— Morgunblaðið/Kristvin
„Við erum að mótmæla aðgerðum rússneskra stjórnvalda sem fremja nú stríðsglæpi í nafni rússnesku þjóðarinnar,“ segir Andrei Menshenin, rússneskur nemi í Háskóla Íslands.

„Við erum að mótmæla aðgerðum rússneskra stjórnvalda sem fremja nú stríðsglæpi í nafni rússnesku þjóðarinnar,“ segir Andrei Menshenin, rússneskur nemi í Háskóla Íslands.

Andrei er einn skipuleggjenda mótmæla sem fóru fram fyrir framan rússneska sendiráðið í gær vegna stríðsins í Úkraínu.

„Tólfta júní ár hvert er sjálfstæði Rússlands fagnað. Mótmælin í dag voru vegna þess að þjóðin er ekki sjálfstæð. Þjóðinni er stjórnað af hópi glæpamanna og Vladimír Pútín fer þar fremstur í flokki. Hann tekur allt Rússland og gerir það sem hann vill án þess að fylgja neinum mannréttindalögum.“

Andrei segir að fangelsi bíði sín fari hann til Rússlands en nú stefnir í að honum verði vísað úr landi. Vegabréf hans er að renna út og illa gengur að fá nýtt því hann geti ekki snúið heim. Hann vonast til að geta fengið íslenskt vegabréf.