Verðmætasköpun Gjaldtakan af sjókvíaeldi skilar sífellt auknum fjárhæðum í Fiskeldissjóð. Alls hefur verið úthlutað 290 milljónum frá stofnun.
Verðmætasköpun Gjaldtakan af sjókvíaeldi skilar sífellt auknum fjárhæðum í Fiskeldissjóð. Alls hefur verið úthlutað 290 milljónum frá stofnun. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Stjórn Fiskeldissjóðs hefur úthlutað öðru sinni styrkjum til eflingar innviðum og atvinnulífi í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Stjórn Fiskeldissjóðs hefur úthlutað öðru sinni styrkjum til eflingar innviðum og atvinnulífi í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Úthlutaðir styrkir námu rúmlega 185 milljónum króna sem er 76% hærri upphæð en úthlutað var úr sjóðnum á síðasta ári, þegar veittar voru tæpar 105 milljónir króna.

Tekjur sjóðsins eru einn þriðji af sérstöku gjaldi sem innheimt er af ríkinu vegna fiskeldis í sjó. Í takti við aukningu í umsvifum fiskeldis hafa tekjur sjóðsins aukist. Auk þess hefur gjaldheimtan þyngst þar sem gjaldið er innleitt í sjö skrefum á sjö árum og var innheimtan í fyrra tveir sjöundu af fullu gjaldi en er þrír sjöundu á þessu ári. Má gera ráð fyrir nokkurri aukningu í úthlutunarfé sjóðsins en óvíst er hvaða áhrif tæming sjókvía á Austfjörðum, vegna veiru sem veldur blóþorra, hefur á gjaldtökuna.

Þurftu að forgangsraða

Alls bárust 15 umsóknir um styrki frá átta sveitarfélögum að fjárhæð rúmlega 457 milljónir króna. Fram kemur á vef stjórnarráðsins að á sex fundum samþykkti stjórn Fiskeldissjóðs umsóknir um alls 299,5 milljónir króna, en þar sem ráðstöfunarfé sjóðsins er lægra en sú fjárhæð voru styrkfjárhæðir skertar hlutfallslega í samræmi við forgangsröðun stjórnar.

Hlutu því níu verkefni styrki úr sjóðnum. Um er að ræða átta verkefni á Vestfjörðum sem fengu 152,7 milljónir króna eða 82% af úthlutun Fiskeldissjóðs. Eitt verkefni á Austfjörðum hlaut 32,4 milljónir króna.

Á síðasta ári fengu fimm verkefni samtals 104,9 milljónir króna. Þar af þrjú verkefni á Vestfjörðum sem hlutu 70,6 milljónir króna eða 67% af úthlutuðum styrkjum. Verkefnin tvö á Austfjörðum fengu 34,3 milljónir króna á síðasta ári.

Hefur sætt gagnrýni

Vestfirðir hafa því hlotið rúmar 223 milljónir úr sjóðnum til þessa eða 77% af öllu því sem úthlutað hefur verið. Sjókvíaeldi á Austfjörðum og Vestfjörðum framleiddi á árunum 2020 og 2021 samtals rúm 77 þúsund tonn, þar af voru um 64% framleidd á Vestfjörðum.

Sjóðnum ber að leggja faglegt mat á umsóknir og verkefni og forgangsraða þeim í samræmi við hlutverk sjóðsins og áherslur stjórnar hverju sinni. Áherslurnar í ár voru styrkari samfélagsgerð með tilliti til menntunar, menningar og íbúaþróunar, uppbygging innviða, loftslagsmarkmið og umhverfisvernd, tenging við sjókvíaeldi með tilliti til hafna og aðstöðu í landi og að lokum nýsköpun.

Frá stofnun sjóðsins hefur fyrirkomulagið hlotið gagnrýni sumra stjórnmálamanna, sérstaklega í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Hafa þeir frekar óskað eftir beinni hlutdeild í innheimtu gjalds af starfsemi á sínu svæði í stað þess að þurfa að eiga í samkeppni við önnur sveitarfélög. Haft var eftir Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, í Morgunblaðinu í mars að sveitarfélögin ættu að hafa meiri áhrif á það í hvað fjármunirnir fara. „Mér finnst galið að það verkefni sé í höndum þriggja manna nefndar fyrir sunnan,“ sagði hún.

Úthlutun 2022
» Bygging miðlunartanks fyrir vatnsveitu í Bolungarvík: 33,4 milljónir.
» Endurnýjun vatnslagna í Staðardal: 33,4 milljónir.
» Frágangur lóðar undir nemendagarð Háskólaseturs á Ísafirði: 16 milljónir.
» Fráveituframkvæmdir í Djúpavogi: 32,4 milljónir.
» Smitvarnir í Súðavíkurhöfn: 4,1 milljón.
» Hafnarsvæði Tálknafjarðarhrepps: 28,8 milljónir.
» Áhaldahús og slökkvistöð á Bíldudal: 22,6 milljónir.
» Bætt vatnsöryggi í Vesturbyggð: 4,1 milljón.
» Gerð gangstétta á Patreksfirði: 10,3 milljónir.