Landsliðið Byrjunarlið Íslands stillir sér upp fyrir síðasta leik, vináttuleikinn gegn Spánverjum í lok mars. Í kvöld er leikið gegn Ísrael í Haifa.
Landsliðið Byrjunarlið Íslands stillir sér upp fyrir síðasta leik, vináttuleikinn gegn Spánverjum í lok mars. Í kvöld er leikið gegn Ísrael í Haifa. — AFP/Javier Soriano
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Ísrael og Ísland mætast í fyrsta skipti í mótsleik A-landsliða karla í fótbolta í kvöld þegar liðin eigast við í ísraelsku hafnarborginni Haifa.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísrael og Ísland mætast í fyrsta skipti í mótsleik A-landsliða karla í fótbolta í kvöld þegar liðin eigast við í ísraelsku hafnarborginni Haifa.

Þetta er fyrsti leikur beggja liða í B-deild Þjóðardeildar UEFA en Albanía er þriðja liðið í riðlinum. Það fjórða var lið Rússlands, sem hefur verið rekið úr keppni og fellt niður í C-deild Þjóðadeildarinnar.

Ísland, Ísrael og Albanía leika því tvöfalda umferð sín á milli um eitt sæti í A-deildinni og fara þrír leikja íslenska liðsins, tveir gegn Ísrael og einn gegn Albaníu, fram á næstu ellefu dögum.

Tólf ár eru liðin síðan Ísland og Ísrael mættust síðast og þjóðirnar hafa aðeins leikið þrjá vináttuleiki sín á milli. Tveir þeirra fóru fram árið 1992 og sá fyrri í Tel Aviv þar sem liðin skildu jöfn, 2:2. Bræðurnir Sigurður og Arnar Grétarssynir komu þar Íslandi tvisvar yfir í leiknum.

Ísrael vann hinsvegar 2:0 þegar liðin mættust aftur á Laugardalsvellinum fjórum mánuðum síðar.

Alfreð og Kolbeinn skoruðu

Þriðji leikurinn fór síðan fram í Tel Aviv í nóvember 2010. Ísrael komst í 3:0 eftir 27 mínútna leik en Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu á síðustu tíu mínútum leiksins og engu munaði að Kolbeinn næði að jafna metin í lokin.

Ísrael hefur tilheyrt UEFA frá árinu 1991 en landinu var vísað úr öllum mótum í Asíu árið 1974 þar sem meirihluti þjóða í álfunni neitaði að mæta Ísrael af pólitískum ástæðum. Ísrael komst í lokakeppni HM árið 1970 sem fulltrúi Asíu og Eyjaálfu en hefur ekki komist á HM eða EM frá þeim tíma.

Stór hluti ísraelska liðsins í dag leikur með félagsliðum í heimalandinu. Fyrirliðinn og langleikjahæsti leikmaðurinn, Bibras Natkho, leikur með Partizan Belgrad í Serbíu og aðalmarkaskorarinn, Munas Dabbur, sem hefur skorað 15 mörk í 37 landsleikjum, leikur með Hoffenheim í Þýskalandi.

Ísrael er í dag í 76. sæti á heimslista FIFA en Ísland er í 63. sæti. Innan UEFA er Ísland í 32. sæti af 55 þjóðum en Ísrael í 37. sæti.

Í undankeppni HM í Katar á síðasta ári endaði Ísrael í þriðja sæti í sínum riðli, á eftir Danmörku og Skotlandi en á undan Austurríki, Færeyjum og Moldóvu. Liðið fékk 10 af 16 stigum á heimavelli, vann þar Austurríki 5:2, Færeyjar 3:2 og Moldóvu 2:1, og gerði jafntefli við Skota 1:1. Ísrael tapaði báðum leikjunum við Dani, 0:2 heima og 0:5 í Danmörku og einnig 2:4 í Austurríki og 2:3 í Skotlandi, en vann Færeyjar 4:0 og Moldóvu 4:1 í útileikjunum.

Ísrael spilaði tvo vináttuleiki í mars, tapaði 2:0 fyrir Þýskalandi á útivelli en gerði jafntefli, 2:2, við Rúmeníu á heimavelli.