Í eldhúsinu Þráinn Freyr Vigfússon matreiðslumaður í kjallaranum.
Í eldhúsinu Þráinn Freyr Vigfússon matreiðslumaður í kjallaranum. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fyrir rúmlega fjórum árum opnaði Þráinn Freyr Vigfússon matreiðslumeistari „speak easy“ veitingastaðinn ÓX inn af Sumac, sem hann hafði þá átt og rekið í tæplega ár, á Laugavegi 28 í Reykjavík.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrir rúmlega fjórum árum opnaði Þráinn Freyr Vigfússon matreiðslumeistari „speak easy“ veitingastaðinn ÓX inn af Sumac, sem hann hafði þá átt og rekið í tæplega ár, á Laugavegi 28 í Reykjavík. Báðir staðirnir hafa slegið í gegn. Til að koma til móts við viðskiptavini ætlar Þráinn að flytja ÓX í stærra húsnæði í kjallara bakhúss á Laugavegi 55 síðsumars og opna þar sérstakan kokteilbar. Enn fremur stendur til að opna annan veitingastað á efri hæðinni síðar, stækka Sumac í framhaldi af flutningunum og bjóða þar upp á aðstöðu í einkaherbergi.

ÓX er lítill og nettur matstaður, þar sem 11 gestir, hópar eða einstaklingar, geta setið við borð í einkaherbergi með sérþjónustu. Setið er í L á háum barstólum við gamla eldhúsinnréttingu sem föðurafi Þráins smíðaði á sínum tíma og stóð uppi í Hlíðarholti í Staðarsveit. Fast verð er fyrir fjölrétta máltíð og drykki og er mikið lagt upp úr upplifuninni. „Ég keypti kjallarann á Laugavegi 55 til þess að bæta og útvíkka starfsemina og geta tekið við fleiri gestum,“ segir Þráinn. 16 gestir geta verið á ÓX á nýja staðnum og verður setið í U í venjulegum, þægilegum stólum. Innréttingin verður flutt þangað og höfð neðar en nú er, svo hæðin passi sem best við stólana.

Amma Don nýr kokteilbar

Samfara opnuninni á ÓX í kjallaranum tekur Þráinn „speak easy“ kokteilbarinn Ömmu Don í notkun í sama húsi. „Margrét Guðvinsdóttir, móðuramma mín, var fáguð eldri kona. Við barnabörnin byrjuðum á því að kalla hana ömmu Don og nafnið festist við hana,“ segir hann um nafn barsins. Hann verði innréttaður í takt við dæmigerða, íslenska stofu fyrir um 50 árum, stofu eins og hann upplifði hjá ömmu sinni og afa, þar sem mikið var lagt upp úr borðmunum og öðru. „Gestir fá á tilfinninguna að þeir séu að ganga inn í vel útbúna stofu en ekki bar,“ upplýsir Þráinn. „Speak easy“ vísi til bannáranna í Bandaríkjunum, þegar barir hafi verið faldir á bak við þvottahús, símaklefa og þess háttar og barinn sjáist ekki. Leó Snæfeld Pálsson, kokteilmeistari Sumac, sér um kokteilana. Mikið verður lagt í þá og vínlistann og Þráinn segir að komið verði með drykkina í þar til gerðum glösum á sérstökum vögnum. „Við verðum líka með garðskála, þar sem gestir geta setið umvafðir gróðri við arin, rétt eins og inni, en við Hálfdán Pedersen hönnum staðina.“

Þráinn leggur áherslu á að matargestir á ÓX upplifi mikla óvissuferð. Þeir komi að sérinngangi og eftir að hafa ýtt á bjöllu, þar sem á standi Amma Don, verði opnað fyrir þeim og þeim vísað á fyrsta viðkomustaðinn, þar sem þeir fái drykk og meðlæti. Eftir skamma stund verði opnaðar leynidyr og farið með þá inn á ÓX, einn og einn í senn. Þegar allir verði komnir inn, verði opnað fyrir aðra gesti á Ömmu Don með sama hætti og fyrr. Rými verður fyrir um 40 manns í stofunni. Búið er að steypa gólfið og reisa veggi en til stendur að opna staðina í ágúst.

Sumac og ÓX eru á meðal fjögurra veitingastaða í Reykjavík, sem Michelin mælir með. „Það er okkar mesta viðurkenning, en auk þess hefur Óx fengið Nordic Prize-verðlaunin, sem er helsta viðurkenningin á Norðurlöndum, og nýlega var Rúnar Pierre Henriveaux, yfirkokkur á ÓX, valinn kokkur ársins 2022.“