Tónskáldið Richard Wagner.
Tónskáldið Richard Wagner.
Í tengslum við tónleika Barböru Hannigan í Hörpu á laugardag standa Richard Wagner-félagið á Íslandi, RWV International, Ars Musica og Listahátíð í Reykjavík fyrir Alþjóðlegum Wagnerdögum í Reykjavík, undir yfirskriftinni „Richard Wagner og Ísland...

Í tengslum við tónleika Barböru Hannigan í Hörpu á laugardag standa Richard Wagner-félagið á Íslandi, RWV International, Ars Musica og Listahátíð í Reykjavík fyrir Alþjóðlegum Wagnerdögum í Reykjavík, undir yfirskriftinni „Richard Wagner og Ísland – Norrænar fornsagnir og áhrif þeirra á Wagner“. Wagnerdagarnir hefjast formlega með tónleikum í Norðurljósum Hörpu í kvöld og standa til sunnudags.

Á tónleikum kvöldsins, sem hefjast kl. 20, koma fram Kammersveit Reykjavíkur, Hanna Dóra Sturludóttir söngkona og Martina Trumpp fiðluleikari. Flutt verða ýmis verk eftir Richard Wagner en þetta verðurí fyrsta sinn sem Kammersveit Reykjavíkur leikur tónlist eftir Wagner.

Laugardaginn 4. júní verður í Veröld, Húsi Vigdísar við Háskóla Íslands, haldið málþing undir yfirskriftinni „Richard Wagner og Ísland“. Milli kl. 9.30 og 11.30 fer málþingið fram á þýsku en milli kl. 13 og 15.30 á ensku. Á þýsku og ensku flytja erindi þau Selma Guðmundsdóttir píanóleikari og formaður RWV á Íslandi, Árni Björnsson og Þórhallur Eyþórsson. Danielle Buschinger flytur erindi sitt aðeins á þýsku og Árni Heimir Ingólfsson erindi sitt aðeins á ensku.

Sama dag kl. 17 stjórnar og syngur Barbara Hannigan með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg Hörpu. Nánari upplýsingar um efnisskrána má sjá í viðtali við Hannigan hér fyrir ofan.

Sunnudaginn 5. júní kl. 17 heldur Albert Mamriev píanótónleika í Salnum, þar sem hann leikur tvær Beethoven-sónötur og nokkrar umritanir Franz Liszt úr óperum Wagners. Mamriev er einn þeirra sem hlotið hefur styrk til að sækja heim óperuhátíðina í Bayreuth í Þýskalandi.