Kristján Helgi Guðmundsson fæddist 10. september 1943. Hann lést 28. maí 2022. Útför Kristjáns fór fram 9. júní 2022.

Bekkjarbróðir, félagi og vinur er fallinn frá.

Það var haustið 1961 að blandaður hópur menntskælinga settist í einn af fjórðu bekkjum stærðfræðideildar Menntaskólans í Reykjavík og fékk auðkennisstafinn T.

Kristján Helgi Guðmundsson var í þessum hópi. Hann varð fljótt lífið og sálin í hópnum, félagslyndur, öflugur og hugmyndaríkur og einstakur félagsandi myndaðist undir forystu hans hjá þessum annars sundurleita hópi.

Strax fyrsta veturinn stóð hann fyrir söfnun í ferðasjóð, fimmkall á mann vikulega. Stefnt skyldi að Vestmannaeyjaferð. Kristján ávann okkur traust Einars Magnússonar yfirkennara sem studdi við bakið á okkur.

Til Vestmannaeyja var siglt með Herjólfi um vorið, gist í barnaskólanum og siglt um eyjarnar. Ógleymanlegt ævintýri.

Kristján fékk því framgengt að við fengum aðstöðu til tehitunar þegar bekkurinn var settur í stofu á loftinu í gamla skólahúsinu og því stundum nefndur te-bekkurinn af öðrum skólafélögum.

Margar hafa ferðir og ævintýri bæst við á bráðum sextíu árum, Kristján ávallt með í för, hrókur alls fagnaðar, miðlandi fróðleik og sögum. Hann var góður söngmaður og mikið var sungið.

Að loknu stúdentsprófi dreifðust bekkjarsystkinin eins og gengur. Ekki leið þó á löngu áður en við náðum saman á ný. Kristján og nokkrir félagar okkar fóru að hittast reglulega í hádeginu og síðar bættist allur hópurinn við. Höfum við hist reglulega nokkrum sinnum á ári alla tíð síðan. Kristján hélt vel utan um hópinn, fylgdist með skólafélögum og flutti okkur fréttir af ýmsu tagi. Alltaf var tilhlökkunarefni og gott að hittast.

Kristján var svo lánsamur að eignast hina glæsilegu Margréti Hjaltadóttur fyrir konu. Hún var honum mikill styrkur og ánægjulegt að kynnast henni, fallegu heimili þeirra og mannvænlegum börnum.

Síðustu ár hefur vinur okkar smám saman horfið okkur, hann fékk slæmt áfall fyrir fimm árum og varð ekki samur og við höfum saknað hans mjög. Söknuðurinn verður áfram í hjarta okkar.

Við kveðjum góðan dreng með þakklæti fyrir samfylgdina, gleðina og þátt hans í að gera okkur lífið ánægjulegra.

Fjölskyldunni vottum við dýpstu samúð.

Fyrir hönd T-bekkjarsystkina,

Kristín Gísladóttir.

Það koma margar minningar fram þegar ég horfi til baka yfir samskipti okkar Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi félagsmálastjóra og bæjarstjóra í Kópavogi. Ég var samstarfsmaður hans í bæjarstjórnartíð hans og annaðist þá skólamálin. Það gekk nokkuð hratt fyrir sig í Kópavogi þegar félagsmálastjórinn var ráðinn bæjarstjóri. Kristján hafði mikinn metnað fyrir bæjarstjórastarfinu og sinnti því vel. Ég tel að Kristján hafi verið farsæll í störfum sínum störfum fyrir Kópavogsbæ. Hann var samviskusamur og áræðinn. Kristján var mikil félagsvera, mannblendinn og gat verið nokkuð kátur. Honum leið vel í góðra vina hópi og átti þá oft sviðið. Það var skemmtilegt að vera með Kristjáni. Ást hans á hestum og Suðurlandinu var í blóðinu. Þessi ást hans á Suðurlandinu mótaðist eflaust af veru hans á Urriðafossi við Þjórsá, þar sem hann dvaldist á sumrum nær öll sín ungdómsár. Í spjalli við hann brá oft við sögum af mönnum og málsefnum þaðan. Til þess að treysta tengslin við svæðið reistu þau Margrét kona hans sér sumarhús í Þjórsárdalnum.

Kristján var þjóðrækinn, vel lesinn og áhugamaður um landsins gagn og nauðsynjar. Segja má að Kristján hafi verið nokkur fagurkeri, bæði á bækur og myndlist. Eitt sem ég minnist er hve Kristján hafði fallega rithönd. Ég held að það sé fáttítt í dag að nefna slíka kosti á tölvuöld.

Í bæjarstjórnartíð Kristjáns hélt hann okkur deildastjórunum vel saman. Hvatti okkur og gagnrýndi. Þótti okkur ekki leiðinlegt að hann kallaði okkur „þverhausana“ en undir því nafni gengum við deildastjórarnir lengi.

Það var mikið áfall fyrir nokkrum árum þegar Kristján slasaðist og missti heilsuna. Mikið og stórt verkefni fyrir Margéti og fjölskylduna að takast á við þær breytingar sem urðu á persónu Kristjáns. Þessum tíma má líkja við hátt fjall að klífa fyrir Margréti en segja má að nú sé hún að koma niður af fjallinu og getur væntanlega tekið sér hvíld.

Ég minnist Kristjáns sem góðs félaga og sanns ættjarðarvinar. Við Margrét kona mín sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Kristjáns Guðmundssonar.

Guðjón Magnússon og Margrét Pálsdóttir.

Vorið 1964 var sólríkt og gróðursælt. Við, nemendur í 6. bekk Menntaskólans í Reykjavík, vorum að ljúka stúdentsprófum, flest fædd 1944, og mynduðum stærsta stúdentahópinn frá upphafi, rúmlega 200 manns. Bekkjarráðið okkar hafði því verið virkt í þrjá vetur og áttum við því láni að fagna, að formaður þess, Kristján H. Guðmundsson í T-bekk, var sérlega vel fallinn til forystu.

Krilli, eins og við kölluðum hann jafnan, hafði reyndar afburða leiðtogahæfileika. Hann var fæddur félagsmálamaður, röskur til allra verka, með jákvæð viðhorf og glaðlegt viðmót, og reyndist auðvelt að hrífa okkur bekkjarsystkinin til samstarfs bæði þá og síðar, um áratuga skeið. Enn lifir bekkjarráðið góðu lífi með sínum níu fulltrúum sem flestir hafa setið í því frá upphafi. Við fráfall Kristjáns er okkur efst í huga hve vel hann hélt alla tíð utan um stúdentaárgang MR '64, allt til 2017 þegar hann varð fyrir heilaskaða vegna slyss.

Við minnumst reglubundinna bekkjarráðsfunda, oft á vistlegu heimili hans og Margrétar, þar sem gestrisni var höfð í hávegum á allan hátt. Þá minnumst við ýmissa samfunda og ferðalaga með gleði í huga þar sem formaðurinn lét ekki sitt eftir liggja við dans og söng. Á menntaskólaárunum þurftum við að ræða öðru hvoru við rektor og fleira starfsfólk skólans um málefni nemenda, skreppa austur á Menntaskólasel í Ölfusi til að lakka gólfið í salnum og útvega dráttarvélar og vagna fyrir dimmisjón um sumarmál 1964, svo að dæmi séu tekin.

Kristján var í raun bæði mikilvirkur öndvegismaður og farsæll í lífi og starfi. Reyndar áttu sum okkar ánægjulegt samstarf við hann um hin ýmsu verkefni langt út fyrir bekkjarráðið. Þótt hann byggi í Reykjavík, og síðar lengst af í Kópavogi, hélt hann ætíð góðum tengslum við landsbyggðina, einkum þó átthaga foreldra sinna á Suðurlandi og Vestfjörðum. Hestamennskan var honum kær og um skeið átti hann kindur í Gnúpverjahreppi hinum forna. Í vorferðinni okkar 2016 um Flóa, Skeið, Hreppa, Þjórsárdal og Tungur naut hann sín sérlega vel. Þar um slóðir þekkti hann allt og alla, þetta voru sveitirnar hans. Í þessari eftirminnilegu ferð nutum við í síðasta sinn leiðsagnar hans og umhyggju. Þar sem fyrr ríkti hlýtt viðmót og vinátta. Þannig viljum við muna hann Krilla okkar. Við kveðjum hann með virðingu og þökk fyrir ómetanlegt starf í þágu stúdenta frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1964.

Aðstandendum vottum við innilega samúð.

F.h. bekkjarráðs MR '64,

Ólafur R. Dýrmundsson.

Árið var 1982 þegar leiðir okkar lágu fyrst saman, hann nýbakaður bæjarstjóri og ég að taka við fyrra starfi hans, sem félagsmálastjóri Kópavogs. Kristján kom mér strax fyrir sjónir sem hlýr maður og heillandi, bros hans bar með sér velvild, mannkærleika og væntumþykju. Allt voru þetta mannkostir sem ég átti síðar eftir að reyna að voru honum eðlislægir. Í tæpan áratug áttum við náið samstarf, þar sem jákvæðni, hjálpsemi og lausnamiðaðir eiginleikar hans fengu að njóta sín í hópi samhentra bæjarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins.

Kópavogur var á þessum árum gjarnan nefndur félagsmálabærinn. Meirihluti bæjarstjórnar setti sér mjög metnaðarfull markmið í uppbyggingu félagsþjónustu og óhætt er að fullyrða að þar var unnið mikið brautryðjandastarf á vettvangi velferðarmála á þeim tveim kjörtímabilum sem Kristján gegndi starfi bæjarstjóra. Hann átti ríkan þátt í að skapa andrúmsloft samstöðu og sátta og aldrei man ég til þess að Kristján léti illt orð falla til nokkurs manns. Hann umgekkst alla sem jafnir væru og ég minnist þess sérstaklega að hann átti ævarandi vináttu fjölmargra fyrrverandi skjólstæðinga Félagsmálastofnunar Kópavogs, ekki síst þeirra sem voru í mjög viðkvæmri stöðu.

Það var mikil áskorun fyrir mig tæplega þrítugan að aldri að taka við keflinu af Kristjáni, sem naut jafn mikils trausts starfsmanna Félagsmálastofnunar og raun bar vitni. Þetta var fjölmennur hópur dreifður á margar starfsstöðvar sem fékkst við ólík viðfangsefni svo sem félagsráðgjöf og barnavernd, þjónustu við aldraða og einstaklinga með fötlun, störf á leikskólum og með unglingum, atvinnumál sem og rekstur tómstunda- og íþróttamannvirkja svo stiklað sé á stóru. Ætíð var Kristján ráðhollur jafnt í stóru sem smáu þegar ég leitaði til hans. Og alls staðar átti hann hauka í horni sem greiddu götuna ef á þurfti að halda.

Kristján var mikill gæfumaður í einkalífi, eiginkona hans Margrét og börnin voru lífsakkeri hans. Þau Margrét voru jafnframt höfðingjar heim að sækja. Það var glatt á hjalla í heimboðum þeirra hjóna enda var Kristján gleðimaður á góðri stund, góður tækifærisræðumaður og sögumaður, orðheppinn og skemmtilegur. Þá var gjarnan tekið lagið enda var Kristján góður söngmaður. Þessar stundir eru ógleymanlegar og styrktu vinaböndin.

Öll mætum við andstreymi einhvern tímann í lífinu og þá er vináttan dýrmætari en allt annað. Og þá vináttu áttum við. Ég minnist þess þegar ég heimsótti hann á sjúkrahús skömmu eftir áfall sem olli því að hann átti erfitt með tjáningu. Þótt orðin létu á sér standa var fallega brosið hans einlægt og faðmlagið þétt. Minninguna um þá skilnaðarstund mun ég varðveita. Margréti, Höllu Karen, Svövu, Hjalta og öðrum ástvinum votta ég samúð mína.

Bragi Guðbrandsson.

Mig langar að minnast míns góða vinar til margra áratuga, Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi. Við áttum það sameiginlegt að eyða mestum hluta okkar starfsævi hjá Kópavogsbæ. Í ár eru 40 ár síðan hann var kosinn bæjarstjóri, en áður hafði hann verið félagsmálastjóri bæjarins í nokkur ár. Það voru einmitt félagsmálin sem leiddu okkur saman og við fundum fljótt að við áttum mörg svipuð áhugamál, sem síðar þróaðist í mikla vináttu. Kristján var í mínum huga einstaklega ljúfur og grandvar maður sem mér fannst mjög auðvelt að vinna með. Hann hafði sem félagsmálastjóri beitt sér fyrir ýmsum nýjungum á þeim vettvangi, sem varð til þess að meirihluti Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks réð hann sem bæjarstjóra 1982. Saman tókst okkur að gera Kópavog að svo miklum félagsmálabæ að eftir var tekið um allt land. Þetta orðspor hélst býsna lengi og mætti vel fríska upp á þessa fyrrverandi ímynd Kópavogs. Að stjórna sveitarfélagi snýst ekki bara um debet og kredit, heldur ekkert síður um að sýna bæjarbúum virðingu og væntumþykju. Það var kannski það sem einkenndi starfshætti Kristjáns sem bæjarstjóra. Hann nýtti öll tækifæri til að fagna því sem vel var gert og hafði einstakt lag á að vekja athygli á Kópavogi bæði í ræðu og riti. Kannski mætti segja að Kristján hafi komið „mennskunni“ í stjórnarhætti bæjarins. Auðvitað væri hægt að rekja margt af því sem unnið var að í bæjarstjóratíð Kristjáns, en það er einkum tvennt sem mig langar að nefna og má hiklaust telja til afreka. Það fyrra er friðun Fossvogsdals, en allt frá árinu 1973 var gert ráð fyrir lagningu akbrautar eftir dalnum, þar sem gert var ráð fyrir a.m.k. 20 þúsund bílum á sólarhring. Með samningi við Reykjavík um að grafa göng frá Lundi upp að Byko árið 1989, var endanlega horfið frá lagningu Fossvogsbrautar og dalurinn þar með friðaður, þó svo vitað væri að þessi göng kæmu aldrei. Hitt sem mig langar að nefna er skipting bæjarins milli íþróttafélaganna. Deilur höfðu verið um hvernig þessum málum yrði best fyrir komið og sátt náðist um hvar höfuðstöðvar félaganna yrðu og hefur sú niðurstaða sem náðist haldist fram til þessa dags. Já, það er margs að minnast nú að leiðarlokum og ástæða til að þakka fyrir samfylgdina. Kristján var í mínum huga einstaklega hjartahlýr og góður drengur. Við Sóley sendum Möggu, Höllu Karen, Svövu og Hjalta og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Oddsson.

Látinn er fyrir aldur fram verðmætur félagi okkar í Rótarýfélaginu Borgum, Kristján Guðmundsson, sem jafnframt var stofnandi þess og fyrsti forseti. Með honum er genginn ekki einungis félagi okkar, heldur og vinur okkar allra.

Kristján var fyrir margt eftirtektarverður maður og fáum líkur er kom að félagsstörfum. Sumu fólki umfram öðru er gefinn hæfileiki til forystu. Þann hæfileika hafði Kristján hlotið í óvenju ríkum mæli. Ótrúlega oft, þegar brýn málefni, fólki til gagns og gleði, kvöddu dyra, var leitað til Kristjáns. Hann tók þeim umleitunum jafnan með þeirri ljúfmennsku sem honum var í blóð borin og fórst sú forysta einstaklega vel úr hendi. Þeim málefnum, sem hann tók að sér að leiða, var þannig farsællega borgið. Of langt mál yrði að telja þau mál öll upp sem hann leiddi eða studdi með öðrum hætti til árangurs. Það var því við hæfi að starfsvettvangur Kristjáns varð þar sem þessir hæfileikar nutu sín best. Kristján gat því með stolti litið yfir farinn veg.

Áhugamál Kristjáns voru fjölmörg. Hann hafði mikinn áhuga á sagnfræði og bókmenntum, enda nam hann þau fræði ásamt íslensku í Háskóla Íslands. Hann var mjög ljóðelskur og leiddi oft tal sitt að því áhugamáli sínu, enda hafði hann kynnt sér íslenska ljóðagerð vel.

Fyrir nokkrum árum varð Kristján fyrir slysi sem rændu hann þeim gæðum lífsins sem miklu máli skipta. Dauða hans má því kalla lausn frá erfiðu hlutskipti. Við, félagar hans í Borgum, minnumst Kristjáns með gleði og þakklæti og hann mun lengi lifa í minningu okkar. Hans verður sárt saknað.

Fyrir hönd Rótarýklúbbsins Borga í Kópavogi,

Þórður Helgason.

Elsku Halla Karen vinkona.

Þú hefur misst mikið við fráfall elskulegs föður þíns en minningarnar hverfa ekki. Þegar ég kynntist þér á unglingsaldri sá ég fljótt hvaðan þú hafðir þennan ótrúlega kraft, jákvæðni, smitandi hlátur, réttlætiskennd, hjálpsemi, félagslyndi, góða nærveru og svo mætti lengi telja.

Marga aðra góða kosti hefur þú frá hinum leggnum og séu þeir lagðir saman ertu eiginlega bara einn stór kostur. Enda góð vinkona, eiginkona, móðir, dóttir og tengdadóttir.

Faðir þinn var heillandi maður, gleðipinni sem hafði góða nærveru. Ég man eiginlega bara eftir honum brosandi að taka höfðinglega á móti okkur, hvort sem það voru stórboð eða vídeó- og spilakvöld. Hann var svo félagslyndur að hann var oft með okkur í kjallaranum að spyrja okkur spurninga um spilin sem við vorum að spila, lesa fyrir okkur ættfræði eða ljóð. Hann vildi alltaf vera með í fjörinu, hvort sem það voru börn, unglingar eða annað fólk af öllum gerðum og úr öllum stéttum. Það var kannski helst að Magga næði honum upp með sínum listamat og sætabrauði.

Faðir þinn gaf þér mikið en mundu að þú átt það allt og geymir í hjarta þínu. Þegar mikið bjátar á, þá hugsaðu til hans og hann sendir þér styrk.

Ég votta Margréti, Svövu, Hjalta og öðrum fjölskyldumeðlimum samúð mína.

Einstakur maður er fallinn frá en kominn á betri stað eftir erfið veikindi sl. ár. Þið eigið heiður skilinn fyrir einstaka umhyggju og natni við hann þennan erfiða tíma. Hetjum verður ei betur lýst.

Eva Sigríður

Kristmundsdóttir.

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld,

ég kem eftir, kannske í kvöld,

með klofinn hjálm og rifinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Þessi vísa Bólu-Hjálmars kom mér í hug þegar ég frétti andlát vinar míns Kristjáns Guðmundssonar. Þegar árin færast yfir og góðir vinir og vandamenn fara að falla frá fyllist maður oft sorg og söknuði yfir að hafa misst þá úr lífi sínu. En þá er líka mest um vert að snúa sorginni upp í gleði yfir því að hafa átt þau öll að vinum og minnast allra gleði- og samverustunda sem maður hefur átt með þeim í gegn um lífið.

Við Kristján fórum báðir í sveit á unga aldri austur í Árnessýslu, hann að Urriðafossi í Villingaholtshreppi en ég að Steinsholti í Gnúpverjahreppi. Á þeim árum þekktumst við ekki en ég kynntist pabba hans lítillega, því hann kom stundum í heimsókn austur. Það var svo þegar við vorum komnir undir tvítugt að við fórum að hittast austur í Hreppi og ríða út saman í góðra vina hópi á kappreiðarnar á Sandlækjarholti, í réttirnar og víðar.

Árið 1975 tókum við okkur saman dálítill hópur héðan úr Reykjavík og fórum að fara árlega í öræfaferðir á hestum og þá var oft byrjunin á ferðinni að ríða hestunum í sumarhagana austur í Gnúpverjahreppi. Við fórum víða í þessum ferðum; vestur í Dali, um ofanverðan Borgarfjörð að Húsafelli og Kaldadal, inn á Hlöðuvelli, Arnarvatnsheiði, norður fyrir Langjökul, um Hveravelli og Kerlingarfjöll, í Arnarfell undir Hofsjökli, Hrunamanna- og Gnúpverjaafrétt, Fjallabaksleiðir, Rangárvalla- og Fljótshlíðarafrétti og víðar. En eftirminnilegasta ferðin í huga okkar er ferðin 1985 austur Landmannaleið, inn að Langasjó, inn á milli Fögrufjalla inn í Grasver undir Vatnajökli, yfir Skaftá gegnt Tröllhamri, niður Skaftáreldahraunið að Kirkjubæjarklaustri og syðri Fjallabaksleið heim. Þau Kristján og Magga voru ávallt vel ríðandi. Hún hafði eignast hryssu frá Þverspyrnu í Hrunamannahreppi og var henni haldið undir góða stóðhesta og urðu afkvæmi hennar öll lángefin, góðgeng og traust hross og sómdu þau hjón sér vel á þessum gæðingum sínum.

Kristján var ákaflega fróðleiksfús og vel lesinn og stundum þegar hann sagði frá var því líkast sem hann þekkti fólk í hverjum hreppi á Íslandi. Bæði voru þau hjón ljóð- og söngelsk eins og mörg okkar, og alltaf kátt á hjalla í sæluhúsunum þegar komið var í náttstað á kvöldin. Þau hjón voru ákaflega gestrisin og höfðingjar heim að sækja og borðin svignuðu undan kræsingunum sem Magga breiddi á borð í veislunum sem þau héldu.

Eftir slysið sem henti Kristján fyrir nokkrum árum var aðdáunarvert að sjá hvað Magga og börnin hans tókust á við erfiðleikana sem því fylgdi og sýndu honum óendanlega þolinmæði og umhyggju.

Að leiðarlokum þakka ég honum alla þá vináttu og tryggð sem hann ávallt sýndi okkur Gunnu og fjölskyldu okkar og vinahópurinn úr hestaferðunum sendir Möggu og fjölskyldu hennar samúðarkveðjur með þökk fyrir allt sem hann var okkur.

Andreas

Bergmann.

Kristján Guðmundsson var góður maður og allt sem honum var falið vann hann af trúmennsku og alúð. Hann var glaðsinna, heilsteyptur og hlýr í samskiptum. Það var einstaklega gott að eiga hann að vini og ég hef saknað hans síðan slysið varð. En frá þeim tíma hefur líf hans og fjölskyldunnar verið gjörbreytt. Ég kynntist Kristjáni þegar nýr kafli var að hefjast í mínu lífi þegar ég var kosin í bæjarstjórn Kópavogs 1978. Hann var þá félagsmálastjóri og þar varð minn vettvangur árin í bæjarstjórn. Kristján varð bæjarstjóri tveimur árum seinna og áratugurinn sem fylgdi líklega sá umsvifa- og áhrifamesti á starfsævi hans. Hann átti einstaklega gott með að umgangast fólk og ná til þess. Hann lét sig líka varða hagi annarra og hlúði persónulega að ýmsum sem höllum fæti stóðu og taldi aldrei eftir sér að reyna að leysa vanda ef til hans var leitað. Það var gaman að vinna með Kristjáni, hann var skemmtilegur og það var góður bragur á því sem hann sá um. Hann var bæjarstjóri fyrir meirihluta Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Við vorum framsækin við stjórn bæjarins og stolt þegar bærinn hlaut viðurnefnið félagsmálabærinn. Þegar mörgu á að hrinda í framkvæmd er mikilvægt að hafa ötulan bæjarstjóra sem fylgir málunum vel eftir inn í kerfið. Þannig var Kristján og ég fullyrði að starfsmenn Kópavogsbæjar hafi lagt sig fram allir sem einn miðað við þann góða anda sem ríkti milli starfsfólksins á þessum tíma. Þetta var góður og eftirminnilegur tími og vinabönd þróuðust milli margra. Við Sverrir eignuðumst Margréti og Kristján að góðum vinum og fylgdumst álengdar með lífi barnanna og þeirra sterku stórfjölskyldu. Við höfum líka fylgst með því undanfarin ár hvernig þau öll hafa reynt að létta Kristjáni breyttar og mjög erfiðar aðstæður. Við eigum ljúfar minningar um innlit og kaffispjall í Hrauntungunni og alltaf var gaman meðan Kristján var frískur og kíkti við á Hlíðarvegi á heilsugöngu sinni í dalnum. Nú er lífsgöngu þessa sómamanns lokið. Ég er stolt af að hafa átt hann að vini og við Sverrir þökkum áralanga samfylgd um leið og við vottum Margréti, Höllu, Svövu og Hjalta, já allri fjölskyldunni, innilega samúð. Blessuð sé minning Kristjáns Guðmundssonar.

Rannveig

Guðmundsdóttir.

Mig langar að minnast góðs vinar og samferðamanns, Kristjáns Guðmundssonar, með nokkrum minningabrotum.

Fyrstu kynni okkar eru tengd Bergstöðum í Biskupstungum en þangað átti hann oft leið með föðurbróður sínum Bergi og Rögnu konu hans. Þau keyptu jörðina ásamt fjórum öðrum fjölskyldum og voru að koma sér upp bústað á landinu. Þessar minningar eru tengdar hestastússi, sameiginlegu áhugamáli þessa hóps. Bergur féll frá 1983 og þá hófst nýtt og nánara skeið í samskiptum Kristjáns við okkur og við Rögnu og Unni föðursystur hans, en þær voru nú félagar í hestamennskunni. Hélst þessi hestatenging áfram, m.a. voru nokkrar „burtreiðar“ saman, en um þetta leyti árs er farið ríðandi með hrossin af höfuðborgarsvæðinu austur yfir heiðar í sumarhaga.

Leiðir okkar lágu einnig saman á starfsvettvangi, þegar ég sótti um starf garðyrkjustjóra í Kópavogi 1986. Samstarf við hann og þann meirihluta sem þá stýrði málum bæjarins var einstaklega frjótt og skemmtilegt. Það var gríðarlega mikill vilji til að gera veg umhverfismála bæjarfélagsins í víðum skilningi sem mestan. Þetta var mikill blómatími fyrir starfsumhverfi okkar sem unnum saman að umhverfismálum bæjarins næstu árin. Bæði var mikill skilningur hjá nefndum og yfirstjórn bæjarins.

Kristján hóf sinn starfsferil hjá Kópavogsbæ sem félagsmálastjóri 1971 en frá 1982 var hann ráðinn bæjarstjóri og starfaði til ársins 1990. Á þessum tíma, fyrir nær 40 árum, fór mjög gott orð af fyrirmyndarfélagsþjónustu hjá Kópavogsbæ. Málaflokkurinn er margþættur og tekur til flestra þátta velferðar íbúanna, sérstaklega þeirra sem minna mega sín.

Skömmu eftir að ég hóf störf sem garðyrkjustjóri átti ég orðastað við ungan verktaka sem vann fyrir okkur. Hann trúði mér fyrir því að hann vildi svo gjarna flytja í Kópavog því hann hefði vissu fyrir því að hann fengi mun betri þjónustu við ungt barn sitt í Kópavogi en hann fengi þar sem hann bjó.

Undir lok starfs hans sem bæjarstjóri undir 1990 hvessti í sambúð Reykjavíkur og Kópavogs um lagningu hraðbrauta um Fossvogsdal. Á árunum 1986-1990 mögnuðust þessar deilur mjög og í byrjun maí 1989 var enn gripið til mótmæla og fjölmenntu íbúar við dalinn og víðar að og gróðursettu nokkur hundruð aspir og önnur tré í mótmælaskyni. Mótmælin voru undir forustu Kristjáns í góðu samráði við íbúa að dalnum. Þessir lundir eru í dag yfir 10 m háir og setja mikinn svip á svæðið kringum Fagralund, íþróttasvæði HK.

Kristján var alltaf jákvæður og glaðsinna í daglegum samskiptum þannig að minningabrotin eru öll mjög jákvæð og ljúf af áralöngum kynnum.

Við fjölskylda mín og systkin mín tengd Bergstöðum þökkum samfylgdina og vottum Margréti og fjölskyldunni allri innilega samúð á þessum tímamótum.

Einar E. Sæmundsen.