[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Áætlað er að tekjur frá Spotify nemi allt að 97% af heildartekjum vegna stafrænnar tónlistar á Íslandi.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Áætlað er að tekjur frá Spotify nemi allt að 97% af heildartekjum vegna stafrænnar tónlistar á Íslandi. Sala á tónlist með stafrænum hætti skilaði í fyrsta sinn yfir einum milljarði króna í tekjur á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri markaðsskýrslu Félags hljómplötuframleiðenda fyrir árið 2021.

Sala á stafrænni tónlist, eða einfaldlega streymi, skilaði rúmum einum milljarði í kassann að nafnvirði í fyrra og jókst um 7,7% á milli ára. Tekjur af streymi hafa aukist jafnt og þétt frá því Spotify kom til Íslands. Fyrsta heila starfsár tónlistarveitunnar hér var árið 2014.

„Heildarverðmætin eru að aukast sjöunda árið í röð. Það er mjög ánægjulegt,“ segir Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda, í samtali við Morgunblaðið.

Í skýrslunni er rakin sú grundvallarbreyting sem hefur orðið á tónlistarneyslu landsmanna á undanförnum árum. „Eftir nær stöðugan samdrátt í sölu eintaka hefur streymi á tónlist nær alveg tekið yfir og telur nú um 90% af þeim verðmætum sem skapast vegna einkaneyslu á hljóðritaðri tónlist. Það hlutfall er líkt því sem gerist á flestum vestrænum mörkuðum,“ segir í skýrslunni.

Spila þarf hvert lag í 30 sekúndur eða lengur til að það teljist sem eitt streymi. Í fyrra voru talin streymi hér á landi um 1,3 milljarðar. Mikill meirihluti, eða 95%, var frá áskrifendum Spotify. „Það jafngildir því að hver og einn greiðandi áskrifandi hafi streymt um 11.500 lögum. Sé tekið tillit til svokallaðra fjölskylduáskrifta er meðalstreymi hjá hverjum greiðandi notanda um 7.000 streymi árlega. Hér er einungis átt við tónlistarveitur en ekki YouTube eða samfélagsmiðla.“

Heildarsala á tónlist nam ríflega 1,1 milljarði króna á síðasta ári og hefur aldrei verið meiri að nafnvirði. Streymi á íslenskri tónlist skilaði 180 milljónum króna en streymi á erlendri tónlist 822 milljónum. Sala á íslenskum plötum skilaði 44 milljónum en sala á erlendum plötum 77 milljónum.

Sala á íslenskum geisladiskum og vínylplötum stóð heilt yfir í stað milli áranna 2020 og 2021. Aukning varð í sölu á vínyl en sala á geisladiskum stóð í stað.

Aftur á móti vekur athygli að sala á efnislegum eintökum á erlendum hljómplötum jókst um ríflega helming milli ára og er nú sambærileg að nafnvirði við söluna árið 2012. „Á undanförnum árum hefur orðið veruleg aukning í sölu erlendra vínylplatna en þær telja nú 85% verðmæta eintakasölu erlendrar tónlistar á Íslandi og 55% af allri sölu tónlistar á Íslandi á bæði CD og vínyl,“ segir í skýrslunni.

Eiður segir það afar ánægjulegt að vínyllinn haldi í við streymið. Þó svo heildartekjur af tónlistarsölu hafi aukist sé hlutfall streymis hið sama og verið hefur síðustu ár. Vínyllinn sé því enn á uppleið. „Þetta er sama þróun og í öðrum löndum,“ segir Eiður.

Samfara stöðugum vexti í heildarsölu vegna streymistekna hefur sala á íslenskri tónlist og hlutfall hennar af heildinni minnkað mikið á síðustu árum. Er nú svo komið að sala á íslenskri tónlist er aðeins 20% af heildarsölunni.

Rétt eins og árið 2020 naut tónlistarkonan Bríet mikilla vinsælda í fyrra. Hún átti vinsælasta lag ársins, Rólegur kúreki, og næstvinsælustu plötuna, Kveðja, Bríet. Vögguvísur Hafdísar Huldar var vinsælasta platan eins og 2020. Næstvinsælasta lag ársins var Ef ástin er hrein með Jóni Jónssyni og GDRN. Þriðja vinsælasta lagið var Spurningar með Birni og Páli Óskari. Bríet lagði svo Bubba Morthens lið í fjórða vinsælasta lagi ársins í fyrra, Ástrós.

Þegar aðeins er horft til geisladiska og vínylplatna kveður við örlítið annan tón og sennilega er kúnnahópurinn í eldri kantinum. Mest selda platan í þeim flokki er Mozart-plata Víkings Heiðars Ólafssonar. Í öðru sæti var plata Katrínar Halldóru með lögum Jóns Múla Árnasonar. Þar á eftir kom Kveðja Bríetar og Bubbi Morthens á svo fjórðu og fimmtu mest seldu plöturnar í þessum flokki.

Heimsmet

Eiður hjá Félagi hljómplötuframleiðenda kveðst telja að mögulega hafi vöxtur í streymi tónlistar náð toppi hér á landi. „Í Norður-Evrópu er nokkuð algengt að 20-25% þjóðarinnar greiði fyrir aðgang að tónlistarstreymi en hér á landi eru það yfir 30%. Þetta er gríðarlega hátt og sjálfsagt heimsmet. Þetta er í það minnsta langtum hærra en í Svíþjóð sem er vagga Spotify,“ segir hann.

Eiður segir að á Íslandi séu 105 þúsund áskrifendur að tónlistarstreymisveitum. Þar af séu um 5 þúsund með svokallaða duo-áskrift og 30 þúsund með fjölskylduáskrift. Meðaltalið að baki hverri fjölskylduáskrift eru þrír virkir hlustendur og tveir að baki hverri duo-áskrift. „Þar með erum við með 170 þúsund mjög virka greiðandi notendur hér á landi. Það er einhvers staðar í námunda við 50% af þjóðinni ef við undanskiljum ungbörn og háaldraða.“