Þórólfur Guðnason
Þórólfur Guðnason
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Staðfest Covid-19-smit hér á landi voru í vikunni orðin 188.291 samkvæmt vefnum covid.is. Því hefur nákvæmlega helmingur þjóðarinnar greinst með smit. „Þetta eru þeir sem eru með staðfesta sýkingu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Staðfest Covid-19-smit hér á landi voru í vikunni orðin 188.291 samkvæmt vefnum covid.is. Því hefur nákvæmlega helmingur þjóðarinnar greinst með smit.

„Þetta eru þeir sem eru með staðfesta sýkingu. Það hafa töluvert fleiri sýkst en þessar tölur segja til um,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir að um 100 manns greinist nú á hverjum degi með Covid-19-smit. Líklega smitist fleiri og greini sig heima án þess að mæta í staðfestingarpróf eða tilkynna það sérstaklega. Sýkingin malli því í samfélaginu. „Það hefur náðst gott hjarðónæmi, annars værum við með útbreitt smit í samfélaginu,“ sagði Þórólfur.

Sýnatökur hafa verið um 1.000 á dag, bæði PCR-próf og hraðgreiningarpróf hjá einkafyrirtækjum. Fjöldi þeirra hefur verið nokkuð stöðugur frá degi til dags. Þar til viðbótar eru hraðpróf sem fólk kaupir sjálft. PCR-prófin gera kleift að raðgreina og fylgjast með veirunum sem eru að ganga. En verður þetta ástand áfram ríkjandi?

„Ég held að þetta verði svona áfram í einhvern tíma. Staðan á Landspítalanum er nokkuð góð. Í gær [fyrradag] voru inniliggjandi 8-9 manns með Covid. Þar af var einn með virkt smit. Fólk er enn að smitast en við erum ekki að sjá alvarleg veikindi að ráði,“ sagði Þórólfur.

Varðandi bólusetningar hefur verið hvatt til þess að 80 ára og eldri fái annan örvunarskammt og eins hefur verið haft samband við hjúkrunarheimili um að bólusetja heimilisfólk. Nú hafa um 20% fólks á aldrinum 80-90 ára fengið fjórða skammtinn.

Þórólfur telur að minni umræða hafi dregið úr þrýstingi á fólk að fara í bólusetningu. Hann segir að menn séu að ráða ráðum sínum varðandi haustið og stöðu bólusetninga þá. Það muni ráðast af þróun faraldursins, þeim afbrigðum veirunnar sem þá verða í gangi og því hvaða bóluefni verða framleidd.

„Við erum kannski í eins góðri stöðu og við getum verið, með útbreiddar bólusetningar og svo útbreiddar sýkingar ofan í það. En það er óljóst nú hversu lengi þessi vörn endist,“ sagði Þórólfur.