Ólöf Líndal Hjartardóttir fæddist á Akranesi 2. ágúst 1930. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða Akranesi 21. maí 2022.

Foreldrar Ólafar voru Ásta Sigurbjörg Sigfúsdóttir, f. 23. júní 1912, d. 13. júlí 1980, og Hjörtur Líndal Sigurðsson, f. 15. febrúar 1905, d. 15. júní 1988. Systur Ólafar eru Sigríður Hjartardóttir, f.26. október 1933, og Dóra Líndal Hjartardóttir, f. 9. ágúst 1953.

Eftirlifandi eiginmaður Ólafar er Kristján Ásgeirsson, f. 2. september 1926, þau eignuðust tvö börn, Ástu Rannveigu, f. 7. febrúar 1950, synir hennar eru Elías og Kristján Ólafssynir, Ásgeir, f. 26. maí 1951, giftur Jónínu Guðmundsdóttir og eru börn þeirra Guðmundur, Ólöf, Hrefna og Árni.

Barnabarnabörnin eru orðin 15.

Útförin fer frá Akraneskirkju í dag, 2. júní 2022, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Mig langar að minnast hennar Ólu ömmu minnar í fáum orðum. Ég bjó fyrsta ár ævinnar heima hjá ömmu og afa ásamt foreldrum mínum, á meðan framtíðarheimili fjölskyldunnar var í byggingu. Það mun áreiðanlega hafa haft sitt að segja um hve kært var milli okkar alla tíð. Seinna meir varði ég miklum tíma hjá ömmu á Stekkjarholtinu og átti mína vini þar, alveg eins og heima á Vesturgötunni. Afi var á sjó og seinna meir í vaktavinnu í Sementsverksmiðjunni og ömmu þótti þá gott að fá að hafa mig hjá sér. Amma var mjög kærleiksrík og hlý kona og fengum við barnabörnin alveg að vita það, hvað við vorum henni kær, eins og seinna meir barnabarnabörnin. Hafði hún það starf með höndum að passa börn um tíma og segir það mikið að þessi börn skuli enn hafa leitast við að halda sambandi við hana og afa áratugum seinna.

Ég man fyrst eftir mér heima hjá ömmu og afa á Stekkjarholti 18. Seinna meir fluttu þau á Garðabraut 8 og bjuggu þar um árabil. Undirritaður var nú ekki alveg sáttur við þau vistaskipti, þegar þau áttu sér stað, enda var Stekkjarholtið mér ansi kært. Frá Garðabraut fluttu þau svo á Sunnubrautina og bjuggu þar fyrir neðan Ásgeir son sinn og fjölskyldu hans. Þaðan var svo farið aftur á Garðabraut, nú á númer 20 og búið þar þangað til að þau fóru á Höfða, þegar þau mátu það svo að þeim væri best borgið þar. Var það mikið gæfuspor fyrir þau að fá inni á Höfða og kunnu þau afskaplega vel við að búa þar. Höfðu þau fyrir nokkru síðan flutt úr íbúð sinni, á meðan gerðar voru endurbætur á henni. Amma varð fyrir því að falla og slasast fyrir nokkrum vikum og síðan þá hrakaði henni jafnt og þétt þar til yfir lauk. Hún hafði látið þau orð falla að hún myndi líklega ekki lifa það að komast aftur í íbúðina þeirra.

Sambandið við ömmu og afa var alla tíð mjög sterkt, samskipti mjög tíð og samgangur mikill. Síðustu misseri hafa verið heldur erfið fyrir fólk í þeirra sporum. Covid-faraldurinn gerði það að verkum að samskipti urðu fátíðari nema þá í gegnum síma og hefur það e.t.v. haft sitt að segja um versnandi heilsufar. Þau báru sig samt alltaf vel og kvörtuðu ekki undan þessu hlutskipti sínu, á meðan á þessum faraldursskeiði stóð. Samband þeirra var sterkt og gott alveg til hins síðasta.

Amma var orðin södd lífdaga og kveður sína jarðvist sátt við guð og menn. Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir og ellin herti sín tök á henni jafnt og þétt. Slysið tók af henni mikinn toll og talaði amma um að endalokin væru innan seilingar. Hún sá til þess á fermingardegi sonar míns nú í vor, að vera uppábúin þegar við komum til þeirra á fermingardaginn, svo ég myndi ná góðri mynd af þeim með syni mínum. Hún hefur séð fram á að vera ekki miklu lengur með okkur og er þessi mynd mér mjög kær. Blessuð sé minning ömmu.

Elías H. Ólafsson.

Þá er ein af mínum dýrmætustu vinkonum farin. Ólöf amma var reyndar ekki amma mín, hún var dagmamma mín sem ég hef alltaf kallað ömmu. Það var heldur betur lífsins lukka að hafa fengið að vera barn hjá Ólöfu ömmu og Didda afa. Betra fólk er ekki hægt að finna og hvergi hefði verið betra að fá að verja dögunum á barnsaldri. Ég man ekki hvað Ólöf amma var lengi dagmamma mín en ég var mikið hjá þeim langt fram á táningsaldur. Hjá þeim tileinkaði ég mér mörg af mínum lífsins gildum og fjölda verkfæra sem hafa nýst mér vel á lífsleiðinni.

Ólöf amma var svo skemmtileg og kenndi mér svo margt. Við teiknuðum mikið og þegar hún sá framför hjá mér laumaði hún teikningunni í möppu sem hún síðan gaf mér á fullorðinsárum ásamt öllum þeim blaðaúrklippum þar sem ég eða einhver úr minni fjölskyldu kom fram. Þetta er virkilega dýrmæt mappa og er ég henni svo þakklát fyrir að hafa safnað þessu og varðveitt. Við amma spiluðum líka mikið og kenndi hún mér að leggja allskonar kapla, sem ég legg enn þann dag í dag (og börnin mín reyndar líka). Aldrei leyfði hún mér þó að vinna spil sem var pínu leiðinlegt þangað til ég vann hana einn daginn í Steliþjóf. Þeirri stund gleymi ég seint. Ég fann fyrir svo miklu stolti og valdeflingu, mér fannst ég geta sigrað heiminn á þeirri stundu.

Minn besti kennari og dýrmæta vinkona, takk fyrir allt!

Þín,

Guðrún Lára.

Ólöf Líndal Hjartardóttir vinkona mín er látin. Það er svo stutt síðan ég talaði við hana í síma og hún var svo glöð að Guðrún Lára mín kom í heimsókn til þeirra Kristjáns (Didda afa) á Höfða með Gullu sinni og Ara sem fæddist á Akranesi 17. janúar 2022.

Upphafið að okkar góða og kærleiksríka vinskap var haustið 1985, þegar við fjölskyldan fluttum á Akranes og stofnuðum Eðalsteininn. Þá var Guðrún Lára þriggja ára og okkur vantaði pössun fyrir hana. Ég fór á bæjarskrifstofurnar til að athuga með leikskólapláss en það var ekkert laust. Félagsráðgjafinn benti mér á að tala við Ólöfu, sem bjó í sömu blokk og við og athuga hvort hún gæti tekið hana í dagvistun. Ég kíkti til hennar um kvöldið og bar upp erindið. Hún bauð mér inn og við náðum strax svo vel saman. Þegar ég fór, eftir örugglega klukkutíma spjall, þá sagði hún að ég mætti koma með stelpuna og það kæmi í ljós hvort þær næðu saman eða ekki. Þetta var mikið gæfuspor fyrir okkur fjölskylduna. Guðrún Lára var eina barnið sem var í pössun. Á þeim tíma vann Kristján (Diddi afi) hjá Sementverksmiðjunni á vöktum og var oft heima þegar Guðrún Lára var í pössun, svo hún fékk ekki bara góða pössun, heldur eignaðist hún ömmu og afa á Akranesi.

Við Ólöf áttum svo gott og tryggt trúnaðarsamband alla tíð. Við gátum talað saman um alla hluti og skipti engu máli aldursmunurinn á okkur. Við töluðum til dæmis alltaf saman á jóladagsmorgun sem segir mikið um þráðinn sem var óslítanlegur á milli okkar. Það hefur verið erfitt að sjá vinkonu sína missa hægt og rólega heilsuna. Það sem henni þótti verst var þegar sjóninni hrakaði og hún gat ekki lengur sinnt handavinnu, hannað sína skartgripi og búið til þrívíddarkort fyrir öll tækifæri. Kortin og skartgripirnir báru vitni um hversu handlagin og listræn hún var. Elsku Diddi minn og fjölskylda, ég votta ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Takk fyrir góðan og tryggan vinskap í öll þessi dýrmætu ár.

Blessuð sé minning þín elsku Ólöf mín.

Þín vinkona,

Lára Árnadóttir.