Hólmfríður Bjartmarsdóttir orti á þriðjudag og birti á Boðnarmiði: Undir ský má aðeins sjá undur sólarlagsins. Nú ætti ég að yrkja smá eftirmæli dagsins.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir orti á þriðjudag og birti á Boðnarmiði:

Undir ský má aðeins sjá

undur sólarlagsins.

Nú ætti ég að yrkja smá

eftirmæli dagsins.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir um skjálfta fyrir norðan:

Andskotinn með engri kurt

ólmast landið kringum,

er í bólum ekki kjurrt

undir Norðlendingum.

Hallmundur Kristinsson er á svipuðum slóðum:

Gjöful vistin gjarnan er.

Góðri lyst má flíka.

Verði gisting verðug mér

vil ég hristast líka.

Og Ingólfur Ómar Ármannsson:

Skjálftinn hrellir lýði lands

lotur gerast harðar.

Kölski er með darradans

djúpt í iðrum jarðar.

Jón Jens Kristjánsson yrkir „forgangslimru upp úr frétt á K100 mbl“:

Í sumum löndum bera konur búrkur

á brauð má leggja tómata og gúrkur

fann ég þetta helst

sem fréttaefni telst

að par eru orðin piparjúnka og skúrkur.

Ólafur Stefánsson skrifar: „Þegar allir eru búnir að gleyma Covid, þá geta menn notað pestina til blóra, ef þeir finna einhverja skerðingu á ilman, smekk eða tilfinningu, eins og það hét í gömlu Heilsufræðinni“:

Nú kenna menn Covid um allt:

að kvennalánið sé valt.

að heyri þeir illa

og stöð þurfi að stilla.

Heilræðavísa eftir Höskuld Búa Jónsson:

Blóðug sporin bleyta for

blæðir fugl í kjafti.

Glæðist vor við gæfuspor

að geyma kött í hafti.

Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri í Skagafirði leit yfir spegilsléttan Hrútafjörðinn þar sem Borðeyri speglaði sig í haffletinum:

Fuglasöngur, sólin hlý

sumarkomu varðar.

Og Borðeyri sig baðar í

blíðu Hrútafjarðar.

Þorgeir Magnússon um „hlýindi á Álftanesi“:

Hefur sérlegt háttarlag

hitinn fer í sextán stig.

Ætlar að gera góðan dag

guð og er að vanda sig.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is