Korpúlfsstaðavöllur Kylfingur býr sig undir að pútta á 12. flötinni.
Korpúlfsstaðavöllur Kylfingur býr sig undir að pútta á 12. flötinni. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Golfsamband Íslands birti áhugaverða færslu á vef sínum golf.is á þriðjudaginn þar sem finna má ýmsar upplýsingar um gjöld í golfklúbba, hvar biðlistar séu og hvort erfitt sé að komast á teig. Ekki er sjálfgefið að fá rástíma á golfvelli þegar kylfingi hentar best. Það þekkja klúbbmeðlimir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og gengur er meiri ásókn á vissum tímum dagsins og GSÍ bendir á að vel sé hægt að komast í golf á höfuðborgarsvæðinu á öðrum tímum. Einnig er þar átt við Reykjanesið og velli á Suðurlandinu.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Golfsamband Íslands birti áhugaverða færslu á vef sínum golf.is á þriðjudaginn þar sem finna má ýmsar upplýsingar um gjöld í golfklúbba, hvar biðlistar séu og hvort erfitt sé að komast á teig. Ekki er sjálfgefið að fá rástíma á golfvelli þegar kylfingi hentar best. Það þekkja klúbbmeðlimir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og gengur er meiri ásókn á vissum tímum dagsins og GSÍ bendir á að vel sé hægt að komast í golf á höfuðborgarsvæðinu á öðrum tímum. Einnig er þar átt við Reykjanesið og velli á Suðurlandinu.

„Mesta aðsóknin sýnist okkur vera á milli kl. 15 og 18. Sá tími er heitur og þá komast ekki allir að en á öðrum tímum frá átta á morgnana er vel hægt að finna rástíma,“ segir Brynjar Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, í samtali við blaðið.

Biðlistar eru eftir inngöngu í fimm golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu þetta sumarið. Eru það Oddur í Garðabæ, Keilir í Hafnarfirði, Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbur Reykjavíkur og Nesklúbburinn á Seltjarnarnesi.

Hreyfingar eru á biðlistum

„Við erum að benda á í þessari samantekt að pláss sé fyrir kylfinga á höfuðborgarsvæðinu í starfi klúbbanna þótt eitthvað sé um biðlista fyrir fulla aðild. Aðrar vörur eru í boði eins og takmörkuð aðild. Þá hefurðu takmarkaða aðild að vellinum en á móti hefurðu aðgang að einhverjum vinavöllum. Auk þess færðu forgjöf, ert inni í tölvukerfinu, getur pantað rástíma og fleira. Þessi takmarkaða aðild er í boði hjá flestum golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu og hún getur í mörgum tilfellum verið alveg fullnægjandi.“

Dæmi eru um að biðlistar séu hjá golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu ár eftir ár. En það komast alltaf einhverjir inn á hverju ári.

„Já, það verða alltaf einhverjar breytingar á þessum biðlistum yfir vetrartímann. Þeir sem eru á biðlista eru þá að bíða eftir fullri aðild að viðkomandi klúbbi. Á sama tíma geta þeir eins og áður segir komist í aðra þjónustu á svæðinu. Geta til dæmis greitt vallargjald til að komast á völlinn.

Hér má einnig nefna að kylfingar sem bíða eftir aðild að golfklúbbi sem þeir vilja helst vera í eru í einhverjum tilfellum í öðrum golfklúbbi á meðan. Vilja þá færa sig þegar þeir komast inn í klúbbinn þar sem þeir eru á biðlista,“ segir Brynjar.

Iðkendum fjölgar stöðugt

Vinsældir golfíþróttarinnar eru miklar og hreyfingin er fjölmenn hérlendis enda eru rúmlega 20 þúsund meðlimir í golfklúbbum landsins. Enn fleiri leika golf en eru ekki í klúbbi á hverju ári. Iðkendafjöldinn á Íslandi hefur aukist nánast árlega á þessari öld og jókst í fyrra um liðlega tvö þúsund.

„Við sjáum fjölgun ár eftir ár. Það hefur sýnt sig að okkur hefur gengið enn betur þegar illa árar í efnahagslífinu. Í heimsfaraldrinum minnir mig að fjölgunin hafi verið 11 og 14% á þeim tveimur árum. Þegar hagkerfið kólnar og fólk hefur meiri tíma til að líta upp úr því sem það er að fást við þá verður aukning hjá okkur í golfinu. Markaðsstarf klúbbanna hefur verið mjög gott og aðgengið að íþróttinni er orðið auðveldara en það var áður fyrr. Við erum orðin sýnilegri. Við þetta má bæta að golfhermarnir úti um allt land eiga þátt í aukningunni. Þeir urðu mun vinsælli í heimsfaraldrinum en þeir höfðu verið og með þeim getum við verið heilsársíþrótt,“ bendir Brynjar á.

Spurður um hvort vinsældir íþróttarinnar séu í takti við það sem gerist annars staðar í Evrópu segir Brynjar að svipuð þróun hafi orðið annars staðar á Norðurlöndum. Ísland sé þó ef til vill aðeins yfir meðallagi.