Pétur Sveinsson fæddist 8. janúar 1941. Hann lést 12. maí 2022.

Útför Péturs fór fram 27. maí 2022.

Þegar ég var barn þótti mér stundum einmanalegt að eiga bara eitt sett af ömmu og afa hér á landi (búsett fyrir vestan). Pétur og Badda móðursystir mín tóku ómeðvitað að sér þetta hlutverk hér í bænum, af einskærri ást og umhyggju. Við mæðgurnar fengum að fljóta með í fjölskylduboð og það var mér mikil gleði að eyða tíma með fjölskyldum þeirra á jólum og í öðrum veislum. Ég á þeim það að þakka að ég sem barn og táningur fékk að upplifa að vera hluti af stærri fjölskylduheild en ella, því þau tóku mig undir sinn væng á tíma sem ég þurfti sérstaklega á því að halda. Langt fram á táningsár héldu þau áfram að gefa mér afmælis- og jólagjafir og myndaðist hefð fyrir að þau gæfu mér teiknimyndabækurnar um Kaftein Ofurbrók. Úr því varð að ég eignaðist ekki einungis dágott safn af Ofurbrókarbókum heldur urðu Badda og Pétur þekkt sem amma og afi Ofurbrók okkar á milli. Ofurbrækurnar hugsuðu vel um þetta Ofurbrókar-barnabarn sitt og þótti mér ávallt ljúft að heimsækja þau. Hjá þeim var ég alltaf velkomin - ekki nóg með að þau væru æðislega skemmtilegir gestgjafar heldur hafði Pétur alltaf frá einhverju áhugaverðu að segja.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fara nokkrum sinnum samferða þeim vestur og í öll skiptin var það dásemdin ein fyrir söguþyrsta manneskju eins og mig að fá að hlusta á Pétur, sem þekkti alla ábúendur alls staðar, hverja þúfu og hvert atvik. Hann sagði svo listilega frá sögu sveitanna að ég sé nú eftir að hafa ekki haft upptökutæki við höndina. Eftirminnilegt er eitt skipti þegar Pétur og pabbi urðu eftir í öðrum bílnum á meðan við frænkurnar skutumst á næsta bæ á Barðaströndinni eftir nýju dekki, eftir að sprungið hafði bæði á dekki og varadekki. Aðrir ferðalangar sem urðu á vegi okkar höfðu orð á því að hafa áhyggjur af „tveimur gömlum konum“ sem sést höfðu sitja í bíl við vegkantinn á leiðinni, en þar voru það þeir félagar sem höfðu vafið um sig hvor sínu teppinu á meðan þeir biðu. Að þessu var mikið hlegið, en það fór eflaust ágætlega um þá, enda fínir félagar og gátu alltaf fundið eitthvað að ræða um.

Þegar ég hitti Pétur síðast á Landakoti var hann hress eftir atvikum og sagði okkur mæðgunum hverja söguna á fætur annarri. Frásagnargleðin skein úr augum og mér fannst eins og allt væri samt við sig, þótt sjúkrahúsumgjörðin segði annað. Pétur var líka samkvæmur sjálfum sér, ávallt fljótur að grafa upp tengingar við fólk sem hann hitti. Ekki leið því á löngu áður en hann og hjúkrunarfræðingurinn á vakt voru búin að rekja hvaða einstaklinga þau þekktu sameiginlega, enda maðurinn með eindæmum mannglöggur og vinmargur.

Mér finnst enn ótrúlegt að afi Ofurbrók, þessi fasti í mínu lífi, sé ekki lengur hér í þessari jarðvist. Ég kveð hann með söknuði en fyrst og fremst þakklæti. Ég sendi minni dásamlegu móðursystur mínar innilegustu samúðarkveðjur sem og allri fjölskyldu og vinum. Ég enda þessa kveðju á orðum frá Pétri sjálfum, þeim góða dreng sem hann var: „Segðu alltaf sannleikann, annars kemur skömmin og bítur mann í rassinn.“

Miriam Petra

Ómarsdóttir Awad.