Elísabet Gunnarsdóttir
Elísabet Gunnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elísabetu Gunnarsdóttur, Guðrúnu Ágústsdóttur og Álfheiði Ingadóttur: "Löngum var þagað um heimilisofbeldi og það álitið einkamál þeirra sem valda eða verða fyrir því en í dag eru 40 ár síðan sá þagnarmúr var rofinn."

Undanfarin ár hafa konur, jafnvel lands- eða heimsþekktar, stigið fram og lýst því þegar óþekktir menn eða frægir hafa áreitt þær, ráðist á þær, misþyrmt og nauðgað. „ Ég er líka ein þessara kvenna “ segja þær. Hvernig þora þær að ganga fram fyrir skjöldu og segja frá, vitandi að þær þurfa að svara nærgöngulum spurningum um einkalíf sitt? Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Flestum konum er erfitt að rjúfa þögnina, ekki síst í fámennu samfélagi eins og á Íslandi. Löngum var þagað um heimilisofbeldi og það álitið einkamál þeirra sem valda eða verða fyrir því en í dag eru 40 ár síðan sá þagnarmúr var rofinn.

Nýja kvennahreyfingin sem fór að láta á sér kræla á Vesturlöndum undir 1970 tók fljótlega að fjalla um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Dágóðan tíma tók að átta sig á hvernig best væri að taka á þessum málum sem eru í senn viðkvæm og skelfileg. Niðurstaðan var fræðsla og skjól . Erin Prizzey stofnaði fyrsta nútíma kvennaathvarfið í Chiswick í London árið 1971. Bók hennar Scream Quietly or the Neighbours Will Hear barst víða og hugmyndir hennar fundu sér hljómgrunn, einkum meðal kvenréttindasinna. Hér á landi voru málin töluvert rædd uns hópur úr kvennahreyfingunni, stjórnmálaflokkum og verkalýðsfélögum tók sig saman, lét verkin tala og 2. júní 1982 – fyrir 40 árum – voru Samtök um kvennaathvarf stofnuð. Fundurinn sem haldinn var á Hótel Esju var eftirminnilegur. Stærsti salur hótelsins varð fljótt sneisafullur. Rúmlega 200 manns gerðust félagsmenn á staðnum, mestmegnis konur, nokkrir karlmenn og heilt verkalýðsfélag, Starfsmannafélagið Sókn undir forystu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur. Fundarmenn samþykktu að koma á fót kvennaathvarfi, jafnvel þótt fundarboðendur hefðu heldur fátæklegar tölfræðilegar upplýsingar á takteinum. Þó var til ein könnun á heimilisofbeldi hér á landi en hana gerðu þær Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur, Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi og Þorgerður Benediktsdóttir lögfræðingur á komum kvenna á slysvarðstofuna í Reykjavík 1980. Þarna voru ábyggilegar tölur en þær sögðu þó lítið því þarna voru eingöngu þær konur sem leituðu til sjúkrahússins vegna áverka sem þær höfðu hlotið af völdum heimilismanns og sögðu frá því. Enginn var þó í efa um að fæstar konur leituðu sér læknisaðstoðar eða segðu frá þótt árásirnar væru hrottalegar.

Nú var ekki til setunnar boðið – fyrir árslok skyldi opna athvarf fyrir konur og börn þeirra sem þyrftu að flýja heimili sitt vegna ofbeldis og eins konur sem orðið hefðu fyrir nauðgun. Þetta var gert og Kvennaathvarfið opnað 6. desember í heldur hrörlegu húsi sem Eimskipafélagið skenkti samtökunum. Með hjálp fyrirtækja og sjálfboðaliða var húsið lagfært og búið húsgögnum, bókum og barnaleikföngum – það voru aðeins 10.000 krónur í kassanum og við opnun voru enn til þrjú þúsund til að hefja reksturinn. Frá upphafi sýndi ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og nokkur önnur sveitarfélög samtökunum það traust að veita fé til rekstursins svo ráða mátti tvo starfsmenn til athvarfsins en þar sem það var opið allan sólarhringinn alla daga ársins þurfti góðan hóp sjálfboðaliða til viðbótar. Að vísu var það þannig á pappírnum að allir ættu að fá greitt fyrir vinnu í athvarfinu, starfið væri ekki góðgerðarstarfsemi, en í raun skiluðum við laununum aftur í kassann um hver mánaðamót.

Aðhald og reglusemi hefur einkennt starfsemi athvarfsins. Opinberir aðilar og almenningur líta svo á að athvarfið gegni nauðsynlegu starfi og geri það með sóma og því hafa opinber fjárframlög skilað sér jafnt og þétt og almenningur brugðist rausnarlega við þegar athvarfið hefur safnað peningum til nauðsynlegra framkvæmda. Ekki var liðið nema ár þegar farið var í fyrstu fjársöfnunina til að kaupa betra húsnæði undir athvarfið og fékkst þá fé til að kaupa gott hús í miðbænum. Enn var safnað á tíu ára afmælinu og keypt glæsilegt hús í Vesturbænum. Síðan hefur athvarfið flutt í þriðja sinn og nú er verið að reisa áfangaheimili fyrir konur sem eru húsnæðislausar eftir dvöl í athvarfinu. Þessi saga sannar að hægt er að byggja skýjaborgir ef þær hvíla á traustum grunni.

Stofnfundurinn ályktaði að vinna gegn ofbeldi „með því að stuðla að opinni umræðu og viðurkenningu samfélagsins á því að veita konum þeim sem ofbeldi eru beittar raunhæfa aðstoð og vernd“. Og einnig að „aðstoða konur við að rjúfa þann múr einangrunar og þagnar sem reistur hefur verið um ofbeldi á heimilum“. Þessi tvö atriði eru grunnforsenda nútíma kvennaathvarfa og allrar kvennabaráttu á þessu afgerandi sviði. Þegar einangrunin er rofin, þegar viðhorfum hefur verið breytt þá verða stjórnvöld í lýðræðisríkjum að standa við bakið á og efla starfsemi kvennaathvarfanna og þann málstað sem þau standa fyrir. Þetta hefur gerst hér á landi, konum hefur vaxið ásmegin og þær stíga fram og neita að sætta sig við ofbeldi sinna nánustu.

Það er því full ástæða til að fagna á 40 ára afmæli Kvennaathvarfsins, en um leið má ekki gleyma því að víða um lönd er nú gengið freklega á rétt kvenna, jafnvel í svokölluðum lýðræðisríkjum.

Höfundar eru stofnfélagar og fyrrverandi starfsmenn Kvennaathvarfsins. alfheidur.ingadottir@gmail.com