Auður Magnúsdóttir fæddist 12. apríl 1924. Hún lést 11. maí 2022. Útför Auðar fór fram í kyrrþey 27. maí 2022.

Auður var fyrirburi og vart hugað líf eftir að hún fæddist. Ólína móðir Auðar lést einungis fjórum dögum eftir fæðinguna. Vegna aðstæðna var Auður send í fóstur að Gunnlaugsstöðum á Fljótsdalshéraði þar sem hún ólst upp við gott atlæti. Gunnlaugsstaðir eru í næsta nágrenni við Hallormsstaðarskóg og hinn fallega og vinsæla áningarstað Atlavík við Lagarfljótið.

Auður var send í nám að Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Uppi á héraði kynntist hún eiginmanni sínum Rögnvaldi Sigurðssyni trésmíðameistara. Þau bjuggu um skeið á Seyðisfirði ásamt fjórum börnum sínum áður en þau fluttu til Reykjavíkur. Hún vann lengst af við verslunarstörf og heimaþjónustu í Reykjavík. Skömmu eftir að Auður varð ekkja flutti hún í litla íbúð í Hörðalandi 22 í Reykjavík sem reyndist henni mikið gæfuspor. Hún undi sér vel í Hörðalandi í yfir 30 ár með yndislegum nágrönnum sem reyndust henni sannkölluð stoð og stytta. Á góðviðrisdögum hafði hún yndi af því að sitja í litla skjólgóða garðinum fyrir framan íbúðina sína. Hún las bæði bækur og dagblöð og fylgdist alla tíð vel með þjóðmálum.

Auður var létt í lund en hlédræg að eðlisfari, hún var samt mikil félagsvera og fannst gaman að vera innan um fólk. Henni fannst gott að fara í sund og í Múlabæ ásamt starfi eldriborgara í Bústaðakirkju. Þrátt fyrir að hún ætti æ erfiðara með gang vegna gigtar var hún mjög sjálfstæð og keyrði bíl fram á 92. aldursár og vildi alltaf komast áfram á eigin forsendum. Það var henni því mikil frelsisskerðing þegar hún þurfti að hætta að keyra bíl. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá henni en aldrei þannig að það væri meiðandi eða á kostnað annarra og hún gerði óspart grín að sjálfri sér. Einhvern tíma þegar hún var búin í einni af mörgum mjaðmaskiptaaðgerðum sínum þá sagði hún glettin að það væri bara verið að skipta um varahluti í henni eins og bílnum hennar.

Hennar stóra fjölskylda skipti hana mestu máli og fylgdist hún alltaf vel með öllum, ekki síst yngsta fólkinu. Það er minnisstætt þegar gesti bar að garði, þá hitaði hún alltaf kaffi í mokka espresso-kaffikönnunni sinni á eldavélarhellunni þar til kannan fór að flauta, þá var kaffið tilbúið. Síðan dró hún fram bakkelsi sem hún átti alltaf handa gestum og gangandi. Auður vildi líta vel út og alveg fram á síðasta dag fannst henni mikilvægt að vera snyrtilega til fara og með fallegt hár. Lífið lék ekki alltaf við Auði og á fyrstu árunum eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur var oft erfitt að ná endum saman. Hún hafði ríka réttlætiskennd og lét það óspart í ljós ef henni fannst hallað á minnimáttar í samfélaginu.

Auður var aldrei rík að veraldlegum auði en átti þeim mun meira af hjartahlýju. Þessi litla pena kona sem var vart hugað líf eftir að hún kom í heiminn var dugnaðarforkur. Hún kvaddi sátt við lífið og tilveruna og erum við þakklát fyrir að hafa átt hana svona lengi að. Eins og hún sagði sjálf: það verður forvitnilegt þetta síðasta ferðalag.

Hvíl í friði elsku mamma og tengdamamma.

Arnaldur Austdal og Patrina Margaret.