarnarnesi, amma, afi, mamma, pabbi, Gústi bróðir og systurnar fjórar, Sigrún, Rut, Anna og Ína.

Í minningunni var æska okkar dásamleg og bar þar aldrei skugga á.

Hér áður fyrr kallaði Gústi Sigrúnu „Lillu“ og Rut, Önnu og Ínu „kjúkurnar þrjár“. Við brostum alla tíð að þessu.

Gústi bróðir bar endalausa umhyggju fyrir okkur systrum. Hann kom og bjargaði málunum ef einhver var að hrekkja okkur. Hann var stóri bróðir sem stökk yfir breiðasta skurðinn með okkur kjúkurnar þrjár á bakinu. Hann hljóp hraðast og var í frjálsum íþróttum hjá KR.

Okkur fannst hann myndarlegastur.

Gústi gekk ungur að árum í Flugbjörgunarsveitina og sinnti því sjálfboðaliðastarfi af ástríðu í mörg ár.

Gústi var hrifnæmur djassunnandi og mjög góður dansari.

Hann var hrókur alls fagnaðar í fjölskylduboðum, sagði sögur og fékk fólk til að hlæja.

Gústi var mikill hestamaður og eru margar minningar tengdar hestamennsku út frá sumarbústað í Landeyjum þar sem farið var í reiðtúra, leiki og fleira.

Við systkinin höfum átt margar dýrmætar samverustundir.

Nú er hann ekki lengur hér, við og fjölskyldur okkar munum sakna hans.

Blessuð sé minning Gústa.

Sigrún, Rut, Anna og Ína Salóme.

„Næsti. Haltu fast, annars ertu dauður.“ Nýliðaforinginn var ekki með neinar málalengingar. Svo kom merkið. „Tryggður.“ Ég horfði niður með kaðlinum, 30 metra ofan í Almannagjána. Það var núna sem ég átti að renna mér niður kaðalinn til enda. Gústi tryggði hinn endann. Við nýliðarnir létum hafa okkur í þetta, því ekkert virtist sjálfsagðara.

Gústi hafði nokkrum vikum áður skráð okkur Gylfa og Dóra í nýliðaflokk Flugbjörgunarsveitarinnar þar sem hann var flokksforingi nýliðanna. Þetta var fyrir hartnær 50 árum, nokkru áður en ég og Anna systir hans gengum í hjónaband. Þarna og svo oft sá Gústi um tryggingarnar og rétti okkur líflínuna. Við, og svo margir fleiri, fikruðum okkur eftir líflínunni vitandi að Gústi var á endanum og tryggði. Með þessu varð hann mikill áhrifavaldur í lífi mínu og svo margra annarra sem hann tók að sér og leiðbeindi og hafði auga með. Þarna var hann allt í öllu. Keyrði gömlu herbílana, kenndi skyndihjálp, klifur og hvaðeina sem björgunarsveitarmenn þurfa að kunna. Aldrei þurfti hann að hækka róminn og var hógvær í allri framkomu, með mikinn húmor fyrir mönnum og málefnum, en sýndi alltaf nærgætni. Hefur eflaust lært að umgangast aðra með virðingu, því þröngt var í Stóra-Ási þar sem bjuggu foreldrar, afi og amma, systkini og frændur og frænkur. Þar þurftu allir að taka tillit og hjálpast að. Anna hefur svo oft nefnt hvað gott hafi verið fyrir fjórar stelpur að eiga einn stóran og sterkan bróður ef eitthvað bjátaði á. Teymi sem nefndi sig síðar „Systurnar og Gústi“.

Enn og aftur tók hann mig með sér og núna í Oddfellowregluna, en þar voru fyrir nokkrir félagar úr Flugbjörgunarsveitinni. Gústi var þar í mörg ár í ábyrgðarstöðu og mátti hann vart missa af fundi þess vegna. Iðulega, þegar honum fannst ég ekki sinna starfinu nægjanlega, hringdi hann og bauðst til að taka mig með í leiðinni.

Hann hringdi líka mjög oft til að spjalla og til að fá fréttir. Átti ég það til að spyrja frétta af ættaróðalsbóndanum Pétri í Stóru-Hildisey, en Gústi var í miklu sambandi við hann, sérstaklega á sumrin þar sem hann var með hestana. Hann naut þess að segja með tilþrifum frá starfi bóndans. „Nú var svo mikið rok í Landeyjunum í gær að Pétur þurfti að fylla alla vasa af steinum til að fjúka ekki út í veður og vind.“

Fjölskyldan hefur ræktað sambandið gegnum árin við hátíðleg tækifæri og á árlegum systkinamótum. Þannig eru börn okkar og barnabörn góðir vinir í dag. Við verðum að halda okkar striki og passa upp á að líflínan sem við fengum og tengir okkur í dag slitni ekki.

Blessuð sé minning Gústa.

Arngrímur Hermannsson.

Í dag kveðjum við góðan félaga og vin, Gústav Óskarsson, sem hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi. Til fjölda ára var Gústi, eins og hann var alltaf kallaður, hluti af hópnum okkar góða, Klíkunni, sem hefur haldið hópinn í rúm 50 ár. Gústi var góður félagi og alltaf hrókur alls fagnaðar, hvort heldur var í árlegum ferðum okkar eða á vinafundum. Hann var léttur í lund og mikill húmoristi og grínaðist óspart og ekki síst henti hann gaman að sjálfum sér.

Eftir að leiðir hans og fyrri eiginkonu hans, Elsu Haraldsdóttur, skildi hafa samskiptin við Gústa ekki verið eins mikil og náin og áður en hann var alltaf sami Gústinn og var dásamlegt að hitta hann á förnum vegi. Alltaf var faðmurinn, handtakið og brosið jafn hlýtt.

Flestir strákarnir í klíkunni voru á yngri árum virkir félagar í Flugbjörgunarsveitinni. Lávarðarnir, sem eru eldri félagar í sveitinni, hafa hist á laugardagsmorgnum í félagsheimili FBS við Reykjavíkurveg. Enda þótt Gústi hafi flust út fyrir borgarmörkin, sá hann sér fært að mæta stöku sinnum, sér og félögum sínum og vinum til ánægju.

Hestamennskan var aðaláhugamál Gústa og um árabil átti hann afdrep í Landeyjunum, þar sem hópurinn kom oft saman og þar sem hann hafði hestana á hagabeit. Þar undi hann sér vel og kannski það vel að hann flutti búferlum fyrir nokkrum árum frá Kópavogi í næsta nágrenni eða á Hvolsvöll.

Þegar góður vinur er kvaddur er gott að ylja sér við ljúfar minningar og minnast góðra samverustunda. Um leið og við vottum eiginkonu hans, Sigþrúði og fjölskyldu, börnum hans Óskari, Rikka, Hörpu og fjölskyldum þeirra og öllum þeim sem standa honum nærri okkar dýpstu samúð, minnumst við Gústa með hlýhug og þökkum honum fyrir vináttu liðinna ára og tökum undir orð Hávamála:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Haraldur og Gunnar,

Erla og Garðar,

Arnbjörg og Sveinbjörn,

Ólafía og Hermann,

Snæfríður og Kolbrún.