Björgunarbátur RS Hvaler hefur verið keyptur til Bolungarvíkur.
Björgunarbátur RS Hvaler hefur verið keyptur til Bolungarvíkur.
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík hefur gengið frá kaupum á nýjum björgunarbát sem afhentur verður um mitt sumar í Noregi. Báturinn mun verða nýr Kobbi Láka, en fyrirrennarinn sökk í höfninni í vonskuveðri 8.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík hefur gengið frá kaupum á nýjum björgunarbát sem afhentur verður um mitt sumar í Noregi. Báturinn mun verða nýr Kobbi Láka, en fyrirrennarinn sökk í höfninni í vonskuveðri 8. febrúar síðastliðinn.

Fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu Ernis að báturinn sem um ræðir ber nú nafnið RS Hvaler og er í eigu norsku sjóbjörgunarsamtakanna, Redningsselskapet. „Þessi bátur er mikið skref upp á við fyrir okkur og verður aukin viðbragðsgeta hér á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

RS Hvaler var smíðaður árið 2002 og er því fjórum árum yngri en báturinn sem sökk. Lengd bátsins er 12,8 metrar og er hann sagður útbúinn öflugum búnaði.

Þá eru um borð tvær Yanmar-vélar og er báturinn drifinn áfram með þotuskrúfu. Ganghraði bátsins er vel yfir 30 sjómílur á klukkustund. Einnig er báturinn útbúinn góðum slökkvibúnaði.