Kosningar Emmanuel Macron, forseti Frakklands, yfirgefur kjörklefann til að greiða atkvæði sitt í þingkosningum.
Kosningar Emmanuel Macron, forseti Frakklands, yfirgefur kjörklefann til að greiða atkvæði sitt í þingkosningum. — AFP/Ludovic Marin
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sækist eftir því að vinna hreinan meirihluta á þingi í kosningum sem nú fara fram þar í landi.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sækist eftir því að vinna hreinan meirihluta á þingi í kosningum sem nú fara fram þar í landi.

Í gær fór fram fyrri af tveimur umferðum þingkosninganna, en kosið er um 577 sæti í neðri deild franska þingsins. Niðurstöðu þessarar fyrri umferðar má vænta í dag en síðari umferðin fer fram eftir um það bil viku, það er að segja 19. júní næstkomandi.

Vill hreinan meirihluta

Macron, sem hefur nýlega verið endurkjörinn í embætti forseta, stendur frammi fyrir sameinaðri vinstriblokk sem skoðanakannanir hafa sýnt fram á að gæti svipt Macron hreinum meirihluta á þingi. Frönsku vinstri flokkarnir þrír mynda umrædda vinstriblokk sem gengur undir heitinu NUPES og fer Jean-Lucs Melenchon með forystu bandalagsins.

Mikið er undir fyrir Macron að fá hreinan meirihluta á þingi en hann ætlar sér að ráðast í ýmsar umbætur, þ.ám. umbætur í lífeyrismálum sem hann segir nauðsynlegar til að koma ríkisfjármálum Frakklands í lag. Andstæðingar hans til vinstri vilja hins vegar lækka lífeyrisaldurinn og ráðast í umfangsmikil útgjöld.

Lítil kjörsókn í fyrri umferð

Kjörsókn á meginlandi Frakklands í gær mældist 39,4% um þrjúleytið og var hún sú minnsta sem mælst hefur síðastliðin tuttugu ár í fyrri umferð þingkosninga.

Búist er við að kjörsókn verði betri í annarri umferð sem fer fram næstkomandi sunnudag.

Fyrstu spár eftir nýafstaðnar forsetakosningar sýndu að Macron væri á góðri leið að ná meirihluta á þingi. En forsetinn hefur komið lítið fram eftir forsetakosningarnar. Vinstrimanninum Jean-Luc Melenchon hefur aftur á móti tekist að mynda kosningabandalag.

Nýjustu spár sýna nú fram á að væntingar forsetans um hreinan meirihluta gætu mögulega ekki gengið eftir þar sem kannanir sýna að Macron myndi vanta 40 sæti á þingi.

Til þess að ná hreinum meirihluta þyrfti Macron að ná 289 mönnum inn.

Síðast kosið árið 2017

Frakkar gengu síðast til þingkosninga árið 2017 en þá vann Macron stórsigur þar sem kosningabandalag hans hlaut 60% þingsæta.