Eyjólfur Þorbjörn Haraldsson fæddist 29. júlí 1940 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði 31. maí 2022.

Eyjólfur var sonur hjónanna Sólveigar Eyjólfsdóttur húsfreyju og matráðskonu, f. 25.2. 1908, d. 31.1. 2005, og Haraldar Þórðarsonar skipstjóra, f. 30.9. 1893, d. 2.10. 1951. Alsystir Eyjólfs var Kristín Vilborg geislafræðingur, f. 11.4. 1945, d. 1.3. 2021, og hálfsystir samfeðra Þóra, f. 24.4. 1924, d. 11.7. 1982.

Eyjólfur ólst upp í Hafnarfirði og lauk landsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960. Hann lærði læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk cand.med.-prófi 1967. Hann stundaði framhaldsnám í lyflækningum í Skotlandi og lauk sérfræðiprófi 1974. Síðar hlaut hann sérfræðiviðurkenningu í öldrunarlækningum 2002.

Eyjólfur starfaði sem heimilislæknir í Kópavogi 1974-2000 og sem öldrunarlæknir á Landakoti frá 2000 til starfsloka 2010. Hann tók jafnframt mikinn þátt í félagsstörfum lækna, sat í stjórn Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands, auk þess sem hann var formaður Félags íslenskra heimilislækna og forvera þess 1976-1983 og gerður heiðursfélagi þess félags 1998. Hann fékk viðurkenninguna „Fellow of the Royal College of Physicians of Edinburgh“ 1991.

Eyjólfur var mikill áhugamaður um gott íslenskt mál. Hann sat í íðorðanefnd læknafélaganna um áratuga skeið, fram undir andlátið.

Eyjólfur kvæntist 1968 Sigrúnu Aðalsteinsdóttur, f. 1944, d. 1975. Eftirlifandi eiginkonu sinni kvæntist Eyjólfur 1981, Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur lyfjafræðingi, f. 1951. Synir þeirra: 1) Eggert bráðalæknir, f. 22.8. 1981. Hann er kvæntur Hólmfríði Morgan hjúkrunarfræðingi og eiga þau fimm börn. 2) Haraldur Sveinn tónlistarmaður, f. 15.3. 1985, d. 15.4. 2015. Haraldur var kvæntur Heiðrúnu Gissunni Káradóttur, en þau skildu. Eyjólfur og Edda voru alla tíð búsett í Hafnarfirði.

Eyjólfur hafði mikinn áhuga á klassískri tónlist, óperum og djasstónlist. Sóttu þau hjón mikið tónleika og óperur og ferðuðust víða um heim til að sinna því áhugamáli. Ferðalög voru annað stórt áhugamál, jafnt innanlands sem utan. Hafði Eyjólfur heimsótt meira en 50 lönd í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu og farið þrisvar umhverfis jörðina og margsinnis umhverfis Ísland. Einnig stundaði hann hálendisferðir í nokkur ár. Stangveiði var líka stórt áhugamál, einkum laxveiði. Norðurá, Haffjarðará og Álftá á Mýrum urðu oftast fyrir valinu, auk Elliðaánna.

Eyjólfur gekk í Frímúrararegluna 1985 og hafði mikið gagn og gaman af að starfa innan reglunnar, þar sem hann gegndi ýmsum embættum. Síðustu árin naut hann þess mjög að umgangast ættingja og vini, ekki síst barnabörnin, sem voru augasteinar hans.

Útför Eyjólfs verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 13. júní 2022, klukkan 13.

Hún er einkennileg, tilfinningin sem fylgir því að skrifa minningargrein um föður sinn. Tilhugsunin um að þessi maður sem hefur verið svo stór partur af mínu lífi sé farinn er enn óraunveruleg.

Pabba mínum þótti alltaf gott að hafa stjórn á aðstæðum og vildi gera hlutina á sínum forsendum. Pabbi var mikill lífskúnstner, hafði unun af ferðalögum, klassískri tónlist, góðum mat og góðu víni. Að lifa í meinlætum var alls ekki hans stíll. Það kom mér því ekki á óvart þegar hann og mamma sögðu mér frá því að hann hefði afþakkað blóðskilunarmeðferð, enda fylgir henni mikil binding og hún heftir mann að vissu leyti. Síðan þá hafa þau haldið áfram að sinna sínum helstu sameiginlegu áhugamálum – ferðalögum og klassískri tónlist. Síðast fyrir einungis um mánuði síðan í Lundúnaborg.

Mínar fyrstu minningar af pabba eru tengdar fréttum. Hann var langt leiddur fréttafíkill og hlustaði og horfði á alla fréttatíma sem í boði voru. Þessa fíkn erfði ég frá honum eins og Fríða eiginkona mín getur borið vitni um.

Íslensk náttúra var pabba hugleikin. Við áttum margar góðar stundir við ár- og vatnsbakka víða um land þar sem við renndum fyrir fisk, oftast lax. Við árbakkann kenndi hann mér að njóta kyrrðarinnar, hlusta á fuglana og lesa í vatnið.

Kærastar eru þó minningarnar sem tengjast pabba og börnunum okkar Fríðu. Hann ljómaði þegar hann heyrði þau nálgast og brosið var einlægt þegar knús og kossar fylgdu í kjölfarið. Honum fannst gott að hafa líf í kringum sig.

Við Fríða vorum mikið hjá honum og mömmu síðustu vikuna og gerðum okkar besta til að létta undir og láta pabba líða vel.

Það var sárt að heyra pabba segja okkur að nú væri lífsneistinn að slokkna. En þetta var kjarni málsins – hann vildi að við vissum að hans stund væri komin og að hann væri sáttur. Hann brosti til okkar, kyssti okkur og fékk að knúsa barnabörnin hinsta sinni. Pabbi vildi fá að fara heima, í ró og næði, sem hann og fékk.

Eftir stendur tómarúm sem erfitt verður að fylla. En allar góðu minningarnar, sögurnar og ferðalögin – allt sem við náðum að upplifa saman er ómetanlegt. Við minnumst pabba með miklum söknuði, en fyrst og fremst hlýju og þakklæti fyrir allt.

Hvíl í ró og friði, elsku pabbi minn.

Eggert Eyjólfsson.

Okkar kæri vinur, mágur og svili Eyfi er fallinn frá. Við áttum margar mjög góðar samverustundir síðustu áratugi. Eyfi hafði mjög gaman af því að ferðast og fórum við ásamt honum og Eddu í margar ævintýraferðir í Þórsmörk fyrstu helgina eftir áramót. Þetta voru sannarlega svaðilfarir sem Eyfi hafði mjög gaman af. Einnig var hann mjög stoltur þegar við fórum einhverju sinni akandi upp á Snæfellsjökul og komust þau Edda alla leið upp á toppinn, en þangað komust fáir.

Áður fyrr fór fjölskyldan um verslunarmannahelgar í Hvalfjörð og var gist í aðstöðu sem fjölskyldan hafði hjá Hvalstöðinni. Þetta voru góðir tímar hjá okkur.

Mörg síðustu ár fórum við í svokallaðar systkinaferðir, þ.e. systkinin Edda, Ellert og Erla María ásamt mökum fóru í tveggja til þriggja daga ferðir um Suður- og Vesturland og var Stína systir Eyfa oft með. Þetta voru ánægjustundir hjá okkur öllum.

Þá var ógleymanleg ferð sem við hjónin fórum með Eddu og Eyfa í siglingu með skemmtiferðaskipi með ströndum Alaska eitt árið.

Eyfi naut þess að rökræða málin og gat verið fastur fyrir í skoðunum sínum, við vorum oft ósammála, en alltaf í góðu.

Ef það voru veikindi hjá einhverjum í fjölskyldunni, þá var gott að eiga Eyfa að, og var það ósjaldan sem hann lagði gott til málanna.

Eyfi var ekki meinlætamaður á mat og vín, hann naut þess að vera með okkur og tvennum öðrum hjónum í rauðvínsklúbbi til þess að smakka góð vín og góðan mat bæði hérlendis sem og erlendis.

Einnig hafði Eyfi mikinn áhuga á tónlist, laxveiði og knattspyrnu og var Manchester United hans uppáhaldslið.

Okkar bestu samúðarkveðjur til Eddu, Eggerts, Fríðu og fjölskyldu, og þökkum við Eyfa samfylgdina.

Erla María og Steindór.

Þótt við öll vissum að hverju stefndi, þá kemur það einhvern veginn manni samt á óvart þegar kallið kemur. Aðeins þremur dögum áður höfðum við verið saman í stúdentaveislu og eftir veisluna hjálpuðum við Eggert honum út í bíl, þar sem hann átti orðið erfitt með gang. Ekki grunaði mig þá að hann ætti þetta stutt eftir.

Ég kynntist Eyfa fyrst þegar hann bjó við Válastíg í Reykjavík og voru þá Edda systir og Eyfi nýbyrjuð að búa saman. Með okkur tókst góður vinskapur strax, sem átti bara eftir að eflast með árunum. Eyfi var ákaflega þægilegur í umgengni, ráðagóður og gott að leita til hans ef eitthvað bjátaði á, en hann gat líka verið fastur á sinni skoðun þegar svo bar undir.

Eyfi hafði yndi af góðri tónlist, laxveiði, ferðalögum og góðum vínum. En það sem sameinaði áhugamál okkar mest var starf okkar í frímúrarareglunni. Hann var mjög virkur í reglunni og gegndi fjölda embætta í gegnum tíðina. Sótti alltaf fundi mjög vel, allt þar til heilsu hans fór að hraka. Minningin situr eftir um fundarstarfið, ferðalögin erlendis og systrakvöldin. Hans verður sárt saknað.

Eyjólfur var höfðingi heim að sækja og höfðu þau Edda búið sér falleg heimili, hvort sem það var við Vallarbarðið eða Næfurholtið. Alltaf hlökkuðum við til systkinaboðanna sem við höfum haldið til skiptis í mörg undanfarin ár og eins systkinaferðanna sem við fórum saman í á hverju ári.

Í dag kveðjum við góðan dreng og ég bið hinn Hæsta að fylgja honum á þeirri vegferð sem hann hefur nú hafið. Biðjum hann að blessa og styrkja Eddu, Eggert og fjölskyldu sem eiga um sárt að binda við fráfall hans.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Ellert og Júlíana.

Samstarfsfélagi til margra ára er fallinn frá eftir erfið veikindi. Ég hitti Eyjólf fyrst á síðasta ári mínu í læknadeild 1977 er við fórum þrjú verðandi læknar á hans fund til að leita ráða varðandi heimilislækningar. Hann var þá starfandi á læknastöð við Digranesveg og hafði lokið prófi í heimilislækningum frá Skotlandi og var hann einn af okkar fyrstu læknum með heimilislækningar sem sérnám. Hann tók okkur vel og við fórum frá honum sannfærð um ágæti heimilislækninga. Að loknu námi mínu í heimilislækningum í Svíþjóð var enga stöðu að fá á höfuðborgarsvæðinu og ekki að finna mikinn vilja ráðamanna til að bæta úr. Ég réð mig því í afleysingar í Keflavík en fékk ári síðar upphringingu frá Eyjólfi. Hann hafði fundið með félaga sínum Bergi Vigfússyni hjá Sjúkrasamlagi Kópavogs leið til að ég gæti hafið vinnu í Kópavogi. Var það með því að gera samning við Sjúkrasamlagið um vinnu sem sjálfstætt starfandi heimilislæknir og fá aðstöðu inni á Heilsugæslustöð Kópavogs í Fannborg sem hafði þá starfað í fjögur ár en Eyjólfur var þar yfirlæknir. Þetta gekk eftir en samningurinn var síðar felldur úr gildi og auglýstar stöður heilsugæslulæknis sem ég sótti um og fékk. Eyjólfur var svolítið af gamla skólanum og ekki yfir sig hrifinn af sænsku áhrifunum sem sóttu mjög á. „Svona er kannski gert í Svíþjóð en svona gerum við hér.“ Gott var að vinna með Eyjólfi og hann var góð fyrirmynd fyrir okkur nýbyrjaða heimilislækna. Hann tók talsverðan þátt í félagstörfum og m.a. var hann formaður Félags íslenskra heimilislækna í nokkur ár og gegndi einnig stöðu trúnaðarlæknis á nokkrum stofnunum. Þá var hann lektor í heimilislækningum við læknadeild HÍ. Á upphafsárunum var þetta karlastétt að mestu og fyrstu árin í Kópavogi var bara ein kona á móti fimm körlum. Þegar opnuð var önnur heilsugæslustöð í Kópavogi í Hvammi 1999 flutti Eyjólfur sig þangað ásamt hluta samstarfsfélaga. Heimilislækningar geta verið lýjandi til lengdar og það ásamt fleiri þáttum leiddi til þess að Eyjólfur sótti sér sérfræðiviðurkenningu í öldrunarlækningum. Hann hóf störf á Öldrunarlækningadeild Landspítala en var sárt saknað á heilsugæslunni af sjúklingum jafnt sem samstarfsfólki. Þegar leiðir okkar lágu síðast saman fyrir rúmum mánuði var nokkuð ljóst að hverju stefndi en kallið kom þó fyrr en maður átti von á. Kæra Guðbjörg Edda, innilegar samúðarkveðjur frá okkur Helgu Láru.

Björn Guðmundsson.

Sum augnablik í tilverunni breyta miklu. Ég minnist þess þegar ég mætti Eyjólfi Haraldssyni fyrir tilviljun, fyrir tæpum aldarfjórðungi, þar sem hann gekk inn á Landspítalann í Fossvogi til að vitja aldraðrar móður sinnar. Ég vissi mæta vel hver Eyjólfur var en þekkti hann ekki persónulega. Eyjólfur var vel menntaður lyflæknir frá Skotlandi. Þegar heim var komið lagði hann heimilislækningar fyrir sig, þegar sú grein var að springa út sem sérgrein. Hann varð einn af brautryðjendum greinarinnar á Íslandi.

Við tókum tal saman. Í þessu stutta samtali skynjaði ég að hann væri opinn fyrir breytingum. Ég benti honum á töfra öldrunarlækninga. Skömmu síðar afréð hann að koma til starfa á öldrunarlækningadeild Landspítala, þar sem hann lauk tveggja ára sérnámi í greininni og varð fyrsti læknirinn til að ljúka slíkri þjálfun á Íslandi. Eyjólfur vann síðan sem sérfræðingur á deildinni í tíu ár eða allt fram að starfslokum.

Eyjólfur var afar góður læknir. Hann var öðlingur sem kom fram af hlýju og umhyggju, jafnt við fólkið sem hann þjónaði og samstarfsfélaga. Hann var glaðlyndur og stutt í brosið. Eyjólfur missti aldrei neistann og honum fylgdi ævinlega gleði. Hann var auðmjúkur gagnvart læknisstarfinu og allt fram að starfslokum vatt hann sér af og til inn á skrifstofuna til að ræða flókin viðfangsefni. Á sama tíma glímdi efnilegur yngri sonur hans og Guðbjargar Eddu við illkynja sjúkdóm um árabil og féll að lokum frá í blóma lífsins. Sorg fjölskyldunnar var sár og djúp. Þessari sögu deildi Eyjólfur með læknum á læknadögum og sýndi með því mikinn styrk. Frásögnin snerti hjartastreng og situr í minningunni. Áður hafði Eyjólfur misst fyrri konu sína unga.

Eftir starfslok hélt Eyjólfur sambandi við okkur öldrunarlækna og fylgdist vel með. Á síðustu árum þróaði Eyjólfur með sér langvinnan sjúkdóm, sem hann talaði opið um og af æðruleysi. Ég minnist samtals við hann. Eyjólfur var alls óhræddur og með skýrar hugmyndir um framvinduna. Hann vildi ekki hátækniinngrip og var sáttur við lífið sem hann hafði lifað og fært honum bæði gleði og sorg. Góður maður er genginn. Guðbjörgu Eddu og Eyjólfi syni þeirra og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Pálmi V. Jónsson.