[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir situr að hægt er að dást að þrekvirkinu sem felst í því að koma þessum fjölmenna og flókna heimi á leiksviðið og skemmtilega útpældu samspili sviðs og skjáa.

Af leiklist

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Það er ávallt tilhlökkunarefni þegar leikhúslistamaðurinn Kristján Ingimarsson kemur heim til Íslands með sýningar sínar. Kristján býr og starfar í Danmörku, þar sem hann hefur á síðustu áratugum þróað sinn sérstaka stíl. Þar fær líkamstjáningin að njóta sín í sýningum sem að stærstum hluta eru leiknar án orða. Enginn sem sá Creature í Þjóðleikhúsinu 2009 gleymir lokaatriði þeirrar sýningar, þegar Kristján sigldi á brimbretti yfir áhorfendasalinn með hjálp leikhúsgesta. Engan skal heldur undra að BLAM! hafi slegið í gegn þegar verkið var sýnt í Borgarleikhúsinu 2013. Þar blandaði Kristján saman fáránlegum ofbeldisheimi hasarmynda og niðurdrepandi umhverfi skrifstofumannsins með óborganlegum hætti og storkaði þyngdarlögmálinu í einu flottasta atriði verksins.

Nýjasta afurð Kristjáns, sem íslenskum leikhúsgestum gafst nýverið tækifæri á að sjá á Stóra sviði Borgarleikhússins, nefnist Room 4.1 Live . Það verk var frumsýnt í Danmörku haustið 2019 og tilnefnt til Reumert-sviðslistaverðlaunanna þar í landi. Uppfærslan hérlendis var samstarfsverkefni Kristján Ingimarsson Company, Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins, en fjölmennur hópur tekur þátt á sviðinu. Óhætt er að lýsa verkinu sem blöndu af myndbandsverki, leik- og dansverki þar sem tilkomumikil leikmynd úr smiðju Kristjáns, Charlotte Calberg og Kristians Knudsen var svo sannarlega í aðalhlutverki.

Leikmyndin samanstendur af sjúkraherbergi sem staðsett er inni í stóru hjóli sem má snúa eftir þörfum. Báðum megin við hjólið eru tveir stórir skjáir, þar sem sjá má það sem fram fer í herberginu, sem skapar skemmtilegar andstæður þegar herberginu er snúið. Þannig gefur útkoman á skjánum til kynna að verið sé að snúa upp á þyngdarlögmálið, sökum þess að myndavélarnar fylgja hreyfingu herbergisins. Á stundum er þessum búnaði öllum ýtt aftast á sviðið og annað sambærilegt sjúkraherbergi á litlum hjólum birtist, sem hægt er að hringsnúa en ekki hvolfa.

Í viðtali við Morgunblaðið lýsti Kristján því að hann hefði upphaflega ekki hugsað Room 4.1 Live sem leiksýningu, heldur byggt verkið á örþáttum sem hann gerði fyrir netið og aðgengilegir eru á vefslóðinni room4.one. Það skýrir sennilega að stórum hluta hversu brotakennd sýningin er og laus við rökræna framvindu. Sjálfur mun Kristján hafa nefnt að hann sé í verki sínu innblásinn af súrrealísku kvikmyndinni eftir Federico Fellini og ljóst má vera að súrrealisminn er allsráðandi.

Á sviði Borgarleikhússins virðist ytri rammi verksins vera upptökur undir stjórn Kristjáns, þar sem hann fer með hlutverk manns að nafni Vincent, sem er að drepast í fingrinum og sökum þess lagður inn á sjúkrahús. Ýmislegt bendir þó til þess að það séu ekki líkamleg veikindi sem hrjái Vincent, heldur andleg. Þegar kærasta Vincents (Rakel Björk Björnsdóttir) mætir í heimsókn á spítalann, leiðist honum svo vælið í henni að hann brýtur sér leið gegnum vegg með höfðinu, sem situr í framhaldinu pikkfast í dágóðan tíma. Við það virðist opnast önnur vídd, jafnvel inn í höfuð Vincents. Á þeirri stundu stígur Kristján út úr hlutverki sínu sem Vincent og tekur að sér hlutverk leikstjóra alls þess sem fyrir augu ber. Thomas Bentin leikur Vincent til enda. Áður en yfir lýkur hefur hópi áhorfenda boðist að stíga inn í hlutverk Vincents með því að sveipa höfuð sitt grisju og mæta persónum verksins á sviðinu.

Leikstjórinn í túlkun Kristjáns er býsna æstur í stjórnunarstíl sínum með tilheyrandi hrópum og köllum þar sem hann stjórnar öllu með harðri hendi. Kvikmyndaleikstjóranum gremst þegar staðgengill hans er ekki tilbúinn að taka þátt í miklu áhættuatriði og þarf því sjálfur að útfæra eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar, þegar Vincent hangir lóðréttur með höfuðið fast í veggnum. Kristján hefur í samstarfi við aðra þátttakendur sýningarinnar hannað nákvæmar dans- og sviðshreyfingar sem vekja sannarlega aðdáun, ekki síst kóreógraferaðar bardagasenur þar sem náttúrulögmálum er storkað.

Margt furðulegt ber fyrir augu í þeim undraheimi sem Kristján skapar á sviðinu. Ísbjörn ráfar reglulega um sviðið, þar til hann mætir grimmum örlögum, fáklæddur maður ýmist gengur eða svífur yfir sviðið með allt sitt hafurtask á bakinu í anda lykilsenu kvikmyndarinnar The Labyrinth (1985), Vincent dansar líkt og Christopher Walken í tónlistarmyndbandinu við „Weapon Of Choice“ í sjúkraherberginu sem hringsnýst. Þar mætir hann öðrum persónum og leikendum sýningarinnar líkt og á færibandi. Særingar koma ekki í veg fyrir að konur takist á loft eða gangi eins og köngulær í loftinu í anda kvikmyndarinnar The Exorcist (1973) og líflausir, naktir líkamar koma skyndilega flæðandi gegnum vegginn og enda í einni kös á gólfi sjúkraherbergisins. Líkamleikinn er yfir og allt um kring í verkinu þar sem blóð jafnt sem saur drýpur af aðalpersónunni.

Óhætt er að segja að Kristján hafi enn einu sinni boðið íslenskum áhorfendum upp á mikið sjónarspil þar sem unnið er með margvíslegar vísanir, jafnt í dægurmenninguna og biblíuna. Óljósara er hins vegar hvað eigi að lesa í allt það sem fyrir augun ber. Hver eru tengsl sýndar og reyndar í heimi sem virkar eins og sýrutripp? Hvers vegna óttast Vincent læknisklæddu manneskjuna sem virðist í senn vera karl og kona? Hvers vegna eru lykilkonurnar í heimi Vincents jafn klisjukenndar og raun ber vitni þegar þær birtast sem vælandi kærasta (Rakel Björk), geðveik andsetin hjúkka (Inga Maren Rúnarsdóttir) og fáklædd glyðra (Noora Hannula)? Hvaða ógn stendur af villidýrinu sem lætur lífið áður en yfir lýkur? Engin tilraun er gerð til að svara þessum spurningum né öðrum sem vakna við áhorfið, en sennilega var það heldur ekki ætlunin. Eftir situr að hægt er að dást að þrekvirkinu sem felst í því að koma þessum fjölmenna og flókna heimi á leiksviðið og skemmtilega útpældu samspili sviðs og skjáa.