Halldór Jónsson fæddist í Reykjavík þann 3. nóvember 1937, hann lést að morgni þriðjudagsins 17. maí 2022.
Halldór var sonur Jóns Ólafs Bjarnason, f. 28. mars 1911 d. 11. febrúar 1981,  rafmagnsverkfræðings, forstjóra Rafmagnseftirlits ríkisins og Karenar Elísabetar Bjarnason fótaaðgerðarsérfræðings og húsfreyju, f. 6. febrúar 1913, d. 28. október 1990.
Jón var sonur Ágústs H. Bjarnason, 20.8. 1875-22.9. 1952, dr.phil., prófessors og rektors HÍ, en foreldrar Ágústs voru Hákon Bjarnason, 5.9. 1829-2.4. 1877, kaupmaður og stórútgerðarmaður á Bíldudal og Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir, 16.12. 1834-11.1. 1896, kvenskörungur. Systir Ágústs var fröken Ingibjörg H. Bjarnason, 1867-1941, alþingismaður, skólastjóri Kvennaskólans og formóðir Landspítalans.
Móðir Jóns var Sigríður Bjarnason, 18.4. 1883-26.3. 1971, dóttir Jóns Ólafssonar, 1850-1916, ritstjóra, alþingismanns, frumkvöðuls og skálds og konu hans Helgu Eiríksdóttur, 1860-1925.
Karen Elísabet var dóttir [Tryggva] Halldórs Skaptason, 20.10. 1880-25.6. 1960, aðalbókara Landssímans, og Hedvig Wathne Skaptason,16.8. 1890-21.11. 1965. Tryggvi Halldór var sonur [Bjarnar] Skapta Jósepssonar, 1839-1905, ritstjóra frá Hnausum og konu hans, Sigríðar Þorsteinsdóttur, 1841-1924, stofnanda kvennablaðsins Framsóknar árið 1895 á Seyðisfirði ásamt dóttur sinni [Önnu] Ingibjörgu, 1867-1945.
Faðir Sigríðar var síra Þorsteinn Pálsson á Hálsi, 1805-1873, prestur, læknir, alþingismaður, skáld, vefari og smiður en sömuleiðis aðal frumkvöðull að stofnun samtaka og verslunarfélaga sem leiddu til stofnunar kaupfélaganna. Móðir Sigríðar var Valgerður Jónsdóttir, 1808-1853.
Hedvig var dóttir Frederiks Ferdinands Wathne, 1852-1924, athafnamanns á Seyðisfirði og konu hans Elísabetar Þorsteinsdóttur Wathne, 1864-1942.
Eftirlifandi kona Halldórs er Steinunn Helga Sigurðardóttir, fædd á Akureyri 6.6. 1937. Foreldrar hennar voru Sigurður Kristinsson sjómaður, 6.8. 1915-23.12. 1996 og Ragnheiður Stephensen, 15.1. 1914-22.1. 1981, en Steinunn ólst upp hjá móðursystur sinni Áslaugu Stephensen, 23.4. 1895-30.10. 1981 og manni hennar Jóni Pálssyni dýralækni, 7.6. 1891-19.12. 1988, foreldrar hans voru Páll Þorsteinsson bóndi og hreppstjóri, 1863-1959 og Elínborg Stefánsdóttir, 1867-1951.
Foreldrar Ragnheiðar og Áslaugar voru síra Ólafur M. Stephensen prófastur, fæddur í Viðey 24.7.1863-10.3.1934, og Steinunn Eiríksdóttir Stephensen, fædd að Karlsskála 1.2.1870-1.3.1957, en  Steinunn þessi var systir Helgu Eiríksdóttur, sem var móðir Sigríðar föðurömmu Halldórs.
Börn Halldórs og Steinunnar Helgu eru:
1. Þorsteinn, 1960, fyrrv. maki Fanney Elín Ásgeirsdóttir, 1967-2012; börn: a. Helgi Pétur, 1987-2014, sonur hans og Camillu Thim, 1991, er a1. Arnar Breki, 2016; b. Ágúst Ólafur, 1990; c. Kristjana Ragnheiður, 1992, sambýlismaður Ingimar Alex Baldursson, 1985; d. Steinunn Ingibjörg, 1998.
2. Jón Ólafur, 1962, maki Guðrún Atladóttir, 1963; börn: a. Unnar Freyr, 1988, maki Guðrún Lilja Sigurðardóttir, 1989; börn: a1. Jón Frosti 2019; a2. Sigurður Frosti 2021; b. Sigríður Steinunn, 1992, maki Kjartan Þór Þórisson 1987; barn: b1. Margrét Elísabet 2021; c. Anna Karen, 1998.
3. Pétur Hákon, 1967, maki Eyja Guðrún Sigurjónsdóttir, 1967; börn: a. Jón Ágúst, 1987, maki Melkorka Hrund Albertsdóttir, 1987; börn: a1. Sara Lea, 2011, a2. Aron Hrafn, 2015; b. Halldór Ingi, 1993; c. Alexandra Frost, 2000; d. Karen Sól, 2008.
4. Karen Elísabet, 1974, fyrrv. maki Sigurður Örn Sigurðsson, 1971; börn: a. Júlía Vilborg, 2001, b. Elísa Helga, 2005.
Systkini Halldórs eru: 1. Ágúst, 25.4.1942-24.9.1942; 2. Sigríður Hedda, 1944, maður hennar er Þórarinn Benedikz, 1939, skógfræðingur; 3. Ólafur, 1947, viðskiptafræðingur, fyrri kona hans er Guðrún Þóra Guðmannsdóttir, 1950; núverandi kona hans er Ása Einarsdóttir, 1950, heilsunuddari.
Eftir stúdentspróf frá MR lá leið Halldórs til TH í Stuttgart og útskrifaðist þaðan sem verkfræðingur. Halldór var verkfræðingur hjá Almannavörnum ríkisins 1962-63, þá hóf hann störf á verkfræðistofu Bárðar Daníelssonar. Til Steypustöðvarinnar hf. réðst hann sem tæknilegur framkvæmdastjóri 1964, og síðan með stöðu forstjóra 1967 til 2003 sem meðeigandi og setu í stjórn.
Meðal ótal fyrirtækja sem Halldór hefur verið stofnandi að er helst að nefna Surtsey 1964, Aðalbraut sf. 1970, Steypustöð Suðurlands hf. 1971, Námuna hf. 1976 auk útibús frá Steypustöðinni hf. í Grindavík 1975 og bjórinnflutning með syni sínum 1989.
Halldór var handhafi atvinnu-, blindflugs- og kennsluréttinda í flugi  síðan 1978, en flugnám hóf hann 1952, handhafi  sprengjuréttinda frá 1990. Þá hefur hann verið fulltrúi í ráðgjafanefnd Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og í stjórn hennar og fulltrúi RB í steinsteypunefnd. Halldór var um lengri eða skemmri tíma í stjórn Verslunarráðs Íslands, Verktakasambands Íslands og Verkfræðingafélags Íslands, sömuleiðis var hann um hríð prófdómari við Tækniskólann. Þá hafði hann mikinn áhuga á skotveiði, samt mun meiri áhuga á að skjóta í mark á þar til gerðum skotsvæðum. Þannig var hann hvatamaður og með í að stofna eitt slíkt, og fljótur að vinna sig upp í stjörnu, sem táknaði að hann mátti nota skráðar skammbyssur þegar þangað var náð. Þá var hann legni gjaldkeri í hestamannafélaginu Gusti í Kópavogi, en á þeim tíma voru hesthúsin rétt suðaustan við KFC gegnt Smáralind.
Halldór starfaði innan raða Sjálfstæðislokksins frá unga aldri, en hann varð síðar formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi í tæp 18 ár, en því fylgdi að hann gaf út landsmálablaðið Voga í Kópavogi, og dreifði því um hríð um allt Reykjanesið. Hann átti sæti í kjördæmis- og flokksráði og á landsfundum Sjálfstæðisflokksins um áratuga skeið auk fleiri trúnaðarstarfa innan flokksins.
Halldór var einn fárra verkfræðinga sem hafði heimild til að leggja inn teikningar í hvaða grein verkfræðinnar sem er sem og sem arkitekt.
Halldór var frá fyrstu tíð mikilvirkur í skrifum í blöð, tímarit og blog.is, um flest mannlegu viðkomandi. Hin síðari ár tók hann reglulega að sér að vera leiðsögumaður fyrir þýskumælandi hópa ferðamanna. Halldór rak eigið verkfræði- og útgáfufyrirtæki nánast fram á síðasta dag, en hann gaf út blaðið Sám fóstra sem var dreift víða um land.
Útför Halldórs fór fram við guðsþjónustu í Lindakirkju 30. maí 2022.

Það lagðist með ólýsanlegum sársauka á hjarta mitt þegar elsku pabbi var allur, eftir ofurhetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm. Pabbi var myndarlegur maður, nærri meðalmaður á hæð og réttholda, höfðinglegur á velli, með fallegt bros sem náði um allt andlitið, hann hafði góða kímnigáfu og lá jafnan vel á honum. Með nýyrði sínu réttholda, hvorki of feitur né of horaður, fetaði pabbi í fótspor mesta nýyrðasmiðs síðustu 150 ára, Jóns alþingismanns langafa síns.
Pabbi gat aldrei unnt sér hvíldar, hann átti ávallt erindi, sama hverrar gerðar það var, hann hélt sér við það og lauk því. Verkefni hans voru flest ekki hæf neinu meðalmenni, enda heljarmenni til hvers þess verks sem hann tók sér fyrir hendur og frumkvöðull par excellence. Standa bautasteinar margir og miklir eftir við ævilok, t.d. ótal stórframkvæmdir sem þjóðin býr enn við og munu sumar standa lengi. Flestir þekkja þó aðallega greinaskrif hans og ræður sem eru orðin fleiri en hægt er að henda reiður á. Styrmir ritstjóri vinur okkar tilkynnti 3.3. 07 að hann hefði stofnað halldorjonsson.blog.is og sett þar langsaltaða óbirta grein pabba! Pabbi sagði samstundis upp 45 ára áskrift. Hann taldi ekki nokkurn lesa blogg. Við pabbi áttum sameiginlega slíka hvatvísi. Hann varð strax 2.-5. mest lesni hvern dag. Pabbi hafði sterkar skoðanir, en ólíkt mörgum skriffinnum var hann fróður um flest. Hann skrifaði af sannfæringu, í krafti yfirburðaþekkingar, og kjarnyrt. Karenu systur skorti oft hugrekki til að lesa skrif digurbarkans, því sumir skömmuðu hana vegna þeirra.
Enginn var pabbi veifiskati, nema síður sé. Pabbi gat virst hrjúfur og hvumpinn, en það leyndist mér aldrei risastórt hjarta hans úr skíragulli. Hann gerði sér far um að greiða mér veg þegar þess þurfti, sem öðrum. Elstu minningar eru úr Skipasundi og Steypustöðinni, þar sem við Jón bróðir renndum okkur sem smákríli niður sandbingina og ærsluðumst. Þá var ég fárra ára þegar við fórum saman hvern sunnudagsmorgun, eftir sund í gömlu Laugardalslauginni, út á flugvöll að læra að fljúga, hverri vélinni stærri á fætur annarri eftir því sem árin liðu, og ótal æfingatíma einir. Pabbi náði sér auðvitað í einka-, kennslu- og atvinnuflugmannsleyfi, hann tók hlutina ávallt alla leið. Ágúst Ólafur sonur minn naut einnig flugkennslu afa síns, var á 11. ári þegar kennslan hófst. Í bóklega náminu var stráksi með margfalda löggilda flugkennslutíma.
Forystu, afburða dugnað, þekkingu og vit átti pabbi ekki langt að sækja, það þverfótar ekki fyrir áum þeirrar gerðar, afa sem ömmu megin. Andlát pabba skilur eftir sig risaskarð, sem enginn getur fyllt. Ég mun ávallt sakna elsku yndislega pabba míns, og hinsta faðmlagi hans gleymi ég aldrei. Hver á nú að líta eftir hópnum hans og mömmu? Pabbi vakti yfir heill hvers og eins, þótt það væri ekki öllum ljóst, og lagði lífsreglurnar. Hann hafði ávallt lög að mæla þótt það sæju ekki allir strax. Guð blessi minningu einstaks ljúf- og ofurmennis og hvíli pabbi í Hans friði, biður elskandi sonur.

Þorsteinn.