Flugvöllur Flugstöðin er komin til ára sinna og orðin lúin að utan sem innan. Nú er unnið að viðgerð og er m.a. verið að skipta um þakplötur.
Flugvöllur Flugstöðin er komin til ára sinna og orðin lúin að utan sem innan. Nú er unnið að viðgerð og er m.a. verið að skipta um þakplötur. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fátt virðist því til fyrirstöðu að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli verði ákvörðun tekin um slíkt. Reykjavíkurborg veitti framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flugstöð 27. ágúst 2019.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fátt virðist því til fyrirstöðu að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli verði ákvörðun tekin um slíkt. Reykjavíkurborg veitti framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flugstöð 27. ágúst 2019.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, þáverandi formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, kvaðst í viðtali við RÚV af því tilefni vona að framkvæmdirnar gætu hafist á næstu vikum, sem reyndar gekk ekki eftir. „Mér líst mjög vel á þessa uppbyggingu. Ég held að það sé tími til kominn að bæta aðkomu að flugstöðinni og sérstaklega bæta aðgengi fyrir alla og aðgengi að strætó,“ sagði hún í viðtalinu.

Á undanförnum áratugum hafa í nokkur skipti verið uppi áform um nýrri og betri flugstöð fyrir innanlandsflugið en þau hafa ekki orðið að veruleika. Í samkomulagi ríkis og borgar frá 19. apríl 2013 er gert ráð fyrir því að endurbætt flugstöð tryggi samkeppni í flugstarfsemi og möguleika á að þjónusta fleiri en eitt flugfélag og að hún hýsi framvegis allt áætlunarflug.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu 26. maí sl. hefur undirbúningur nýrrar innanlandsflugstöðvar verið í vinnslu í tveimur ráðuneytum sl. tvö ár. Niðurstöðu er að vænta á næstunni.

BSÍ-reitur ekki heppilegur

Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra, skipaði árið 2017 verkefnahóp til að skoða heppilega staðsetningu fyrir nýja flugstöð. Hópurinn skilaði skýrslu í maí 2018 og kynnti þá niðurstöðu sína að samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum við Umferðarmiðstöðina væri áhugaverðasti kosturinn fyrir innanlandsflug. Isavia, Mannvit og flugrekendur fóru sameiginlega yfir tillögur um flugafgreiðslu í nýrri umferðarmiðstöð á nokkrum fundum. Niðurstaða þeirrar rýni var að þetta væri ekki heppilegur kostur af ýmsum ástæðum, m.a. vegna nálægðar við íbúðabyggð við Hlíðarenda.

Samhliða vinnu Isavia og Mannvits vann Air Iceland Connect (nú Icelandair) að áætlun um endurgerð og stækkun núverandi flugafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli. Reykjavíkurborg gaf út framkvæmdaleyfi fyrir breytingunum. Þessi kostur var talinn verulega ódýrari en að færa flugafgreiðsluna í Umferðarmiðstöðina og aðgengilegri í framkvæmd. Sótt var um leyfi til að gámaeiningar yrðu fjarlægðar, bygging dregin inn frá austri og stækkuð til norðurs, burðarvirki og byggingarhjúpur endurnýjaður, útliti breytt, innra skipulagi breytt og loftræsting og brunavarnir yrði endurnýjað.

Á árunum 2017 og 2018 var unnið að tillögu sem miðaði að því að núverandi bygging yrði betrumbætt og lagfærð. Aðaluppdrættir byggðir á tillögunni voru samþykktir sumarið 2018 af Reykjavíkurborg og framkvæmdaleyfi veitt.

Nánari ástandsskoðun samhliða verkhönnun leiddi hins vegar í ljós að núverandi flugstöð er í mun verra ástandi en talið var í upphafi og því nauðsynlegt að endurnýja bygginguna í meira mæli en áður var talið. Því var sótt um framkvæmdaleyfi á ný. Nú er gert ráð fyrir endurbyggingu burðarvirkis, hjúps og innra byrðis. Af því leiðir að ástand flugstöðvarinnar breytist og núverandi braggalag hverfur.

Umfang og eðli byggingarinnar verður óbreytt í öllum meginatriðum. Þó er gert ráð fyrir að gámaeiningar verði fjarlægðar og minnkar byggingin við norðausturhlið en stækkar til norðurs.

Byggingin verður aðallega á einni hæð en tæknirými á 2. hæð. Gert er ráð fyrir kaffistofu sem rúmar 100 manns og lítilli fríhöfn eins og nú er. Loftræsting verður bætt verulega frá því sem nú er. Flugstöðin er núna 1.306,5 fermetrar samkvæmt uppmælingu en verður 1.636 fermetrar eftir stækkun. Bygginguna má fjarlægja ef flugstarfsemi hættir í Vatnsmýrinni.

Samkvæmt framansögðu er vandséð að flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli verði þrætuepli í þeim meirihlutaviðræðum sem nú standa yfir í Reykjavík.