Magdeburg Þýsku meistararnir tóku við verðlaununum í gær.
Magdeburg Þýsku meistararnir tóku við verðlaununum í gær. — Ljósmynd/Magdeburg
Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar þeirra í Magdeburg tóku við þýska meistaraskildinum í gær eftir heimasigur á Rhein-Neckar Löwen, 37:34, í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik.

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar þeirra í Magdeburg tóku við þýska meistaraskildinum í gær eftir heimasigur á Rhein-Neckar Löwen, 37:34, í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik.

Magdeburg hafði þegar tryggt sér sinn annan titil í sögunni þegar liðið átti þrjá leiki eftir og það hafði mikla yfirburði í vetur, var efst frá byrjun tímabils og vann 32 leiki af 34, sem er fáheyrt í þessari sterku deild. Magdeburg endaði sex stigum ofar en Kiel sem hafnaði í öðru sæti.

Ómar skoraði sex mörk og Gísli fjögur og Ómar varð þar með næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 237 mörk en hann varð markakóngur hennar í fyrra. Nú var það hinsvegar hinn íslenskættaði og fertugi Hans Óttar Lindberg sem varð markakóngur með 242 mörk en hann skoraði níu mörk fyrir Füsche Berlín í lokaumferðinni í gær.

Bjarki Már Elísson varð síðan þriðji markahæstur með 234 mörk en hann lét sér nægja fjögur mörk í sigri Lemgo á Hamburg, 28:24.

Alexander Petersson steig af stóra sviðinu í gær en hann skoraði þá tvö mörk fyrir Melsungen sem tapaði 28:25 fyrir Stuttgart. Alexander, sem verður 42 ára í júlí, á að baki 20 ára feril í þýsku deildinni og er einn af leikjahæstu mönnunum í sögu hennar en áður hafði hann leikið í fimm ár með Gróttu/KR.

Í B-deildinni var Guðjón Valur Sigurðsson kjörinn þjálfari ársins en Gummersbach vann þar yfirburðasigur.