Ómar Ingi Magnússon
Ómar Ingi Magnússon — Morgunblaðið/Eggert
Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, er tilnefndur í kjörinu á besta leikmanni þýsku 1. deildarinnar, sterkustu deildar heims, í maímánuði en gefið var út í gær hvaða sjö leikmenn kæmu til greina.

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, er tilnefndur í kjörinu á besta leikmanni þýsku 1. deildarinnar, sterkustu deildar heims, í maímánuði en gefið var út í gær hvaða sjö leikmenn kæmu til greina.

Ómar hefur átt frábært tímabil með Magdeburg og hann er sem stendur næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Magdeburg getur tryggt sér þýska meistaratitilinn í kvöld en liðinu nægir jafntefli á heimavelli gegn Balingen til að titillinn sé endanlega í höfn.

Hans Óttar Lindberg, hinn fertugi íslenskættaði hornamaður hjá Füchse Berlín, sem er markahæstur í deildinni, er einnig í hópi þeirra sjö sem eru tilnefndir í kjörinu, ásamt tveimur öðrum Dönum, Kevin Möller og Emil Jakobsen, sem báðir leika með Flensburg.

Norðmaðurinn Sander Sagosen hjá Kiel og Svíinn Jim Gottfridsson hjá Flensburg eru einnig tilnefndir og eini Þjóðverjinn í hópnum er Tim Zechel, leikmaður Erlangen.

vs@mbl.is