[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjartmar Anton Guðlaugsson er fæddur 13. júní 1952 í Pétursborg á Fáskrúðsfirði. Hann bjó á Fáskrúðsfirði til 7 ára aldurs og flutti þá til Vestmannaeyja með fjölskyldunni.

Bjartmar Anton Guðlaugsson er fæddur 13. júní 1952 í Pétursborg á Fáskrúðsfirði. Hann bjó á Fáskrúðsfirði til 7 ára aldurs og flutti þá til Vestmannaeyja með fjölskyldunni.

Bjartmar byrjaði í Barnaskóla Fáskrúðsfjarðar og fór í barnaskóla og gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum. Hann lauk iðnnámi í málaradeild frá Iðnskólanum í Reykjavík. Síðar, eða 1992, fór hann til Danmerkur og nam myndlist hjá Bendt Veber rektor í Det Fynske kunstakademi í Óðinsvéum og lauk því námi 1997. „Ég byrjaði mjög snemma í myndlist, en um fermingaraldurinn fékk ég leiðsögn hjá Magnúsi Á. Árnasyni sem þá var kennari við Myndlistarskóla Vestmannaeyja og hjálpaði honum og bar fyrir hann trönur þegar hann var að mála úti.“

Bjartmar vann við sjómennsku og flest þau störf sem fylgja því að búa í sjávarplássi á sjó eða í landi. Eftir útskrift úr Iðnskólanum vann hann síðan við húsaviðgerðir. Tónlistarferill Bjartmars fór rólega af stað, hann lék fyrst á trommur en upp úr tvítugu fór hann að semja lög og texta, fyrst fyrir aðra eins og Þorgeir Ástvaldsson á plötunni Á puttanum, Björgvin Gíslason á plötunni Örugglega og einnig jólaplötu þar sem Laddi söng lag Bjartmars og Þorgeirs, Út með jólaköttinn. Meðal fleiri laga og texta sem Bjartmar samdi fyrir aðra í byrjun ferilsins eru Súrmjólk í hádeginu og Háseta vantar á bát.

Hann hóf síðan eigin feril með plötunni Ef ég mætti ráða frá 1984, en á henni eru m.a. lögin Sumarliði er fullur, og Kótilettukallinn. Hann átti síðan fleiri vinsæl lög en sló rækilega í gegn með fjórðu plötu sinni, Í fylgd með fullorðnum , sem seldist í tæplega 20.000 eintökum. „Þetta er þemaplata og fjallar um þá veröld sem við fullorðna fólkið búum börnum.“ Meðal laga á plötunni eru Týnda kynslóðin, Sunnudagsmorgunn og Ég er ekki alki.

Bjartmar gaf út fleiri plötur en söðlaði síðan um og fór í myndlistarnám án þess þó að yfirgefa tónlistina. „Þetta snerist um að láta gamlan draum rætast, ég var alltaf á leiðinni í skóla hér heima en svo frétti ég af Bendt Veber og ákvað að fara til hans og vann með honum á stofunni hans í þrjú ár og lærði af honum. Akademíurnar í dag snúast ekki bara um málverk, en ég vildi bara ná tökum á því og litafræðinni, kunna þær bragðfræðireglur líka.“ Bjartmar hélt sýningar úti og starfaði sem sýningarvörður í Brandts Klædefabrik, sem er sýningarhöll í Óðinsvéum. Bjartmar flutti síðan aftur heim til Íslands 1998.

Síðan hefur Bjartmar unnið við myndlist, og laga- og ljóðagerð og hefur einnig haldið áfram að semja fyrir aðra. Lag Bjartmars, Þannig týnist tíminn, var kosið óskalag þjóðarinnar í kosningu á RÚV. „Það fer eftir skapinu hvort ég er í ljóðinu, málverkinu eða laginu, en er oft í þessu öllu sama daginn og reyni að sinna þessu jafnt. Það sem þó á hug minn í dag er hljómsveitin Bergrisarnir en við erum búnir að gefa út fjögur lög á þessu ári og erum að huga að plötu.“ Hljómsveitin heldur afmælistónleika í Háskólabíói 18. júní og mun síðan halda tónleika víða um land í kjölfarið.

Bjartmar sat í stjórn Félags tónskálda og textahöfunda. Hann hlaut menningarverðlaun DV árið 2010 undir liðnum val lesenda, Íslensku tónlistarverðlaunin sem textahöfundur ársins 2011 og Fréttapýramídann 2016 fyrir framlag til menningarmála sem tónlistarmaður, myndlistarmaður og rithöfundur.

Bjartmar gaf út bók árið 2016 Þannig týnist tíminn sem er skáldævisaga ásamt myndlist og ljóðlist höfundar.

Helstu áhugamál Bjartmars eru tónlist, ljóðlist og myndlist. „Ég gerði áhugamálin að atvinnu minni.“

Fjölskylda

Eiginkona Bjartmars er María Helena Haraldsdóttir, f. 1.8. 1960, forstöðumaður. Þau eru búsett á Bauganesi í Skerjafirði. Foreldrar Maríu: Harald Albertsson, f. 13.1. 1942, d. 18.8. 1997, skósmiður í Reykjavík, og Erla J. Marinósdóttir, f. 30.3. 1943, fyrrverandi bankamaður, búsett í Reykjavík. Þau voru hjón en skildu árið 1977.

Börn Bjartmars eru 1) Arna Bjartmarsdóttir, f. 21.12. 1974, BA í spænsku með sjávarútvegsfræði sem hliðargrein og vinnur hjá Samskipum, búsett í Hollandi; 2) Elma Björk Bjartmarsdóttir, f. 12.12. 1978, viðskipta- og markaðsfræðingur, búsett í Reykjavík. Maki: Orri Pétursson sjómaður; 3) Berglind Bjartmarsdóttir, f. 18.9. 1985, nemi í innanhússarkitektúr, búsett í Óðinsvéum í Danmörku. Maki: Magnús Ómarsson hljóðmaður. Barnabörn Bjartmars eru orðin 8.

Systur Bjartmars: Sigurlaug Ágústa Guðlaugsdóttir, f. 22.9. 1945, d. 17.6. 2019, og Ingeborg Guðlaugsdóttir, f. 4.8. 1947. búsett í Reykjavík.

Foreldrar Bjartmars voru hjónin Guðlaugur Ágústsson, f. 2.4. 1919, d. 27.7. 2004, vélstjóri, og Svanhild Jensen Ágústsson, f. 22.6. 1926, d. 21.7. 2001, húsmóðir. Þau voru gift í 60 ár og bjuggu á Fáskrúðsfirði, í Vestmannaeyjum, Keflavík og Reykjavík.