Hringrás Umsvif fyrirtækisins aukast með flutningum í Hafnarfjörð.
Hringrás Umsvif fyrirtækisins aukast með flutningum í Hafnarfjörð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Kröfur um endurvinnslu og endurnýtingu eru alltaf að aukast og eiga eftir að aukast enn meira. Við erum að bregðast við því og á nýja staðnum verður aðstaðan til fyrirmyndar,“ segir Alexander G. Edvardsson, framkvæmdastjóri Hringrásar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Kröfur um endurvinnslu og endurnýtingu eru alltaf að aukast og eiga eftir að aukast enn meira. Við erum að bregðast við því og á nýja staðnum verður aðstaðan til fyrirmyndar,“ segir Alexander G. Edvardsson, framkvæmdastjóri Hringrásar.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær mun Hringrás flytja úr Sundahöfn. Faxaflóahafnir vilja annars konar starfsemi á svæðið og leigusamningur fyrirtækisins um lóðina að Klettagörðum 9 rennur út í lok næsta árs. Stefnan er tekin á Hafnarfjörð að sögn Alexanders en hann og fleiri keyptu Hringrás og sameinuðu HP gámum í byrjun síðasta árs.

„Við vissum þegar við keyptum félagið að það þyrfti að flytja starfsemina. Við keyptum mikið og stórt land á Álhellu 1 í Hafnarfirði, beint á móti álverinu. Þetta er 27 þúsund fermetra lóð og við sóttum um stækkun á henni upp á 23 þúsund fermetra. Allt í allt erum við því að fara frá tveimur hekturum í Sundahöfn á fimm hektara í Hafnarfirði,“ segir Alexander.

Hann segir að beðið sé eftir að vinna Hafnafjarðarbæjar við deiliskipulag á svæðinu klárist en Hringrás þurfi að flytja fyrir lok mars á næsta ári. Uppbyggingu á nýja svæðinu verði alls ekki lokið þá en hún muni taka nokkur ár. „Allt í allt er þetta fjárfesting upp á minnst þrjá milljarða króna,“ segir Alexander um flutninga Hringrásar. Það kosti sitt að malbika, steypa og vinna allskonar undirvinnu á fimm hekturum. Auk þess þurfi að setja upp olíugildrur og sandgildrur, byggja aðstöðu fyrir starfsmenn og sitthvað fleira. Þá verði þar brotajárnstætari af fullkomnustu gerð. „Nú er verið að smíða hann fyrir okkur og tilkoma tætarans verður aðalbreytingin fyrir okkur. Hann afkastar 80 þúsund tonnum á ári en til samanburðar fluttum við út 40 þúsund tonn á síðasta ári. Ég reikna með að fyrsta árið sem við notum tætarann fari í hann um 30 þúsund tonn. Ein svona græja kostar 7-800 milljónir króna.“

Framkvæmdastjórinn segir að mikið hafi verið lagt í að bæta ásýnd Hringrásar og breyta starfsemi fyrirtækisins til batnaðar. Nú séu til að mynda hjólbarðar fluttir út til endurvinnslu í stað þess að vera tættir og urðaðir í Álfsnesi eins og gert var á árum áður. Þannig voru 3.200 tonn af hjólbörðum send út til endurvinnslu árið 2021. „Hringrás er ekki sama fyrirtækið og það var fyrir 2-3 árum. Hér er mikil reynsla og þekking en við höfum verið að uppfæra okkur og bæta í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja sem þessa í dag,“ segir Alexander.