Lukkulegur Sigurjón Bjarni Bjarnason hampar urriða sem þeir þrír feðgar veiddu í opnun í Mývatnssveit en þeir fengu 90 silunga á tvær stangir.
Lukkulegur Sigurjón Bjarni Bjarnason hampar urriða sem þeir þrír feðgar veiddu í opnun í Mývatnssveit en þeir fengu 90 silunga á tvær stangir. — Ljósmynd/Hafþór Bjarni Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Laxveiðitímabilið hófst í gærmorgun en eins og undanfarin ár hófst veiðin við Urriðafoss í Þjórsá. Aðeins sjö mínútum eftir að Stefán Sigurðsson, leigutaki svæðisins, renndi fyrsta maðkinum í strauminn á veiðistaðnum Huldu tók fyrsti laxinn. Harpa Hlín Þórðardóttir, eiginkona Stefáns, myndaði viðureignina og þegar Stefán sonur þeirra háfaði fiskinn.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Laxveiðitímabilið hófst í gærmorgun en eins og undanfarin ár hófst veiðin við Urriðafoss í Þjórsá. Aðeins sjö mínútum eftir að Stefán Sigurðsson, leigutaki svæðisins, renndi fyrsta maðkinum í strauminn á veiðistaðnum Huldu tók fyrsti laxinn. Harpa Hlín Þórðardóttir, eiginkona Stefáns, myndaði viðureignina og þegar Stefán sonur þeirra háfaði fiskinn.

„Þetta fór já mjög vel af stað,“ sagði Harpa Hlín í hádeginu en fyrsta vaktin gaf 15 laxa. Allt laxa sem hafa verið tvö ár í sjó og sá stærsti 86 cm. „Þetta er betri byrjun en í fyrra og fiskurinn er mjög vel haldinn. Svo vekur athygli að meirihlutinn er hængar. Spekingarnir segja að hrygnurnar gangi fyrst í árnar og þær kunna því að vera þegar gengnar upp,“ sagði hún.

Gangi sú kenning eftir þá kann það að vera ávísun á góða veiði í sumar og Harpa vill trúa því. „Við spyrjum að leikslokum en þetta byrjar samt mjög vel.“

Harpa sagði veiðisvæðið við Urriðafoss hafa fest sig vel í sessi meðal stangveiðimanna og sé nánast hver veiðidagur fram í miðjan júlí seldur. Þá eru þau Stefán heldur betur að auka umsvif sín á Suðurlandi því þau eru nýir leigutakar Ytri-Rangár þar sem veiðin hefst 20. júní.

„Það er mjög spennandi að sjá hvernig Ytri-Rangá fer af stað,“ sagði hún. „Bændur telja mjög líklegt að það verði mjög gott veiðiár þar en sjáum til hvað verður.“

Norðurá í Borgarfirði en næsta laxveiðiá sem veiðimenn taka að kasta flugum sínum í en veiðin hefst þar á laugardag. Á sunnudag byrjar veiðin svo í Blöndu, á þriðjudag í næstu viku, 7. júní, í Þverá í Borgarfirði og tveimur dögum seinna á efri hluta vatnasvæðisins, í Kjarrá. Um og upp úr miðjum mánuði er svo hrina opnana, að vanda, en þá hefst veiðin í mörgum ám á Norðurlandi. Í Elliðaánum byrjar laxveiðin 20. júní. Eins og undanfarin ár verður öflug fréttaþjónusta fyrir veiðiáhugamenn í Sporðaköstum á Mbl.is.

Feðgar með níutíu silunga

Veiðin fór vægast sagt vel í gang á urriðasvæðum Laxár í Mývatnssveit en hún hófst fyrir þremur dögum og lauk fyrsta hollið veiðum í gær. „Þetta er besta opnun sem ég man eftir,“ segir Bjarni Júlíusson, einn veiðimannanna, en hann hefur verið í opnunarhollinu í tólf ár. „Og ég held að þetta sé besta opnun á svæðinu um áratugaskeið,“ bætir hann við.

Bjarni segir að fyrir hádegi í gær hafi um 450 fiskar verið færðir til bókar á stangirnar 14 og hann grunar að alls hafi veiðist um 470 silungar. Í hollinu séu afar færir veiðimenn, segir hann, en þeir hafi ekki lent í svona góðri veiði. „Besta veiði hollsins fram að þessu var yfir 300 fiskar.

Við feðgar veiddum á tvær stangir og vorum með 90 fiska, auk þeirra sem við vorum að setja í og missa eins og gengur og gerist. Þetta var súrrealískt – og bongóblíða. Neðri svæðin, Hamar og Brettingsstaðir, voru rólegri en efri svæðin. En Hamarinn gaf samt 68 cm urriða.“

Og Bjarni rifjar upp: „Fyrsta morguninn drógum við Helluvaðið og lönduðum þar 22 fiskum. Þeir sem áttu Skurðinn þennan fyrsta morgun fengu 60! Það dregur nú alltaf úr veiðinni eftir fyrstu vakt en við héldum áfram að veiða vel: Við áttum svaka dag í Geldingaey, og flottan dag í Hofsstaðaey. Þar fann ég blett sem ég hafði ekki vitað af áður og er um tveir fermetrar að stærð; í tvo klukkutíma stóð ég og kastaði á hann, þegar kastið var rétt þá setti ég í fisk. Ég setti í 15 en landaði ekki nema helmingnum,“ segir hann og hlær.

„Urriðinn er rosalega vel haldinn, alveg hnöttóttur,“ segir Bjarni svo. En eitt af því sem kom á óvart, og er áhyggjuefni, er hvað mikið veiddist af bleikju í ánni og hann grunar að það tengist fréttum um mýleysi í Mývatni. „Það er eitthvað skrýtið að gerast í vatninu og sennilega er fæðuskortur, því aldrei á mínum árum við ána hef ég séð jafn mikið af bleikju. Í venjulegum opnunartúr hafa slæðst upp tvær til fjórar. Einn veiðimaður sem átti nú Brunnhellishróf landaði þar 18 fiskum og það voru allt bleikjur. Þar nærri fengum við svo þrjár bleikjur á fimm mínútum í gær og hættum, því það er ekki skemmtilegt. Bleikjan er mjóslegin og soltin. Sennilega er bleikjan að flýja fæðuskort í vatninu, elta mögulega æti niður í ána en hefur sig svo ekki aftur upp strauminn.“