Hermann Einarsson fæddist á Ljósalandi í Vopnafirði 17. mars 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 24. maí 2022.

Foreldrar hans voru Einar Sveinbjörnsson bóndi, f. 4. janúar 1899, d. 9. maí 1980, og Kristrún Guðbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 30. nóvember 1897, d. 23. júlí 1990, frá Hámundarstöðum í Vopnafirði. Systkini Hermanns: Una Guðrún, f. 18. ágúst 1930, d. 28. maí 2003; María Guðbjörg, f. 30. maí 1932, d. 28. október 1945; Guðmunda Þórhildur, f. 27. desember 1937; Eva Sveinbjörg, f. 17. maí 1939, d. 5. janúar 2013.

Eiginkona Hermanns var Lára Runólfsdóttir, f. 8. júlí 1934, d. 15. ágúst 2021, þau gengu í hjónaband 19. júlí 1957. Foreldrar hennar voru Runólfur Guðmundsson, bóndi og póstur, f. 21. janúar 1898, d. 4. janúar 1989, og Guðrún Jónsdóttir, f. 18. maí 1899, d. 11. mars 1992.

Börn þeirra eru: 1) G. Eyrún, f. 22. nóvember 1957, maki hennar var Kolbeinn Hjálmarsson, d. 25. október 2017. 2) Rúnar Halldór, f. 16. júní 1959, maki Guðrún Ína Einarsdóttir. 3) Hulda Kristín, f. 11. desember 1963, maki Svanur Kristinsson. 4) Hugrún Ósk, f. 2. febrúar 1973, maki Ottó Biering Ottósson. Barnabörnin eru 11 talsins og barnabarnabörnin 15.

Hermann stundaði hefðbundið barnaskólanám eins og tíðkaðist á þeim tíma og var tvo vetur í Alþýðuskóla Þingeyinga á Laugum í Reykjadal á árunum 1947 til 1949. Hermann sótti vertíð í Vestmannaeyjum og var einnig í byggingarvinnu í Reykjavík á sínum yngri árum.

Hermann og Lára hófu búskap á Hámundarstöðum árið 1957 í félagi við foreldra Hermanns, en brugðu búi árið 1975 er þau fluttu til Akureyrar. Samhliða búskapnum starfaði hann sem vörubílstjóri, í vegavinnu og við símalínueftirlit þar sem hann sá um minniháttar viðgerðir. Hermann tók einnig að sér að vera prófdómari við skólasundkennslu og greip í aðstoð við löggæslustörf á Vopnafirði þegar á þurfti að halda. Eftir að Hermann og Lára fluttu til Akureyrar starfaði hann sem vörubílstjóri hjá Möl og sandi, auk þess að starfa við hellu- og rörasteypu hjá sama fyrirtæki sem og einstaka smíðavinnu. Um tveggja ára skeið starfaði hann hjá DNG Handfæravindum.

Hermann hafði gaman af söng og var í Karlakór Akureyrar/Geysi í rúma þrjá áratugi. Hann hafði yndi af ferðalögum og var einn af stofnendum Húsbílafélagsins Flakkara og ferðaðist víða um há- og láglendi Íslands á húsbíl í góðra vina hópi.

Útför Hermanns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júní 2022, kl. 13. Jarðsett verður í kirkjugarðinum á Naustahöfða á Akureyri. Athöfninni verður streymt á facebooksíðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Við leiðarlok er mér ljúft að setja nokkrar línur á blað um elsku pabba. Nú er hann kominn í sumarlandið til mömmu, en það eru ekki nema níu mánuðir síðan hún kvaddi.

Við höfum átt langa samleið, en hugurinn reikar til æskuáranna austur í Vopnafirði þegar þið mamma voruð bændur á Hámundarstöðum.

Vinnusemin og eljan við öll verk var mikil og það lék allt í höndum hans, sama hvað þurfti að gera. Það var ekki í boði að fá einhverja aðra til að gera verkin heldur björguðu menn sér sjálfir. Sem litlum dreng fannst mér pabbi geta allt.

Mér var líka sýnt traust og leyft að vasast í ýmsu með honum og hefur sá lærdómur nýst mér vel síðar meir.

Ég var ekki nema níu ára þegar pabbi treysti mér til að keyra bíla og dráttarvél á túnunum heima, sem myndi nú ekki vera leyft í dag, og jafnvel talið hættulegt, en svona voru tímarnir þá og það þurfti að nýta allan starfskraft á bænum þegar vel viðraði.

Pabbi fékkst við ýmis störf meðfram búskapnum, svo sem prófdómari í sundi, enda mikill sundmaður sjálfur og fór daglega í sund fram undir níræðisaldur. Löggæslustörfum sinnti hann fyrir sveitarfélagið þegar vantaði og keyrði vörubíl og var í vegavinnu í hjáverkum.

Eftir að mamma og pabbi brugðu búi og fluttu til Akureyrar árið 1975 urðu ferðalög um landið stór hluti af lífi þeirra. Pabbi og mamma keyptu bíl sem hann breytti í húsbíl og ferðuðust þau um á honum í mörg ár, en síðar keyptu þau nýrri bíl með öllu tilheyrandi. Þau ferðuðust bæði ein og sér og líka sem félagar í húsbílafélaginu Flökkurum. Það eru fáir staðir hér innanlands sem þau hafa ekki heimsótt og kom maður ekki að tómum kofunum þegar spurt var um hina og þessa staði landsins.

Pabbi hafði unun af söng og var félagi í Karlakór Akureyrar í áratugi.

Hann hélt andlegri heilsu fram á síðasta dag og áttum við feðgar gott spjall daglega og skipti þá engu um hvað við ræddum; fjölskylduna, veðrið, íþróttir, eða önnur landsins mál, alltaf var pabbi með á nótunum og fylgdist mjög vel með öllu sínu fólki.

Ég þakka þér pabbi minn fyrir samveruna og allt sem þú hefur kennt mér og gert fyrir mig og fjölskyldu mína í gegnum tíðina. Þín verður sárt saknað.

Þinn sonur,

Rúnar.

Að minnast hins góða og tala fallega um Hermann afa reynist átakalaust fyrir okkur bræðurna. Afi var stórmerkilegur, fróður, víðförull og ástkær. Skortur á augljósum annmörkum leiddi til barnslegra ýkja um kosti afa, s.s. ratvísina. Í dag er þó ljóst að aldrei var um ýkjur að ræða. Afi gat nefnt hvern skurð og smásteinn á landinu, enda ferðalög mikil ástríða þeirra hjóna. Ratvísin hefur ekki skilað sér til okkar enn. Við höfum þó 66 ár til að jafna. Afi var sérstaklega handlaginn maður sem kom sér vel fyrir ástvini hans. Í smiðjunni voru t.d. smíðuð jólatré, hattar, pípur, leikmyndir og kassabílar. Afi efaðist aldrei um að geta uppfyllt ósk okkar.

Í seinni tíð lögðu afastrákarnir kapp við að a.m.k. einn okkar færi með honum austur hvert sumar. Afi varð aldrei gamall þótt aldurinn færðist yfir. Þrátt fyrir það yngdist hann um leið og rennt var af stað. Í ferðinni var hlustað á kórsöng og farið yfir staðhætti fyrri tíma, hver þúfa tekin fyrir. Er austur var komið, varð ljóst að Hermann frá Hámundarstöðum var kominn heim. Vegfarendur höfðu orð á honum sín á milli, og austfirskir pottbúar töluðu fallega um hann, ómeðvitaðir um aukaeyrun sem fylgdu í svona ferðum. Landið og fólkið hafði ekki gleymt honum, og það var gagnkvæmt. Svo minnugur var afi, að honum sárnaði ákaflega ef hann gat ekki rifjað upp eftirnöfn gamalla sveitunga sinna, 93 ára að aldri. Okkur strákunum hefur fundist nóg að reyna rifja upp skírnarnöfn á okkar eigin sveitungum, nú 27 ára gamlir. Þó virðist hafa vantað lykilkafla í sögustundirnar, þegar horft er til baka. Afi sagði okkur aldrei að á skólabekk á Laugum hefðu drengirnir lagt stund á box, og allra síst að hann hafði sjaldan tapað slíkri glímu. Afi sagði okkur vissulega að hann hefði gengið á Súlur, en virtist ekki skilja það aukna vægi sem fylgdi því að hann hafði síðast gert það á 70 ára afmæli sínu.

Hæfileikar afa til söngs, og hógværðin, virðast ekki hafa skilað sér í þennan legg. Aðrir kostir skiluðu sér þó, t.d. ánægja yfir sögum. Afi hafði sýnilega unun af að segja frá liðnum tímum, var sjálfur víðlesinn og frásagnir hans báru þessu merki að víkja ekki frá upprunalegu handriti. Ef hann varð var við áhuga okkar drengjanna, hvatti hann til frekari lesturs úr bókahillunni, sem var drjúg. Nú þegar við kveðjum afa, verðum við að viðurkenna að okkur þótti nafnið Hermann, sem þýðir víst herskár maður eða hermaður, aldrei lýsa honum nógu vel, jafn ljúfur og hann var. Við ætlum því að gefa okkur að foreldrar hans hafi verið skrefi á undan, og dregið nafnið af germanska stofninum herr, sem þýðir gráhærður og notað sem tignaryrði, samanber orðið herra.

Við kveðjum þig þá afi, þú tignarlegi, gráhærði og góði maður.

Þínir afastrákar,

Hafsteinn, Haukur og Hinrik.