Björn Björnsson fæddist 4. desember 1933. Hann lést 1. maí 2022.

Útför Björns fór fram 30. maí 2022.

Tengdafaðir minn, hann Björn, var fágæt perla.

Fullur af kærleik og einstaklega bóngóður maður sem vildi öllum hjálpa og styðja.

Snilldarsmiður, listmálari og listamaður sem og tónlistarmaður. Fiskinn maður og aflakló.

Ótrúlega afkastamikill og fjölhæfur maður. Það er mikil gæfa að hafa fengið að kynnast honum og Margréti heitinni, tengdamóður minni, sem var einnig einstaklega yndisleg manneskja.

Eitt er það ljóð sem minnir mig á Bauta, enda endurspeglast í því hugur hans til samferðamanna á lífsins leið.

Líkna þeim sem líður neyð.

Leiðbein þeim sem villtur gengur.

Rétt þeim hönd sem hrösun beið.

Hjálpaðu öllum á þinni leið.

Þá mun verða gatan greið.

Gæfu hlotnast ljúfur fengur.

Líkna þeim sem líður neyð.

Leiðbein þeim sem villtur gengur.

Grættu aldrei gamlan mann.

Gakk þú ei á hlut hins snauða.

Segðu ætíð sannleikann.

Svertu aldrei náungann.

Láttu Drottins boð og bann

benda þér í lífi og dauða.

Grættu aldrei gamlan mann.

Gakk þú ei á hlut hins snauða.

(Höf: Aðalbjörg Jónsdóttir frá Helgastöðum)

Þótt skarðið sé stórt, skilja þau hjónin eftir sig samheldna fjölskyldu, sem endurspeglar mannkosti þeirra og kærleik.

Þau eiga öll mína samúð.

Þorsteinn Valur Baldvinsson.