Fálkahúsið Austurhlutinn var áður lundabúð en gæti orðið veitingastaður. Takið eftir útskornu fálkunum.
Fálkahúsið Austurhlutinn var áður lundabúð en gæti orðið veitingastaður. Takið eftir útskornu fálkunum. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fálkahúsið við Hafnarstræti þekkja allir, enda reisulegt og fallegt hús í Kvosinni. Elsti hluti hússins var reistur 1868, svo saga þess er orðin löng og merkileg.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fálkahúsið við Hafnarstræti þekkja allir, enda reisulegt og fallegt hús í Kvosinni. Elsti hluti hússins var reistur 1868, svo saga þess er orðin löng og merkileg. Margvísleg starfsemi hefur verið í húsinu í gegnum tíðina en seinni árin hefur veitingastarfsemi orðið allsráðandi.

Í Fálkahúsinu, Hafnarstræti 1-3, eru í dag rekin tvö veitingahús, Sæta svínið í vesturhlutanum og Fjallkonan er í miðhlutanum. Þetta eru vinsæl veitingahús og á sólardögum á sumrin fyllist Hafnarstrætið af gestum sem njóta veitinga og sólar utandyra.

Reykjavíkurborg samþykkti í fyrra að breyta austurhluta Fálkahússins í Hafnarstræti úr verslunarrými í veitingastað. Hins vegar hefur leyfið ekki verið nýtt ennþá, hvað sem síðar verður.

Fjallkonan veitingahús ehf. sótti um að breyta vesturhluta hússins úr verslunarrými í veitingastað fyrir 80 gesti með starfsmannaaðstöðu á 2. hæð. Staðurinn verði rekinn í sjálfstæðu brunahólfi og varinn með vatnsúðakerfi.

Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa Reykjavíkur að samkvæmt aðalskipulagi sé lóðin og byggingin á Hafnarstræti 1-3 í miðborgarkjarna (M1a) þar sem finna má lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, auk fjölbreyttrar verslunar, veitinga og þjónustustarfsemi. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi. Rýmið sem sótt er um að breyta í veitingastað í flokki II hýstiáður verslunina The Viking(lundabúð). Veitingastarfsemi rúmist innan heimilda og því er tekið jákvætt í fyrirspurnina.

Fálkahúsið var friðað af menntamálaráðherra 19. apríl 1991 og tekur friðunin til ytra borðs.

Veiddu fálka fyrir konung

Fram kemur á heimasíðu Minjastofnunar að þetta sé timburhús. Miðhluti hafi verið reistur 1868 og austurhlutinn 1885. Hönnuðir eru ókunnir. Vesturhluti hússins reis 1907 og húsin þrjú felld í eina heild. Hönnuður var Einar Erlendsson arkitekt.

Öldum saman var það ein af skyldum Íslendinga við konung sinn að sjá honum fyrir veiðifálkum sem hann notaði mest til gjafa. Íslenskir fálkar þóttu taka öðrum fálkum fram um veiðifærni og úthald og voru því hinar mestu gersemar. Fjöldi fálka var veiddur ár hvert og voru þeir fluttir til geymslu í sérstökum fálkahúsum á Bessastöðum og á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi á meðan fálkaskips var beðið.

Í riti Páls Líndal, Reykjavík, sögustaður við Sund , segir að árið 1763 hafi fálkahúsið á Bessastöðum verið flutt til Reykjavíkur og sett niður á malarkambi, þar sem nú er Hafnarstræti. Þar voru fálkarnir geymdir meðan þeir biðu flutnings til Danmerkur.

Til er samtímalýsing erlends manns sem kom í Fálkahúsið árið 1789. Alls voru þar 30-40 fálkar og sátu þeir á tveimur slám sem fætur þeirra voru bundnir við. Fálkarnir voru með hettu á hausnum, sem náði niður fyrir augun. Var það gert svo þeir yrðu meðfærilegri, enda voru þeir ekki tamdir fyrr en þeir komu til Kaupmannahafnar.

Um aldamótin 1800 lögðust fálkaveiðar af og þar með útflutningur fuglanna. Síðar var húsið innréttað til verslunar. Um 1850 eignaðist N. Chr. Havsteen Fálkahúsið og rak þar verslun sem var við hann kennd. „Árið 1868 lét hann rífa það og reisa nýtt og afar vandað hús nokkru norðar, sem enn stendur, og eru m.a. útskornir fálkar á báðum burstum til að minnast gamla fálkahússins. Útskurðurinn, sem prýðir húsið, mun vera verk Stefáns Eiríkssonar myndskera, “ segir Páll Líndal. Hið nýja hús var einnig kallað Fálkahúsið, þótt þar væru engir fálkar nema á burstum.

Árið 1878 eignaðist J.P.T. Bryde etatsráð húsið. Brydesverslun var með mestu verslunum bæjarins um aldamótin 1900. Árið 1914 varð húsið eign elstu heildverslunar Íslands, Ó. Johnson&Kaaber, og hafði fyrirtækið þar skrifstofur sínar um langa hríð.

Miklar endurbætur gerðar

Nýir eigendur tóku við húsinu 1997 og létu gera miklar endurbætur á því, bæði innanhúss og utan. Var skipt um nánast allt tréverk. Árið 2014 voru fálkarnir á burstunum lagfærðir og sömuleiðis víkingaskipið fyrir miðju húsi, sem mikil prýði er að. Sigurður Ólafsson frá Butru í Fljótshlíð skar það út. Skipið var illa farið en var gert upp svo það leit út eins og nýtt.

Margar verslanir hafa verið reknar í húsinu og má þar nefna búsáhaldaverslunina Hamborg og Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Á seinni árum hefur veitingarekstur orðið meira áberandi í Fálkahúsinu.