Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Eftir Einar Ingva Magnússon: "Guð er kærleikur og hann er það sem gefur lífinu gildi."

Margar mínar eftirminnilegustu hamingjustundir frá barnæsku voru við leik á nýskúruðu gólfinu heima, á meðan móðir mín var að þrífa og söng við húsverkin. Eða matarilmurinn úr eldhúsinu barst um húsið og við síðan sátum saman og borðuðum soðna ýsu með rófum og kartöflum og íslensku smjöri.

Hamingjustundirnar voru ekki fólgnar í sólarlandaferðum, fimm stjörnu hótelum eða rándýrum jóla- og afmælisgjöfum, heldur augnablikum hversdagslífsins, nærveru mömmu og pabba og hinum daglegu dýrðarstundum við matar- og kaffiborðið.

Ef við mennirnir vissum um hvað lífið snýst og hver tilgangur lífsins er myndum við lifa öðruvísi lífi og leggja áherslu á aðra hluti og kringumstæður. Við hefðum annað gildismat og vissum hver væru hin sönnu auðæfi mannlegrar tilveru.

Það er nautn í því og blessun að svala þorsta sínum með köldu íslensku vatni, að heyra þrastasöng á vorin og haustin, að finna sólarylinn á vanga eftir kaldan vetur. Faðmlag og innilegt bros eru hamingjuhátíðir hversdaganna, sem svo margir gefa lítinn gaum að og kunna ekki að njóta vegna þess að það er svo lítils virði í peningum talið.

Allt sem eitthvert raunverulegt gildi hefur fæst ekki fyrir peninga. Það lærir enginn með margra ára háskólagöngu eftir grunnskóla og framhaldsskóla, þar sem áhersla er lögð á að undirbúa nemendur fyrir hagkerfi siðmenningarinnar, þar sem frami og frægð eru mæld í peningum á stuttri ævi miðað við eilífð. Enda draga margir síðasta andardráttinn í örvæntingu í lok jarðvistar þegar að leiðarlokum er komið og haldið skal burt nakinn, allslaus eins og við komuna inn í hagkerfi heimsins, sem er einskis virði í andlegum og eilífum skilningi, því Guð er kærleikur (1. Jóh.br. 4:16) og hann er það sem gefur lífinu gildi og tilgang – og hann er að finna ríkulega í hamingju hversdagsins.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Höf.: Einar Ingva Magnússon