Alfa Kolbrún Þorsteinsdóttir fæddist 13. júlí 1945 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum Hringbraut, 28. maí 2022.

Foreldrar hennar voru Vigdís Jónsdóttir, f. 1915 og Þorsteinn Ólafsson, f. 1916. Þau eru bæði látin. Bróðir hennar var Harald Sigurvin f. 1943. Hann lést árið 2013.

Fyrri eiginmaður Kollu var Gunnar Ingason, f. 1940, hann lést af slysförum. Seinni eiginmaður hennar til fjörutíu ára var Ingimundur Jón Einarsson, f. 1941, látinn 2016. Saman áttu þau engin börn. Börn Ingimundar af fyrra hjónabandi eru: 1) Jóhann Örn, f. 1962, maki Agla Sigríður Björnsdóttir, f. 1965. Dóttir þeirra er Birna Kolbrún, f. 2006. Áður átti Jóhann þrjú börn úr fyrra sambandi, Hafþór, f. 1987, Ólaf Auðun, f. 1991, og Lindu Guðrúnu, f. 1994. 2) Svava Eyrún, f. 1964, maki Jónas Mikael Pétursson, f. 1964. Synir þeirra eru Jón Mikael, f. 1982, Viktor Már, f. 1985, og Þröstur Mikael, f. 1999. 3) Jón Ingi, f. 1967, maki Soffía H. Weisshappel, f. 1972. Börn þeirra eru Gabríela Sól, f. 1999, Mikael Máni, f. 2006, og Patrek Máni, f. 2014. Áður átti Ingimundur dóttur, Gunnfríði, f. 1960, maki Ásdís Hrönn Hilmarsdóttir, f. 1963. Barnabarnabörnin eru þrettán samtals.

Kolla vann við hannyrðir og saumastörf alla tíð, m.a. hjá saumstofunni Hildu, Sjóklæðagerðinni og Max, sem síðar varð 66°N. Hún lauk starfsferli sínum hjá Garðheimum í Mjódd.

Útför Kollu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 13. júní 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

„Mundi og Kolla“, „amma og afi í Blikó“, þetta voru upphafsorð minningargreinar sem ég ritaði um hann Munda tengdapabba minn fyrir örfáum árum. Þau upphafsorð eiga líka vel við í dag en þessi orðatiltæki hafa verið sögð á mínu heimili um árabil og eru greypt í huga okkar. Í dag kveðjum við hana Kollu sem er án efa komin til hans Munda síns í Sumarlandið.

Þau voru órjúfanleg heild og eftir andlát Munda haustaði hjá Kollu og það var langt haust – og þó svo að vorið kæmi og sumarið, þá kom sumarið samt aldrei alveg.

Ástin er í alls konar myndum og eitt af því að elska er að sakna þeirra sem farnir eru. Kolla saknaði hans Munda síns og ég sakna þeirra beggja. Munda og Kollu kynntist ég fyrir margt löngu þegar við Jói fórum að stinga saman nefjum og á meðan krakkarnir voru litlir voru fastir liðir að mæta reglulega í mat til þeirra og var alltaf mikil tilhlökkun hjá krökkunum að fara í mat til ömmu og afa í Blikó. Fyrir 19 árum fluttist mamma inn á hæðina fyrir neðan þau og var ómetanlegt fyrir hana að hafa þau í nálægð við sig. Þau báru öll umhyggju hvert fyrir öðru og eftir að Mundi dó litu þær mamma til með hvor annarri. Mamma fór upp í kaffi til Kollu og Kolla kom ósjaldan niður í mat og kaffi til mömmu. Við fórum líka stundum allar í ísbíltúr eða í Garðheima að kaupa sumarblóm.

Mamma fluttist á hjúkrunarheimili fyrir nokkrum vikum og var Kollu umhugað um að henni liði vel og spurði ætíð hvort hún væri sátt. Kolla var sjálf orðin heilsutæp en hún vildi ekkert vera að láta vesenast með sig og reyndi að vera sjálfbjarga um flest. Kolla var mjög listræn í sér, prjónaði fleiri en eina peysu á nöfnu sína hana Birnu Kolbrúnu, heklaði, settist við saumavélina og lagfærði flíkur ef þess þurfti og seinustu árin dundaði hún sér við að lita myndir og eru ófáar litabækurnar sem hún hefur litað í.

Um leið og ég kveð hana Kollu mína vil ég þakka samfylgdina og umhyggjuna og bið að heilsa honum Munda.

Agla Sigríður Björnsdóttir og fjölskylda.

Árla morguns vaknaði ég við símtal frá spítalanum, þar sem ég var beðin að koma, því heilsu Kollu hafði hrakað um nóttina. Við drifum okkur af stað en það kom fljótt í ljós að ekki varð aftur snúið. Þrátt fyrir að heilsu hennar hefði hrakað síðustu ár, þá sér í lagi eftir að Mundi dó, áttum við ekki von á þessu núna. Við héldum að hún myndi hrista þetta af sér líkt og hún hafði gert áður. Ég er ótrúlega þakklát fyrir samverustundina sem við áttum kvöldið áður en hún lést. Eins og svo oft áður, skrapp ég til hennar á spítalann. Við fórum fram í setustofu og horfðum á útsýnið yfir Öskjuhlíðina og heiðbláan himin. Við spjölluðum um ýmislegt, m.a. um að nú færi hún örugglega að hressast fljótlega. Auk þess ráðgerðum við smurbrauðshitting í hádeginu daginn eftir. Af honum varð þó aldrei.

Leiðir okkar lágu saman fyrir 32 árum, þegar ég kynntist Jóni Inga, yngsta syni Munda og stjúpsyni Kollu. Mér var strax vel tekið og við urðum miklir mátar. Ég gerði mér fljótt grein fyrir því að þarna var á ferðinni kona sem hafði sterkar skoðanir og var ekkert að fara í kringum hlutina. Hún sagði það sem henni fannst og hlógum við stundum í sameiningu að því. „Ég meina, til hvers að fara í kringum hlutina Soffía mín, þegar þeir eru eins og þeir eru,“ sagði hún stundum við mig.

Ég á ófáar minningar um samverustundir okkar hjóna með Kollu og Munda, hvort sem var hringferð um landið, ferðir til útlanda, heimsóknir í hjólhýsi þeirra hjóna á Laugarvatni, þar sem nostrað var við hverja fjöl og hverja rós, eða heimsóknir um helgar þar sem við gátum spjallað um allt og ekkert yfir kaffibolla. Missir hennar var mikill þegar Mundi lést árið 2016 og hefur hún í kjölfarið mest viljað vera heima hin síðari ár. Við höfum átt ófáar samverustundirnar við eldhúsborðið hjá henni í Blikó þar sem mikið var spjallað. Rifjaðar voru upp minningar frá árum áður um leið og hún spurði frétta af barnabörnunum. Henni var umhugað um þau og mikið í mun að allt gengi sem allra best hjá þeim.

Kæru aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og í sameiningu höldum við minningum um Kollu á loft. Elsku Kolla, hvíl í friði og takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Soffía W. og fjölskylda.

Elsku amma Kolla í Blikó (eða Bleikuholu eins og við rugluðumst stundum á) er farin frá okkur. Við minnumst heimsóknanna til ömmu Kollu og afa Munda, hvort sem var í Kollukot, hjólhýsið á Laugarvatni eða í Blikó. Þau tóku alltaf svo vel á móti okkur og spurðu frétta um það sem var að gerast í okkar lífi; hvort sem það var skólinn, íþróttirnar eða annað. Eitt sem við minnumst er að þegar við komum í einhverju nýju eða sögðum henni frá að við hefðum fengið eitthvað þá sagði hún alltaf: „Heyrðu þú notar þetta nú bara spari, það þýðir ekkert að skemma þetta strax.“ Amma vildi alltaf að við hefðum það sem allra best og værum að gera það sem okkur langaði til í lífinu. Við vorum varla stigin inn um dyrnar þegar hún bauð okkur að fá okkur að borða, það var eiginlega ekki hægt að segja nei takk við hana. Við gátum líka gengið að því vísu að það væru alltaf til kökur og ís.

Missir ömmu var mikill þegar afi Mundi lést árið 2016 og vildi hún helst vera heima hjá sér og því heimsóttum við hana oftar en hún kom til okkar síðustu árin. Við erum svo heppin að eiga góðar minningar um þig sem við munum halda á lofti með því að hugsa til þín á hverjum degi. Elsku amma takk fyrir allt, við elskum þig endalaust mikið. Þín barnabörn,

Gabríela Sól, Mikael Máni og Patrek Máni.

Á ferðalagi okkar í gegnum lífið hittum við og kynnumst mörgum. Sumir ganga með okkur stuttan spöl en aðrir verða okkur samferða lengri leið í lífinu og verða stór hluti af tilveru okkar. Í dag kveðjum við slíkan vin, hana Kollu okkar.

Með Kollu og Munda hefur margt verið brallað í gegnum tíðina. Mörgum laugardagskvöldum var eytt við spjall og spil, oft var tekið til hendinni við hin ýmsu áhugamál, að ógleymdum öllum ferðunum og útilegum kringum um landið. Um tíma áttum við eins Esterel-fellihýsi sem við vorum dugleg að ferðast með. Kolla sá húmorinn í því, hló og kallaði þá Munda og Stebba vinina með tvíburavagnana. Hún var hnyttin og skemmtileg.

Kolla var mikil smekkkona og ávallt fín og hugguleg til fara. Hún lagði sig fram við að hafa allt sem snyrtilegast. Allt í kringum þau hjónin lýsti mikilli natni og myndarskap. Ber kotið þeirra á Laugarvatni vel þess merki þar sem nostrað var við hvern krók og kima. Hlaut lóðin þeirra verðlaun fyrir snyrtilega og fallega ásýnd.

Kolla var vinur vina sinna sem sýndi sig í einstökum vinskap og trygglyndi, jafnt í gleði og sorg. Ómetanlegur var styrkur hennar og Munda er Stefán okkar féll frá. Betri vini er vart hægt að hugsa sér. Nú skiljast leiðir og Kolla heldur sína leið inn í sumarlandið til þeirra sem sem bíða hennar þar. Takk elsku Kolla fyrir samfylgdina í gegnum árin.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Ása, Sigrún, Sigurður og Svanhvít.