Rupert Smith
Rupert Smith
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rupert Smith og Ilönu Bet-El: "Þegar allt kemur til alls snýst fælingarmáttur um fleira en kjarnorkustyrjöld. Hann á hlut að máli í öllum birtingarmyndum átaka."

BRUSSEL | Væntanleg hernaðaráætlun Atlantshafsbandalagsins, NATO, verður hitt umræðuefnið á dagskránni þegar stjórnendur bandalagsins koma saman í Brussel til fundahalda um stríðsástandið í Úkraínu, en nýja áætlunin mun leggja línurnar um höfuðáherslur NATO næstu árin. Af framgöngu Rússlands undanfarið má ráða, að enduruppbygging fælingarmáttar hlýtur að vera höfuðþáttur þar í.

Söfnun rússnesks herliðs að landamærum Úkraínu í fyrra markaði upphafið að vígaför sem ekki sneri að Úkraínu einni heldur enn fremur því sem Rússar tala um sem „vestrið sameinaða“ og stendur fyrst og fremst fyrir Evrópusambandið og NATO. Ætlunin var að letja Úkraínu og vesturveldin til aukinnar samvinnu á meðan augnamið vestursins var að bæla árásargirni Rússa. Innrásin sem fylgdi í kjölfarið sýnir glöggt að engum fælingarmætti var til að dreifa.

Úkraínumenn hafa varist af mikilli sæmd og ESB, NATO og fleiri vestrænir bandamenn hafa þrengt æ meira að Rússum með efnahagsþvingunum auk þess að aðstoða íbúa Úkraínu eftir föngum. Átökin stigmagnast hins vegar ískyggilega og aðstæður kalla eftir trúverðugum fælingarmætti sem ristir dýpra en hin hefðbundna kjarnorkuvopnaógn.

Grundvallarstef fælingar

Þegar allt kemur til alls snýst fælingarmáttur um fleira en kjarnorkustyrjöld. Hann á hlut að máli í öllum birtingarmyndum átaka – hvort sem er í viðskiptalífinu eða á vígvellinum. Sjást þess merki víða í þeim átökum sem við nú horfum upp á. Reikna hefði mátt með að umtalsverður fælingarmáttur sprytti af gagnkvæmu orkumálasambandi Rússlands og Evrópu, en sú reyndist ekki raunin.

Kjarni fælingarmáttar er að sannfæra andstæðing um að með því að láta eitthvað ógert sé hagsmunum hans best borgið. Fælingin af Rússlands hálfu fólst í öndverðu í að raða herafla sínum upp við úkraínsku landamærin. Meðan á þessu stóð birtu Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í röðum NATO sífelldar upplýsingar um hverja hreyfingu rússneska hersins við landamærin, Kremlverjum til upplýsingar um að hvert fótmál herja þeirra væri með vitund vesturveldanna. Slík upplýsingagjöf er grundvallarstef fælingar.

Annar kjarnaþáttur fælingar er vitneskjan um að deiluaðili búi yfir hvoru tveggja, viljanum og getunni til að láta sverfa til stáls láti andstæðingurinn ekki af háttsemi sinni. Trúverðugleikanum þótti ábótavant þegar Rússar höfðu uppi fjölda krafna í því augnamiði að draga fram veikleika Úkraínu og NATO, allt frá stöðu Úkraínu sem ríkis að heildaruppbyggingu öryggismála í Evrópu.

Að Bandaríkjamönnum undanskildum gerðu fáir því skóna að Rússar létu verða af innrás sinni eða héldu hótunum sínum í garð NATO og hlutlausra ríkja til þrautar. Innrásin varð þó að raunveruleika og frá því hafa hótanir um beitingu kjarnavopna verið hafðar uppi auk þess sem Rússar hafa gert tilraunir með nýtt hljóðfrátt flugskeyti.

Vanmátu samstöðuna

Eins lét Vladimír Pútín sér í léttu rúmi liggja yfirlýsingar Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, þýska kanslarans Olafs Scholz og fleiri vestrænna leiðtoga er þeir lýstu því yfir að þeir hygðust veita Úkraínu stuðning sinn. Boðskapur þessi náði eyrum í Kreml, en það gerðu einnig yfirlýsingar annarra leiðtoga, þar á meðal Bidens Bandaríkjaforseta sem kvaðst ekki mundu senda hermenn á vettvang til að grípa til varna fyrir ríki utan NATO. Rússar ákváðu því að láta til skarar skríða og komu hörð viðbrögð vesturveldanna þeim í opna skjöldu.

Fælingin af hálfu Úkraínumanna fólst í því að draga upp mynd af ríki sem þegar tilheyrði hinum vestræna heimi. Þrátt fyrir að Kremlverjar hafi skellt skollaeyrunum við er ljóst að Rússar vanmátu samstöðu úkraínsku þjóðarinnar og getu hers hennar, þrátt fyrir að hafa átt í skærum við hann allar götur frá Krímskagadeilunni árið 2014.

Hetjuleg sjálfsvörn Úkraínumanna er okkur áminning um að handan vígvallanna og viðskiptahagsmunanna, stöðvananna og stofnananna, býr ofurvenjulegt fólk sem þyngt er af stríði þessu og mun að lokum ráða úrslitum um lyktir þess. Þótt stjórnendur Rússlands láti þrá hinna úkraínsku til að verja líf sitt, heimili og gildi sem vind um eyru þjóta er dagljóst að baráttuandi Úkraínumanna hefur dregið þróttinn úr fjölda rússneskra hermanna.

Betur má ef duga skal

Með framtíðina í huga verður fælingarmáttur vestrænna ríkja að gerast þungamiðja í herkænsku þeirra og fela í sér alla þá þætti sem þar kunna að nýtast. Bandaríski varnarmálaráðherrann Lloyd Austin tók skref í þá átt með yfirlýsingu sinni um að eitt markmiða Bandaríkjamanna nú væri að „sjá Rússland koðna niður í þá stöðu að vera ekki fært um að grípa til aðgerða á borð við innrásina í Úkraínu“. Beiðni Bidens Bandaríkjaforseta um 33 milljarða dala aðstoð við Úkraínu, sem hann undirritaði 9. maí, er annað skref í sömu átt.

En betur má ef duga skal. Fælingarmáttur er fyrirbæri sem þarfnast stuðnings og samþykkis alþýðu allrar. Enn fremur er þess þörf að önnur ríki legg lóð sitt á vogarskálarnar svo tryggja megi öryggi smærri ríkja. Slíkt fæst ekki án áhrifa- og andríkra leiðtoga á borð við Volodímír Selenskí Úkraínuforseta. Hans erindi hefur ekki einvörðungu verið við úkraínsku þjóðina heldur við gervalla heimsbyggðina. Fleiri leiðtogar gerðu vel með því að fylgja fordæmi hans.

Að lokum er hollt að minnast þess hvar fælingarmáttur á sinn sess í heildarsamhengi alþjóðavæðingarinnar. Rússar gengust upp í þeim gagnkvæmu hagþörfum sem eru þeirra eigin sköpunarverk og skákuðu í skjóli stöðu sinnar sem neitunarvaldshafi við borð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í fælingarmætti þurfa að felast úrræði til að gera slíka þætti að engu eða hafa á þeim haldreipi. Stríðið í Úkraínu er sprottið af veikum fælingarmætti. Án slíks máttar mun friður aldrei ríkja.

Rupert Smith er fyrrverandi staðgengill æðsta herforingja NATO í Evrópu. Ilana Bet-El er herkænsku- og sagnfræðingur auk þess að gegna stjórnarsetu í Evrópska leiðtoganetinu.

Rupert Smith er fyrrverandi staðgengill æðsta herforingja NATO í Evrópu. Ilana Bet-El er herkænsku- og sagnfræðingur auk þess að gegna stjórnarsetu í Evrópska leiðtoganetinu. © Project Syndicate, 2022